134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

stuðningur við innrásina í Írak og stjórn Palestínu.

[10:34]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. forsætisráðherra. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að ný ríkisstjórn harmi stríðsreksturinn í Írak og vilji frið í Írak og Miðausturlöndum, nokkuð sem allir geta skrifað undir að mínu mati.

Það vakti vissulega athygli að Samfylkingin skyldi fella sig við þennan texta eftir öll stóru orðin um að það ætti að verða fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að taka Ísland út af lista hinna vígfúsu þjóða eins og formaður Samfylkingarinnar sagði þegar hún flutti stefnuræðu sína á landsfundi Samfylkingarinnar við dynjandi lófaklapp fundarmanna, eins og segir í fréttum. Þess má geta að eftir að hún hafði flutt þessa ræðu fékk hún þá einkunn hjá Hallgrími Helgasyni rithöfundi að hún væri fullnuma forsætisráðherra, eins og kemur fram í Fréttablaðinu.

Síðan kemur það fram í fyrirspurnatíma á hv. Alþingi hjá hæstv. utanríkisráðherra að hinn margumtalaði stuðningur íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak hafi verið afturkallaður og mér leikur hugur á að vita hvaða form hafi verið á þeirri aðgerð. Var þessi stuðningur afturkallaður bréflega, með bréfi þá til Bush Bandaríkjaforseta? Ég reikna þá með að hæstv. forsætisráðherra hafi ritað það bréf með tilliti til forsögunnar.

Í öðru lagi, þegar hér var til umfjöllunar tillaga frá þingmönnum Vinstri grænna í síðustu viku um að taka upp eðlileg samskipti við þjóðstjórnina í Palestínu lýsti hæstv. utanríkisráðherra sig fylgjandi tillögunni og hvatti til þess að Alþingi ályktaði í þá veru. Í aprílmánuði sl. lét hæstv. forsætisráðherra hafa eftir sér þegar sú sem hér stendur hafði tjáð sig hlynnta samskiptum við áðurnefnda þjóðstjórn að málið hefði ekki verið rætt í ríkisstjórn og ef taka ætti einhverja nýja stefnu í þessu máli þyrfti að ræða það þar. Miðað við þessi orð hæstv. utanríkisráðherra reikna ég með að málið hafi verið rætt í ríkisstjórn og að ný stefna hafi verið tekin upp í sambandi við þessi samskipti. Það sem styrkir mig í þeirri trú er líka það að talsmaður Sjálfstæðisflokksins í umræðunni, hv. þm. Árni Johnsen, lýsti sig fylgjandi tillögu vinstri grænna. Nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra: (Forseti hringir.) Er þetta réttur skilningur hjá mér? Ég bið hann að staðfesta það ef svo er.