134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

6. mál
[18:44]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar stefnu ríkisstjórnarinnar held ég að vart sé hægt að komast skýrar að orði en svo að fyrir liggur sú yfirlýsing að ekki verði ráðist í framkvæmdir í Norðlingaöldu á þessu kjörtímabili.

Í öðru lagi liggur fyrir að unnin verður rammaáætlun sem verður lokið fyrir árslok 2009. Þar verður að sjálfsögðu fjallað um Þjórsárver og alla aðra virkjunarkosti, skoðað verndargildi þeirra og nýtingargildi. Sú rammaáætlun fer síðan fyrir Alþingi þannig að þingmönnum gefst tækifæri til þess að ræða þá áætlun. Þetta eru lykilatriði málsins.

Síðan er það hitt að ég get ekki tekið undir og samþykkt það að því sé lýst þannig að við Íslendingar séum alveg sérstaklega aftarlega á merinni hvað varðar umhverfismál. Það er svo margt sem gerir þá fullyrðingu ranga, þótt ekki væri nema þegar litið er til þess hversu stór hluti af okkar landi er núna þjóðgarðar eða vernduð svæði borið saman við önnur ríki í kringum okkur og reyndar bara hvar sem er í heiminum.

Eins er það að við höfum auðvitað náð heilmiklum árangri hvað varðar endurnýjanlegar orkulindir þó að vissulega getum við gert betur. Ég bendi t.d. á það frumkvæði ríkisstjórnarinnar að ýta undir það að bílafloti hins opinbera muni nýta endurnýjanlega orkugjafa og ýmis önnur slík verkefni, eins og t.d. Kolvið, sem ég tel að séu mjög til fyrirmyndar.

Ég mótmæli því líka harðlega að lýsa t.d. Landsvirkjun og stjórn þess fyrirtækis um áraraðir sem einhvers konar gráðugum gróðaöflum. Ég held að þeir sem þar hafi setið hafi unnið af heilum hug fyrir land sitt og þjóð til þess að efla Ísland. Það er ekki allt hafið yfir vafa eða gagnrýni en ég held að það sé of langt gengið að lýsa því með þeim hætti sem var gert úr ræðustól áðan.

Bara rétt að lokum, endalok stórvirkjana væru það ef við kæmumst að þeirri niðurstöðu að þær virkjanir sem eru (Forseti hringir.) fyrirhugaðar í Þjórsá stæðust ekki umhverfismat. Þær hafa farið í gegnum umhverfismat og hafa staðist það mat þannig að (Forseti hringir.) ég á von á því að þær fari í gegn.