134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[11:53]
Hlusta

Frsm. minni hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mjög einfalt að segja: Þegar þú ert orðinn sjötugur máttu vinna eins og þú vilt án þess að komi til skerðingar bóta. Ég tel að með þessum tillögum sé verið að auka ójöfnuð á milli lífeyrisþega og ég tel að þar sem þessi breyting hefur ekki tekið gildi sé ekki hægt að segja að það sé verið að taka eitthvað af þeim sem eru 70 ára og eldri, þeir hafa ekki fengið þessi auknu réttindi. Ég trúi því líka að lífeyrisþegar séu svo réttsýnir að þeir telji að það sé jöfnuður í því að sama regla gildi frá 67 ára fyrir alla en komi ekki sérregla eftir sjötugt.

Ég tel að ef þessi regla verður sett og hún komist á verði ekki snúið til baka því þá sé verið að taka af fólki, en á meðan hún er ekki komin á er ekki verið að taka af neinum. Og það að hún nái til öryrkja. Ég veit að það þarf miklu meira fjármagn bæði til aldraðra og öryrkja. Við viljum bæta kjör öryrkja, allra lífeyrisþega, og ég á eftir að heyra það frá öldruðum að þeir sjái einhverja annmarka á því að öryrkjar, lífeyrisþegar, lúti ekki sömu reglum og aldraðir hvað frítekjumarkið varðar.

Það er ekki verið að taka af neinum því að þessi lög hafa ekki tekið gildi. Við erum að leita að jöfnuði og réttarbótum og kjarabótum fyrir öryrkja rétt eins og aldraða. En það verður erfitt að snúa til baka ef þetta frítekjumark verður tekið af.