134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

stuðningur við innrásina í Írak og stjórn Palestínu.

[10:54]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég kemst að sömu niðurstöðu og hv. síðasti ræðumaður, að loðin og mótsagnakennd svör hæstvirtra ráðherra hér séu til þess fallin og til þess ætluð að breiða yfir þá staðreynd að engin stefnubreyting hefur orðið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli, engin. Hennar sér hvergi stað og hér er ekki hægt að upplýsa um neinar tilkynningar, orðsendingar, bréfasendingar eða annað slíkt til að undirbyggja slíkt. Heimildirnar sem þáverandi hæstv. utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson útskýrði 26. mars 2003 að væru í eðli sínu ótímabundnar vegna aðgerða í Írak, aðgerða sem standa enn, gætu þess vegna og eru þess vegna væntanlega í fullu gildi. Hver veit nema Bandaríkjamenn líti svo á að þannig sé?

Varðandi Palestínu er rétt að upplýsa að það var heldur dapurlegt upplitið á meiri hluta utanríkismálanefndar í gær þegar menn komust að þeirri niðurstöðu þar að ekki væri vogandi að segja eða gera nokkurn skapaðan hlut og alls ekki að fylgja fordæmi Norðmanna og það var að frumkvæði fulltrúa Samfylkingarinnar sem sú afstaða meiri hlutans birtist.

Varðandi erindi þeirra hv. þingmanna Samfylkingarinnar, Helga Hjörvars og Lúðvíks Bergvinssonar, hingað í ræðustólinn er það að vísu rétt að erfitt er að ræða þau ósköp ógrátandi, þvílík hörmung er það hvernig þingmenn Samfylkingarinnar snúa við blaðinu í hverju málinu á fætur öðru. Öðruvísi þeim áður brá, t.d. þegar hæstv. núverandi iðnaðarráðherra sagði úr þessum ræðustóli, með leyfi forseta:

„Hins vegar var stuðningur ríkisstjórnarinnar við innrásina í Írak löglaus og siðlaus og hann var ekki tekinn á Alþingi. Hann var tekinn í reykfylltum bakherbergjum og hefur engan lagalegan stuðning. Þess vegna ætti hæstv. forsætisráðherra að skammast sín fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og hann ætti að lýsa því yfir að sá stuðningur gildi ekki lengur.“

Ég hef grun um að hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson hafi upphaft svipuð ummæli víðar, t.d. í kosningabaráttunni. Það fer hins vegar lítið fyrir honum núna í umræðum um þessi mál og yrði þó sjálfsagt för hans hingað í ræðustólinn svipuð (Forseti hringir.) sneypuför og flokksbræðra hans hér áðan.