134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

stuðningur við innrásina í Írak og stjórn Palestínu.

[10:50]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tvö mikilvæg mál undir þessum lið um störf þingsins. Í fyrsta lagi hefur hér farið fram umræða um Írak og umræðan eiginlega snúist um deilur um það hvort núverandi ríkisstjórn hafi aðra stefnu en ríkisstjórnin fyrrverandi.

Núverandi ríkisstjórn hefur lýst því yfir að hún harmi stríðsástandið í Írak sem fyrrverandi ríkisstjórn studdi þannig að það þarf ekki að fara mörgum orðum um að (Gripið fram í.) hér hefur átt sér stað stefnubreyting og það þarf heldur ekki að fara mörgum orðum um að vitaskuld hafa Bandaríkjamenn og bandamenn tekið eftir þessari yfirlýsingu. Annað er alveg fráleitt. (Gripið fram í.) Það er dálítið athyglisvert að þessi umræða skuli fara fram á nákvæmlega þessum nótum. (Gripið fram í.)

Hitt málið sem hér er rætt er umræðan um Seðlabankann. Það er rétt að skilaboð Seðlabankans inn í það efnahagsástand sem nú ríkir eru fráleit. Skilaboð Seðlabankans um aðhald og að losa um þau lausatök sem hafa verið í ríkisfjármálum undanfarin missiri, að menn taki á í þessum efnum á annan hátt, verða þannig marklaus. Hins vegar má spyrja sig hvort þessi umræða væri jafnhávær ef málum væri ekki þannig háttað að við höfum skipað seðlabankastjóra pólitískt undanfarin missiri og það er spurning hvort þessi umræða væri jafnhá ef við gerðum þetta á annan hátt. Það að vera aðalbankastjóri Seðlabankans er geysilega mikilvæg staða í opnu hagkerfi sem vill byggja á markaðskerfi. Það er kannski þarna sem við þurfum að hugleiða vandlega hvort við séum á réttri braut því að ég er nokkuð viss um að ef við hefðum skipað þessu (Forseti hringir.) á annan hátt væri umræðan ekki sú hin sama og hún er í dag.