134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

stuðningur við innrásina í Írak og stjórn Palestínu.

[10:48]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að sú stefnubreyting sem hv. þm. Helgi Hjörvar talaði um af hálfu ríkisstjórnarinnar er mér algjörlega hulin og ég hygg að svo sé farið um ýmsa fleiri hv. þingmenn í þessum sal. Það kann auðvitað vel að vera að stjórnarflokkarnir hafi sína stefnuna hvor í þessu máli og þeir geti ekki komið sér saman um hvora stefnuna eigi að kynna hér fyrir þingi.

Það kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra á síðasta þingi þar sem hann svarar fyrirspurn um stuðninginn við hernaðaraðgerðirnar í Írak að heimildin sem um er að ræða þar, til handa Bandaríkjamönnum, hafi ekki formlega verið afturkölluð en hún eigi að sjálfsögðu ekki við lengur.

Hæstv. utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, segir í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur um þessar sömu heimildir að þær hafi verið í gildi um ákveðinn tíma en slíkar heimildir séu ekki í gildi lengur. Málshefjandi í þessari umræðu, hv. 2. þm. Norðaust. Valgerður Sverrisdóttir, spyr hæstv. forsætisráðherra hvort þessar heimildir hafi verið afturkallaðar. Við höfum ekki fengið svör við því enn þá. Það má skilja svar hæstv. utanríkisráðherra í umræðunni hér í síðustu viku þannig að þær hafi verið afturkallaðar. Þetta er þó ekki ljóst og þess vegna hljóta þær spurningar að vera ítrekaðar hér: Hafa farið fram formlegar orðsendingar á milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda um þetta efni? Er sú yfirlýsing sem kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra í síðustu viku einungis yfirlýsing til heimabrúks eða er hún raunveruleg og formleg utanríkispólitísk yfirlýsing og þá með orðsendingum til bandarískra stjórnvalda þar að lútandi? Við hljótum að vilja fá svör við því, hæstv. forseti.