134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[11:29]
Hlusta

Frsm. minni hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta heilbrigðisnefndar. Undir nefndarálitið rita auk mín Valgerður Sverrisdóttir og Álfheiður Ingadóttir. Guðjón A. Kristjánsson er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er samþykkur álitinu.

Ég vil geta þess að við 1. umr. var ég, eins og fleiri þingmenn sem tóku til máls, jákvæð gagnvart því frumvarpi sem hér liggur fyrir, enda er alveg ljóst að það er löngu tímabært að bæta hag aldraðra. Ég veit að allir flokkar sem gengu til kosninga höfðu það á stefnuskrá sinni að bæta hag aldraðra, með mismunandi hætti þó. Ég nefndi það einnig við 1. umr. málsins að ég teldi að horfa þyrfti sérstaklega til þess hóps sem væri skilinn eftir, þ.e. skilgreindir aldraðir, 67 ára til sjötugs, sem frumvarpið nær til. Þetta þyrfti að skoða alveg sérstaklega því að þarna væri hópur sem sæti hjá og að það mundi seint ganga.

Ég nefndi líka að fara þyrfti vel yfir málið og skoða það frá öllum hliðum og þá með hagsmunaaðilum, Landssambandi eldri borgara, aðilum frá vinnumarkaðnum og fleirum sem málið snertir því að þessar breytingar munu smita út á vinnumarkaðinn líka, það er óhjákvæmilegt. Ég tel að við séum ekki búin að sjá fyrir endann á því hvaða áhrif slíkar breytingar hafa. Vonandi munu breytingarnar hafa þau áhrif sem ég nefndi, að þær kæmu öllum til góða, ef þetta smitaðist út á vinnumarkaðinn, til launahækkana fyrir alla og þá sérstaklega láglaunahópana. En það er ekki sjálfgefið og munu trúlega verða átök um það.

Þegar farið var vel yfir málið, eins og hægt er að gera á einum samráðsfundi í heilbrigðisnefnd, kom fram að samráð við Landssamband eldri borgara, aðila vinnumarkaðarins og ASÍ var ekkert varðandi frumvarpið og eiga þó að vera formlegir samráðsfundir til staðar sem ríkisstjórnin hefði getað leitað til. Komu upp efasemdir hjá þessum aðilum, vinnumarkaðnum, Samtökum atvinnulífsins og ASÍ, um að þetta væri hin eina rétta leið og hana þyrfti að skoða betur. Fulltrúar Landssambands eldri borgara eru sannarlega ánægðir með allar þær breytingar sem gerðar eru en töldu eðlilega að breytingarnar hefðu átt að gilda frá 67 ára aldri. Þar væri hópur sem sæti eftir og væri mikill mismunur á og krafa þeirra er og verður auðvitað að þetta ákvæði, ef af verður, muni gilda frá 67 ára aldri.

Eftir að hafa farið yfir málið og skoðað það betur töldum við í minni hluta heilbrigðisnefndar að þetta væri ekki nægilega vel ígrundað þó svo að við séum öll sammála því að bæta hag aldraðra. Við skilum því sér nefndaráliti og breytingartillögum á lögunum eins og þau eru í dag þar sem við leggjum til að frítekjumarkið verði hækkað upp í 80 þús. kr. hjá öllum frá 67 ára aldri og upp úr og það sé þá sú jafnræðisregla sem meiri sátt muni ríkja um frekar en að það nái til þeirra sem sjötugir eru og sem gætu þá unnið alveg án nokkurrar skerðingar.

Hæstv. forseti. Ég vil fá að lesa nefndarálitið frá minni hluta heilbrigðisnefndar. Það er svohljóðandi:

Minni hluti heilbrigðisnefndar er ósammála þeirri leið sem farin er í frumvarpi þessu og telur að hag bæði aldraðra og öryrkja verði fremur borgið með því að hækka frítekjumarkið í b-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, og b-lið 1. mgr. 26. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, úr 300.000 kr. eða 25 þús. kr. á mánuði í 960.000 kr. á ári. Með þessari hækkun frítekjumarksins geta elli- og örorkulífeyrisþegar — ég ítreka „og örorkulífeyrisþegar“, þetta á ekki eingöngu við um ellilífeyrisþega frá 67 ára heldur alla örorkulífeyrisþega einnig — unnið sér inn 80.000 kr. á mánuði án þess að lífeyrisgreiðslur þeirra samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, eða fjárhæð vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, skerðist. Mun sá kostnaður sem leiðir af þessum breytingum vera 490 millj. kr. — 490 millj. kr., það er ekki meira, ég vil vekja athygli á því. — Minni hlutinn leggur auk þess til að fjármagni verði varið í að draga úr tekjutengingu lífeyrisþega við tekjur maka þannig að heildarkostnaðurinn af framangreindum breytingum verði á bilinu 690–745 millj. kr.

Með þessu móti verður ekki aðeins komið til móts við ellilífeyrisþega og vistmenn 70 ára og eldri eins og mælt er fyrir um í frumvarpi þessu, heldur einnig örorkulífeyrisþega. Þá verður ellilífeyrisþegum heldur ekki mismunað eftir því hvort þeir eru yngri en 70 ára eða eldri eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Ber í þessu sambandi að benda á að samkvæmt lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, er aldraður einstaklingur sá sem hefur náð 67 ára aldri. Minni hlutinn leggur áherslu á að eitt skuli yfir alla ganga meðal aldraðra og bendir á að einstaklingar á aldrinum 67–69 ára eru að jafnaði betur í stakk búnir til að afla sér atvinnutekna en þeir sem eru 70 ára og eldri. Minni hlutinn telur að framangreind hækkun frítekjumarksins muni auka möguleika lífeyrisþega til þátttöku á vinnumarkaðnum en slíkt mun skila sér bæði til einstaklinganna sjálfra og samfélagsins.

Minni hlutinn leggur áherslu á að þessi leið sé aðeins fyrsta skrefið af mörgum í átt að því að bæta stöðu aldraðra og öryrkja og stuðla að auknum jöfnuði í samfélaginu. Næsta skref verður að afnema að fullu tekjutengingu bóta við tekjur maka og skoða hvort nýta megi hluta frítekjumarks fyrir tekjur úr lífeyrissjóðum.

Eins og ég nefndi áðan er Guðjón A. Kristjánsson áheyrnarfulltrúi í nefndinni og skrifar hann undir ásamt Valgerði Sverrisdóttur og Álfheiði Ingadóttur.

Hæstv. forseti. Því liggur fyrir breytingartillaga við frumvarp til laga um breytingu á almannatryggingalögum og lögum um málefni aldraðra frá minni hluta heilbrigðisnefndar þar sem í stað þess að nefna upphæðina 300.000 kr. í 16. gr. laganna komi 960.000 kr., þ.e. að frítekjumarkið fari úr 25 þús. kr. í 80 þús. kr. Og í 2. gr. þessara sömu laga komi 960.000 kr. í stað 300.000 kr. í 2. málsl. b-liðar 1. mgr. 26. gr. laga um málefni aldraðra. Tillagan er sem sé að hækka frítekjumarkið hjá öllum og ekki bara öldruðum frá 67 ára heldur öryrkjum líka.

Við fulltrúar minni hlutans, og ég trúi ritari líka, margspurðum að því í heilbrigðisnefnd hvort þetta gæti verið réttur útreikningur, sú upphæð sem hér kemur fram, þ.e. að breytingarnar muni kosta 490 millj. kr. á ári og við fengum þau svör að svo væri. Okkur fannst þetta ótrúlega lág upphæð miðað við að þetta næði yfir öryrkja líka. En staðreyndin er auðvitað sú að öryrkjar hafa ekki verið svo mikið á vinnumarkaðnum og eru þannig í stakk búnir að það geta ekki allir unnið, en upphæðin er ekki hærri en þetta.

Við teljum þó að hægt sé að gera betur og leggjum því til að samsvarandi upphæð og kemur hér fram í frumvarpi ríkisstjórnarinnar verði þá notuð til þess að draga úr tekjutengingu en það má gera á margan hátt. Okkur entist ekki tími til að leggja fram nákvæma útreikninga hvað varðar prósentur á tekjutenginguna en búið er að reikna út fyrir okkur, frummælendur í minni hluta heilbrigðisnefndar, mismunandi leiðir og ég vil, með leyfi hæstv. forseta, fá að rekja þær örlítið. Þetta eru nokkrar tölur og er í sjálfu sér ekki flókið.

Það að hækka frítekjumark gagnvart eigin tekjum af atvinnu í 960 þús. kr. kostar 200 milljónir fyrir ellilífeyrisþega og 290 milljónir fyrir örorkulífeyrisþega eða samtals 490 milljónir, eins og kemur fram í tillögu okkar. Samhliða því eru gerðar breytingar á tengingu við tekjur maka þannig að í stað þess að tekjur af atvinnu verði með 75% vægi gagnvart eigin tekjum og 25% vægi gagnvart tekjum maka er samanlagður kostnaður við báðar þær breytingar 270 millj. kr. fyrir ellilífeyrisþega og 475 millj. kr. fyrir örorkulífeyrisþega eða samtals 745 millj. kr. Þetta er aðeins í við lagt miðað við tillögur ríkisstjórnarinnar en vel að merkja, þær eru ekki nákvæmar og geta ekki verið það því að það er aldeilis óljóst hversu margir lífeyrisþegar sem ekki eiga rétt á greiðslum vegna hárra tekna muni við þessar breytingar, þ.e. þeir sem eru 70 ára og eldri, skila sér og óska eftir greiðslum lífeyris þar sem þær lífeyrisgreiðslur verði óskertar. Útreikningurinn hlýtur því alltaf að vera mjög óljós. Við fáum að sjá þær tölur eftir eitt eða tvö ár ef af þessari breytingu verður.

Ef breyting á tekjutengingu við tekjur maka er 79% fyrir eigin tekjur og 21% fyrir tekjur maka verður samanlagður kostnaður með hækkun frítekjumarks í 960 þús. kr. 255 millj. kr. fyrir ellilífeyrisþega og 435 millj. kr. fyrir örorkulífeyrisþega eða samtals 690 millj. kr. Ef frítekjumark gagnvart eigin tekjum af atvinnu er hækkað í 900 þús. kr. og tekjutenging við tekjur maka af atvinnu verður 80% af eigin tekjum og 20% af tekjum maka kostar það 250 milljónir fyrir ellilífeyrisþega og 445 milljónir fyrir örorkulífeyrisþega eða samtals 695 milljónir. Þessir útreikningar miðast allir við reglurnar sem gilda fyrir árið 2008 með óbreyttum bótaupphæðum og tekjum lífeyrisþega eins og þær voru í tekjuáætlun í mars í ár.

Hæstv. forseti. Við fengum sérfræðing Tryggingastofnunar til að reikna þetta út fyrir okkur og ég les þær upplýsingar hér upp til þess að sýna að hægt er að fara mismunandi leiðir sem mundu falla innan þess sama kostnaðar sem Tryggingastofnun mundi greiða. Við höfum því ekki verið að útfæra þetta neitt frekar en ég er sannfærð um að hægt væri að ná góðri sátt um hvernig ætti að draga úr tekjutengingum og skerðingum.

Hæstv. forseti. Á þinginu síðasta vetur, haustþinginu 2006, lagði stjórnarandstaðan fram mál á þskj. 3, 3. mál, tillögu til þingsályktunar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála. Það var nokkuð ítarleg tillaga um framtíðarskipan lífeyrismála og vel unnin að mínu mati og mjög raunhæf. Í þeirri tillögu kemur fram að á síðasta hausti töldum við sem þá vorum í stjórnarandstöðu og unnum tillöguna að frítekjumarkið vegna atvinnutekna lífeyrisþega þyrfti að vera um 75 þús. kr. á mánuði til þess að lífeyrisþegar hefðu fyrir framfærsluþörf. Því leggjum við til í dag að sú upphæð verði 80 þús. kr. því að þegar búið er að draga frá skatta og með tilliti til þeirra skerðinga sem hafa verið mundu tekjur lífeyrisþega vera rétt um það að hafa fyrir framfærsluþörf.

Ég vil benda á, hæstv. forseti, í þessu sambandi að enn og aftur er kallað eftir því að gerð sé neyslukönnun og það sé fyrirliggjandi hverjar tekjuþarfir aldraðra og öryrkja eru á hverjum tíma, en þá útreikninga höfum við ekki. Meðan við höfum ekki þær tölur og getum ekki sagt að lífeyrisþegar þurfi þessa fjárhæð eða upphæð til að hafa sér til framfærslu og geta lifað þokkalegu lífi, veitt sér eitthvað án þess að vera í lúxus og munaði, þá erum við í rauninni alltaf jafnilla sett. Ég vil því vísa til þeirrar þingsályktunartillögu sem stjórnarandstaðan flutti á síðasta hausti og hvetja hv. þingmenn Samfylkingarinnar að rifja hana vel upp og minnast þeirra hugmynda sem þar voru að baki, þ.e. að auka jöfnuð á milli lífeyrisþega, bæði aldraðra og öryrkja.

Ég er ekki lengur sannfærð um að einhver sátt geti náðst við að aftengja alveg skerðingar á launum, atvinnutekjum lífeyrisþega eftir sjötugt, að þeim verði frjálst að vinna eða hafa atvinnutekjur eins og þeir vilja án þess að það skerði lífeyri og aðrar bætur. Ég tel að sá hópur sem er 67 ára til 70 ára verði ekki sáttur þegar upp verður staðið. Það er erfitt að koma aftur inn á vinnumarkaðinn í atvinnu ef fólk á aldrinum 67–70 ára hættir í vinnu vegna þeirra skerðinga sem áfram munu gilda. Ef fólk hættir í vinnu er mjög erfitt fyrir 70 ára gamalt fólk að koma aftur inn á vinnumarkaðinn. Það að ætla sér að þrauka í þessi þrjú ár til að komast þá inn í sælureitinn, að geta unnið eins og maður vill, ég veit ekki hvort það er sú leið sem einhver sátt muni nást um. Ég tel að meiri sátt verði um að hafa sömu reglu fyrir alla frá 67 ára aldri.

Talandi um reglur þá hefur verið og er krafa frá öllum sem koma að tryggingunum og lífeyrissjóðakerfinu að reglurnar verði einfaldaðar, að dregið verði úr þeim flóknu reglum sem eru í dag og að unnið verði að því að einfalda reglurnar hvað varðar lífeyris- og bótagreiðslur og tengingu við lífeyrisgreiðslur. Með þessu frumvarpi og breytingum sem stjórnarliðar eða ríkisstjórnin leggur fram er verið að búa til enn eina regluna og hún er ekki til að einfalda kerfið.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri en vona að hæstv. ríkisstjórn fari vel yfir málið og skoði það vel með tilliti til þess hvaða áhrif umræddar breytingar geti haft á almenna vinnumarkaðinn og stöðu annarra lífeyrisþega og ekki síður öryrkja og hvort þetta sé þá sú leið sem eigi að fara fyrir alla eða hvernig hæstv. ríkisstjórn sjái fram úr því að vinna með þessa reglu samhliða öðrum hópum lífeyrisþega. Ég hvet hæstv. ríkisstjórn til þess að skoða þetta samhengi á milli hlutanna áður en gengið er frá frumvarpinu á sumarþinginu.