134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

6. mál
[19:21]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Raunhæf markmið. Jú, ég aðhyllist raunhæf markmið og ég aðhyllist það að við reynum að finna raunhæfar leiðir að markmiðum okkar. Nú vil ég vitna til annars stjórnarflokksins, Samfylkingarinnar. Hún taldi það raunhæft markmið í kosningabaráttunni að vinda ofan af stóriðjustefnunni með ákveðnu stóriðjuhléi. Samfylkingin hlýtur að hafa haft ákveðin áform um hvernig ætti að gera það. Þær ætlanir Samfylkingarinnar voru samhljóða hugmyndum okkar vinstri grænna.

Þá getum við séð að tveir af þeim stjórnmálaflokkum sem eiga kjörna fulltrúa á Alþingi Íslendinga hafa talið það raunhæfan kost að vinda ofan af stóriðjustefnunni og ég er algerlega sannfærð um að við getum fengið hv. þm. Bjarna Harðarson í lið með okkur þegar við fáum tækifæri til að setjast niður með honum og sýna honum fram á hvernig það er hægt.

Samfylkingin hefur að hluta til hlaupist undan merkjum, eins og ég hef verið að segja hér í ræðum mínum í dag, sem mér þykir mjög miður. En ég er algerlega sannfærð um að hún taldi sig hafa raunhæfar leiðir að þessu markmiði sínu meðan hún barðist í kosningabaráttunni.

Hv. þingmaður talar mikið um að formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi lokið lofsorði á virkjanir í neðri Þjórsá. Það er rangt. Í þingræðu sem mikið hefur verið fjallað um í fjölmiðlum sagði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að það yrðu tiltölulega lítil umhverfisáhrif af virkjunum í neðri hluta Þjórsár miðað við ýmsar aðrar virkjanir. En hann hefur aldrei lokið lofsorði á þær og aldrei talið ásættanlegt að í þær yrði farið til þess að virkja fyrir stóriðju. Menn verða að hafa það sem sannara reynist hér í þessum efnum.

Að lokum vil ég bara segja þetta: Það skiptir verulegu máli að heimamenn átti sig á því að það er samstaða um það meðal stórs hóps þingmanna í fleiri en einum flokki að koma í veg fyrir áformin um virkjanir í neðri Þjórsá. (Forseti hringir.) Og ég er algerlega sannfærð um að í félagi gætum við fundið hinar raunhæfu leiðir.