134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

6. mál
[18:39]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skil málflutning hv. ræðumanns miklu betur ef hann grundvallast á einhverri umræðu sem hér fór fram um einhver önnur mál fyrr í dag. Ef hún sem umhverfisverndarsinni vill fjalla um hina nýju ríkisstjórn og stefnuyfirlýsingu hennar kemur mér satt að segja á óvart að hún sé ekki í þessum ræðustóli til þess að fagna. Eftir 12 ára samstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þar sem engu var eirt í þeim efnum en farið áfram á fullri ferð í stóriðjuuppbyggingu og virkjunum er tekin við ný ríkisstjórn sem hefur ákveðið að staðnæmast, að taka tillit til þeirra viðhorfsbreytinga sem orðið hafa í samfélaginu öllu, meira að segja í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði því að hv. þingmaður þarf ekki að leita lengra en til formanns síns til að sjá viðhorfsbreytingar til einstakra virkjanaframkvæmda í landinu á undraskömmum tíma.

Ég held að það sé málefnalegt samkomulag Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar að fara einfaldlega yfir þessi mál, kortleggja náttúru landsins og taka ákvörðun um það hvað við ætlum að varðveita um alla framtíð og hvað við ætlum að nýta og reyna að ná um það sem víðtækastri sátt. Ég held að allir umhverfisverndarsinnar í landinu hljóti að fagna því að stærsti meiri hluti sem setið hefur hér í þessu þingi skuli hafa náð samstöðu og samkomulagi um þessa gerbreyttu stjórnarstefnu að þessu leyti.

Ég ætla ekki að fara að telja upp alla þá staði sem vísað er til í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en Íslendingar þekkja þá staði í náttúru landsins og vita hversu gríðarleg verðmæti þar eru og hversu mikilvæg þessi áætlun stjórnarinnar er. Það er þannig að þar stendur ákaflega skýrum stöfum að (Forseti hringir.) það eigi að stækka friðlandið í Þjórsárverum, og það (Forseti hringir.) munum við gera enda erum við við stjórnvölinn, hv. þingmaður.