134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[17:56]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð í kjölfar þessara skoðanaskipta sem hafa átt sér stað vegna þeirra tveggja nefndarálita sem hafa verið til umræðu um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

Það kom mér á óvart að lesa nefndarálit minni hlutans í ljósi þess að ítarlegur rökstuðningur kom fram frá öllum þeim sem komu á fund hv. utanríkismálanefndar fyrir því að nýta bæri þennan frest. Ég verð að segja að ég hafði ákveðnar efasemdir um að við ættum að nýta frestinn. En það var enginn efi í mínum huga eftir að hafa hlýtt á fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar og fulltrúa þeirra sem sátu fund nefndarinnar.

Mér finnst sérkennilegt að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem segir að hann hafi kynnt sér þau gögn sem lögð hafa verið fram í nefndinni, skuli engu að síður segja í nefndaráliti minni hlutans að það sé eðlilegt að gera kröfu til þess að stjórnvöld rökstyðji með fullnægjandi hætti hvers vegna þau telji nauðsynlegt að beita þessum ákvæðum. Þau rök komu mjög skýrt fram frá öllum aðilum. Ekki bara frá stjórnvöldum. Ekki bara frá þeim sem sjá um að taka á móti þeim sem hingað vilja koma. Sama gilti um verkalýðshreyfinguna og aðila vinnumarkaðarins, að nýta bæri þetta eina og hálfa ár. Þetta er ekki nema eitt og hálft ár. Það er mjög margt sem á eftir að gera. Það á eftir að þýða á viðkomandi tungumál alls konar gögn sem er sjálfsagt er að þeir sem koma hingað til að starfa geti kynnt sér á sínu eigin tungumáli.

Maður hefur á tilfinningunni þegar maður les nefndarálit minni hlutans að hér sé bara verið að leggja álitið fram til að vera á móti. Ég er sannfærð um að ef fulltrúi frá Vinstri grænum hefði setið fundinn þá hefði nefndarálitið ekki orðið í þessa veru. Ég trúi því ekki. Ég veit að þingmenn Vinstri grænna skilja … (SJS: Þetta er bara fullkomlega ómerkilegur málflutningur.) Þetta er ekki ómerkilegur málflutningur. Ég er sannfærð um að skynsemi þessara þingmanna hefði sagt þeim að taka þetta eina og hálfa ár í undirbúning til að hægt yrði að taka sómasamlega á móti þessum þjóðum.