134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

6. mál
[18:46]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu er mér mjög hugleikið hafandi farið mikið um þetta svæði sem um er talað. Ég undraðist því mjög, ég held að það hafi verið sama dag og tilkynnt var um hina nýju ríkisstjórn, en þá lentum við þingmenn Suðurkjördæmis saman á fundi á Laugalandi í Holtum, ég og hæstv. fjármálaráðherra og þar lýsti hann fyrst þeirri skoðun, sem seinna heyrðist svo frá hæstv. forsætisráðherra, að hann teldi í rauninni áfram möguleika á því að ráðast í Norðlingaölduveitu þrátt fyrir ákvæði stjórnarsáttmálans.

Yfirlýsing beggja þessara ráðherra hefur að vísu verið, eins og ég hef skilið hana, mjög óljós og ég fagna því að hv. þm. Illugi Gunnarsson hefur hér tekið þar af öll tvímæli að það er ekki á áætlun að núverandi ríkisstjórn ráðist í gerð Norðlingaölduveitu. Ég tel það mjög brýnt. Þar með er ég ekki að taka undir allt sem sagt hefur verið um hinn gríðarlega umhverfisskaða af Norðlingaölduveitu. Ég hef ákveðnar efasemdir um sumt af því, ég hef ákveðnar efasemdir þegar ég heyri að fólk vill teygja friðland Þjórsárvera alveg niður að Sultartanga, niður fyrir Gljúfurleit og niður fyrir Starkað. Ég skil ekki alveg þau landamerki en það er ábyggilega bara af þeirri vitleysu að ég hef verið að þvælast þarna. Maður þarf að hafa haldið sig frá svæðinu til að skilja landamæri eins og þessi.

Ég held aftur á móti að sá árangur sem náðst hefur í umhverfisvernd sé mjög mikilsverður og okkur ber að virða það frumkvæði umhverfisverndarsinna, sem margir töluðu mjög fyrir daufum eyrum þegar baráttan um Þjórsárver hófst. Þá voru áætlanir um gríðarlega stórt lón þarna sem hefði orðið óskaplegt umhverfisslys ef af hefði orðið.

Síðan kemur umræðan um Þjórsá. Segir ekki einhvers staðar: „Stóð ég við Öxará“? Ég stóð ekki þar. Ég stóð við Þjórsá og hélt meira að segja útifund þar og margir hafa tekið það sem svo síðan að ég hljóti að vera á móti öllum virkjunum í Þjórsá og ætti þess vegna helst að taka undir með hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur að við friðuðum Þjórsá alveg. Mér finnst nú, þið fyrirgefið orðbragðið, hugmyndin um friðun Þjórsár svolítið eins og að varðveita meydóm 18 barna móður. Þjórsá er náttúrlega ekki hægt að friða úr því sem komið er. Hún hefur verið virkjuð meira en nokkur önnur á og við græðum einfaldlega ekkert í umhverfisverndarbaráttu með því að reisa flaggið alltaf við hæstu og ómögulegustu kröfur. Þegar umræðan kom fyrst upp um að virkja í neðri hluta Þjórsár var ég því afskaplega andvígur og ég hef haft ímugust á þeim virkjunum allan tímann og hef enn.

Aftur á móti gerðist það að baráttumenn gegn Norðlingaölduveitu fóru í mjög undarleg hrossakaup um virkjanir í neðri hluta Þjórsár annars vegar og virkjanir í Norðlingaölduveitu hins vegar. Hrossakaup sem voru mér ógeðfelld og ég sé alltaf eftir því að hafa ekki gert athugasemd við umhverfismat þessara virkjana. Það gerði ég ekki, það gerðu félagar í Vinstri grænum heldur ekki. Það gerði enginn athugasemd þegar umhverfismat virkjana í neðri hluta Þjórsár fór í gegn og það er svolítið athyglisvert. Það mæltu einfaldlega allir talsmenn umhverfisverndarsinna með þessum virkjunum á þeim tíma.

Það hefði í rauninni verið lítið mál að koma í veg fyrir þessar virkjanir með því að benda á að samkvæmt áreiðanlegum heimildum eru tímgunarsvæði vatnaskrímsla einmitt á bökkum Þjórsár á þessu svæði og tímgunarsvæði vatnaskrímsla hljóta auðvitað að teljast mjög merkileg út frá dýrafræðilegu sjónarmiði þar sem tímgunarsvæði dýra í útrýmingarhættu eru merkileg og tímgunarsvæði dýra sem ekki eru til hljóta þar af leiðandi að vera enn merkilegri.

Úr því sem komið er getum við ekkert látið okkur dreyma um það sem raunhæft markmið að ekki verði virkjað í neðri hluta Þjórsár. Ég vitnaði áðan í fund sem ég var á með Árna Mathiesen á Laugalandi. Þar var einneginn Páll Einarsson jarðfræðingur sem mikið hefur unnið fyrir Landsvirkjun. Hann hélt þar fram mjög athyglisverðum hlutum, sem sagt þeim að það yrði aldrei hagkvæmt fyrir Landsvirkjun að fara með lónhæðina við innkomuna í Þjórsárdal eins hátt og til stendur í þeim áætlunum sem Landsvirkjun er með.

Ég held að sterkasta baráttan í málefnum Þjórsár núna væri að berjast fyrir því að lónhæðin þarna sé lækkuð verulega vegna þess að það versta við þessar virkjanir er hvað við eyðileggjum innkomuna inn í Þjórsárdal mikið. Við sökkvum þar dýrmætum hólmum, eyðileggjum eina af fallegri bújörðum Gnúpverjahrepps og auk þess landnámsjörð, Haga í Gnúpverjahreppi, og vinnum mörg önnur óbætanleg spjöll á náttúrunni.

Varðandi Urriðafoss er það að segja sú virkjun er algjörlega afturkræf. Það er afskaplega auðvelt að taka hana til baka. Úr því að enginn gerði athugasemd í umhverfismatinu, úr því að öllum nema mér er sama um vatnaskrímslin, verður hún yfir okkur að ganga.

Samfylkingin marglofaði því í kosningabaráttunni, og m.a. á fundum þar sem ég var, að við skyldum stoppa allar virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Ég sat í pallborði með fulltrúum Samfylkingarinnar í mínu kjördæmi og mátti þar tala máli skynseminnar meðan fulltrúar annarra flokka leyfðu sér að koma með hástemmdar kröfur sem engin glóra er í að hægt sé að standa við. Það er svolítið mikilvægt í baráttunni í umhverfisverndarmálum að við setjum fram kröfur sem við eigum einhvern möguleika á að standa við en ekki kröfur sem er algjörlega útilokað að geti skilað okkur nokkru nema svekkelsinu.

Þess vegna er miklu mikilvægara að beina baráttunni varðandi neðri hluta Þjórsár að því að milda umhverfisáhrif virkjananna þar, að við mildum áhrif virkjana í neðri hluta Þjórsár en reynum ekki að koma í veg fyrir þær. Vegna þess að ég sé í rauninni engin tæki hjá stjórnvöldum til að gera það nema að menn vilji fara þá leið að beita eignarhaldi ríkisins í Landsvirkjun. Ég á svolítið bágt með að sjá að menn geri það úr því sem komið er. Þá þarf víðtækari samstöðu en ég hefði haldið að næðist. Aftur á móti vonast ég til að loforð hv. þm. Illuga Gunnarssonar, sem hér voru sett fram með miklu ákveðnari hætti en nokkuð af því sem ég hef heyrt um málið frá fjármálaráðherra og forsætisráðherra, séu skýr og ég treysti þeim og er þess vegna bjartsýnn á að alla vega um sinn séu Þjórsárver hólpin, hvað sem verður.

Mig langar aðeins rétt í lokin að koma að því þar sem við erum að tala um vatnsaflsvirkjanir að ég vil ekki sjá fyrir mér að tími vatnsaflsvirkjana sé liðinn og í stað þeirra sé kominn tími gufuaflsvirkjana. Ég held að gufuaflsvirkjanir séu út frá umhverfislegu sjónarmiði (Forseti hringir.) miklu krítiskari hlutur og ég græt oft þá hveri, bláa, rauða og græna, sem Vinstri grænir og aðrir í R-listanum eyðilögðu fyrir mér uppi á Hellisheiði í minni sýslu.