134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[17:55]
Hlusta

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel ósköp einfaldlega að það skorti á að útskýra hverju það breyti að staða rúmenskra og búlgarskra ríkisborgara verði næstu missirin með þessum hætti en ekki eins og annarra borgara á EES-svæðinu. Það þarf að taka á þessum málum hvort sem er, hv. þingmaður, augljóslega. Það að þýða þurfi einhver gögn yfir á rúmensku og búlgörsku er frekar fátæklegt og ætti ekki að standa lengi í mönnum. Það er ekki eins og þetta eigi að koma mönnum algerlega á óvart. Ég veit ekki betur en þetta sé búið að liggja fyrir lengi. Það er til skammar fyrir kerfið að það sé svona illa undirbúið þegar að þessu kemur loksins. Þetta hefur reyndar tafist lengi vegna deilna um greiðslur EES-ríkjanna í sjóðina. Þetta er ekki eitthvað sem menn voru að uppgötva í gær að væri í vændum. Það er fátækleg málsvörn.

Ég held að sjálfsögðu að allir vilji leggja sitt af mörkum til að tryggja að ekki verði níðst á þessu fólki. Við gefum okkur það sem útgangspunkt í umræðunni. En er þá endilega víst að það sé betur statt næsta eitt og hálft árið, að hafa ekki sömu stöðu og aðrir á vinnumarkaðnum að þessu leyti? Er það endilega víst, t.d. ef það leiðir til þess að einhverjir þeirra komi inn í gegnum starfsmannaleigu í staðinn fyrir að gera það með venjulegum hætti?