134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

stuðningur við innrásina í Írak og stjórn Palestínu.

[10:39]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé full þörf á að reyna að fá hina formlegu stöðu þessa máls betur upplýsta. Þegar hæstv. forsætisráðherra svaraði fyrirspurn frá mér 14. febrúar sl. varðandi það hvort ríkisstjórnin hefði afturkallað loforð gefin Bandaríkjamönnum í aðdraganda innrásarinnar í Írak um að nota hér flugvelli og lofthelgi svaraði hæstv. ráðherra á þá leið að sú heimild sem hafði verið veitt í mars 2003 til afnota af íslenskum flugvöllum og lofthelgi miðaðist að sjálfsögðu við aðgerðir sem þá voru í gangi gagnvart Írak. Sú heimild hefur ekki formlega verið afturkölluð, sagði hæstv. ráðherra, en hún á að sjálfsögðu ekki við lengur. Þegar þáverandi utanríkisráðherra útskýrði 26. mars 2003 hvað fólgið væri í afstöðu Íslands sagði hann m.a. að ákvörðun hefði verið tekin fyrir viku um að leggja bandalagi þeirra ríkja lið sem ekki töldu fært að bíða lengur, eins og það var orðað, og í því fælist í fyrsta lagi að tjá leiðtogum Bandaríkjanna, Bretlands og Spánar pólitískan stuðning til aðgerða þegar ljóst var orðið að leið öryggisráðsins hafði brugðist, eins og það var orðað. Í öðru lagi veitti ríkisstjórn Íslands aðgang að íslenskri lofthelgi og heimild til að nota Keflavíkurflugvöll vegna aðgerða í Írak ef nauðsyn krefði. Hvergi nokkurs staðar hef ég fundið þess stað að sú heimild hafi verið tímabundin eins og hæstv. utanríkisráðherra hélt fram í síðustu viku í svari til hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur. Ég hef engar skýringar fengið á því að hvaða leyti þessi heimild eigi ekki við lengur án þess þó að hafa nokkurn tíma verið formlega afturkölluð að því er best verður séð.

Nú bið ég hæstv. forsætisráðherra að svara já eða nei: Hafa farið fram orðsendingar, nótuskipti milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda, út af þessu máli? Já eða nei. Hefur bandaríska sendiherranum verið tilkynnt um breytta afstöðu Íslands og breyttar heimildir þeirra hér? Já eða nei.