134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[12:12]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er sérkennilegt að hlusta á hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur tala hér um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi á síðasta kjörtímabili eða í ríkisstjórn almennt ekki viljað bæta hag aldraðra en það hafi ætíð verið vilji framsóknarmanna eða svo mátti skilja.

Ekki ætla ég í umræðu við hv. þingmann um það sem fyrrverandi ríkisstjórn eða fyrrverandi meiri hlutar hafa gert á þingi síðustu kjörtímabil. Það má margt gott um það segja og líka ýmislegt athugunarvert.

Hvað varðar fyrirspurn hv. þingmanns til mín um hvað það muni kosta eða hvað það muni þýða ef þeir sem ekki hafa tekið úr almannatryggingakerfinu núna en gætu komið inn vegna þessara breytinga. Ég svara því eins og þeim sem komu fyrir heilbrigðisnefnd: Við verðum einfaldlega að taka á því þegar þar að kemur. Hvorki ég né aðrir geta svarað því hvað það hefur í för með sér. Engu að síður er það frumvarp sem hér liggur fyrir hvetjandi fyrir 70 ára og eldri til að vera virkari í þátttöku á hinum almenna vinnumarkaði. Ég tel það skipta meginmáli og um það ríki, að því að ég tel, almenn samfélagsleg sátt að þeir sem eru 70 ára og eldri hafi skilað sínu til samfélagsins og eigi þar af leiðandi rétt á þessu. Ég vona að hér sé ekki verið að efna til ófriðar á milli þeirra sem eru 67 ára og 70 ára (Gripið fram í.) og við tökum sameiginlega á því að það er þjóðfélagsleg sátt um þetta.