134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[12:15]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það hefur ýmislegt komið fram í þessari umræðu og ég ætla að leyfa mér að taka nokkurn tíma í að ræða þau mál. Til upplýsingar af því að spurt var áðan um þá 600 einstaklinga sem ekki sækja rétt sinn til Tryggingastofnunar og hvað þeir mundu taka út úr stofnuninni ef þeir færu allt í einu að sækja þær 1,3 milljónir á ári sem þeir geta fengið. Þetta er einföld margföldun, 780 milljónir, ekki rétt? 130 milljónir á hverja 100. Það hlýtur að vera eitthvað nálægt því sem þeir einstaklingar sem ekki hefur þótt taka því að leita eftir rétti sínum hjá Tryggingastofnun ríkisins gætu tekið út þegar þessi regla er komin á, ef þeir eru 600 en það kom fram áðan, held ég. Þannig er það.

Það er kannski akkúrat málið sem við erum að ræða, hvers vegna við tökum þá ákvörðun að fara þessa leið, að búa til það sem ég held að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hafi kallað hér áðan súperaldraða, þá sem eru 70 ára og eldri.

Ég held að það sé misráðið að fara svona af stað í þetta mál og sérstaklega að flýta sér við það núna á vorþinginu nema að baki liggi sá eindregni vilji sjálfstæðismanna að ná samningum við eldri borgara um að aldursmarkið í framtíðinni verði ekki 67 ár heldur eitthvað annað, t.d. að ná samningum við eldri borgara um að setja lög um það eftir tvö, þrjú ár að aldursmarkið verði fært upp í 69 ár en í staðinn fái allir frítekjumark á allar tekjur sem þeir afla á vinnumarkaði. Er það svo, er það hugsunin sem að baki liggur?

Af því að að baki mér situr hæstv. forseti sem vel þekkir til tryggingamála þá má auðvitað spyrja þeirrar spurningar sem hæstv. forseti getur væntanlega svarað síðar í dag þegar hún er farin úr forsetastóli hvort það hafi yfirleitt hvarflað að þeim sem best þekkja til tryggingamála innan Samfylkingarinnar að þetta væri hugsunin sem að baki lægi hjá sjálfstæðismönnum. Að í framtíðinni ætti að semja um hærri aldur, þar sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi áðan ,,hina frísku eldri borgara“, og færa aldursmarkið upp í kannski 68 ár eða 69 ár og þá verði sett í lög að allir eldri borgarar fái allar tekjur sem þeir afla á vinnumarkaði til sín án þess að þær valdi skerðingu á bótum frá Tryggingastofnun en að sjálfsögðu verði borgaður af þeim skattur eins og af öðrum tekjum.

Ég velti því fyrir mér, hæstv. forseti, hvort ekki sé verið að draga Samfylkinguna á asnaeyrum í þessu máli með því að fara svona með það af stað í flýti á vorþinginu. Vegna þess að ég held að í framtíðinni gætu legið í því nákvæmlega þær gildrur sem leiða mátti hugann að undir ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals um hina frísku eldri borgara milli 67 og 70 ára, að það væri ekkert lögmál að þeir væru eldri borgarar í þeim skilningi að þeir ættu endilega rétt á bótum vegna þess hve þeir væru frískir. Ég varpa þeirri spurningu inn í þingsalinn, hæstv. forseti, hvort það sé svo að á bak við tjöldin hafi einhvers staðar verið talað um það í þröngri klíku innan Sjálfstæðisflokksins að rétt væri að fara að horfa til þess að hækka ellilífeyrisaldurinn, ná honum upp í 68 eða 69 ár og semja þá um að fara niður úr 70 árum, sem menn eru að flýta sér að setja núna, gegn því að allar tekjur mundu ekki valda neinni skerðingu á bótum hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Þar að auki er útfærslan á tillögu ríkisstjórnarinnar meingölluð að mínu viti. Hún er þannig upp byggð að það er nákvæmlega sama hvaða tekjur einstaklingurinn hefur eftir sjötugt, hann á alltaf rétt á greiðslu frá Tryggingastofnun. Þannig er það ekki í dag. Einstaklingur með meiri atvinnutekjur en 3,1 milljón, ef ég man rétt, á ekki einu sinni rétt á grunnlífeyri því að hann skerðist frá rúmum 2 milljónum og upp í rúmar 3 milljónir eftir 30% reglunni.

Við höfum, að ég tel, verið sammála um það á hv. Alþingi á undanförnum árum að við vildum tryggja sérstaklega hag þeirra sem lakar væru settir, ættu lítinn lífeyrisrétt í lífeyrissjóði sínum, hefðu ekki krafta til að afla sér mikilla tekna á vinnumarkaði. Við vildum mæta því að hin bratta skerðing, sem hv. þm. Pétur H. Blöndal talaði um, umfram 80 þúsund, sem minni hlutinn leggur til, væri ekki eins óréttlát. Í dag er hún svo óréttlát að hún kemur á fyrsta þúsundkallinn.

Þegar núverandi ríkisstjórn setur í stjórnarsáttmála vilyrði um að allir fái úr lífeyrissjóði sínum a.m.k. 25 þús. kr. á mánuði, hvað er þá verið að leggja til? Það er ekki nóg að tala um meðaltöl, hv. þm. Pétur H. Blöndal, upp á 80 þúsund kr. úr lífeyrissjóðum. Ég vænti þess að hæstv. forseti átti sig á því, enda oft tekið dæmi um það í þessum ræðustól, að menn lifa ekki á meðaltölum. Menn lifa á því sem þeir hafa í buddunni í rauntekjum. Ég hélt að hv. þm. Pétri H. Blöndal væri það algjörlega ljóst að það væru rauntekjurnar eftir skerðingar og skatta sem skiptu máli en ekki ímyndað meðaltal. Því miður er það svo að 25% lífeyrisþega á Íslandi hafa minna en 21 þús. kr. á mánuði úr lífeyrissjóði sínum samkvæmt skýrslu sem unnin var af Samtökum atvinnulífsins fyrir tveimur árum. Vafalaust er þessi tala eitthvað hærri í dag því að lífeyristekjur og lífeyrisréttur landsmanna í lífeyrissjóðum er smátt og smátt að aukast.

Þá var líka upplýst í sömu skýrslu að önnur 25% lífeyrisþega hefðu 75 þús. kr. eða meira sér til afkomu. Ég hygg að þessi skýrsla sé um tveggja ára gömul í dag. En meginmálið er auðvitað að menn lifa ekki á meðaltölum. Fólk lifir á því sem það hefur handa á milli eftir að það er búið að fara í gegnum skeðingarreglur og skatta, þ.e. það fólk sem við erum að tala um, eldri borgarar og öryrkjar.

Tillaga ríkisstjórnarinnar byggir ekki á því. Hún byggir á því að það sé sama hvaða tekjur fólk hafi það muni samt sem áður fá fullar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Ef við tökum dæmi af þeim ágæta dreng sem hér situr í þingsal, hv. þm. Ellerti B. Schram, sem verður sjötugur eftir tvö ár. Ef að líkum lætur verður árskaup okkar þingmanna u.þ.b. 8–9 milljónir eftir tvö ár að því gefnu að við förum í sömu rúllettuna, í gegnum launanefnd, og sett var af stað með kauphækkun seðlabankastjóra. Ég hygg að svo verði, jafnvel 10 milljónir.

Hæstv. forseti. Þegar svo er komið að hv. þingmaður verður 70 ára, sem ég vissulega vonast til að hann verði og hann verði jafnsprækur og hann er í dag og ég óska honum alls hins besta — þetta er ekki sagt í neinni niðrandi merkingu fyrir hann, þetta er einfaldlega dæmi til að sýna fram á að það sem við erum að gera, hæstv. forseti — þegar hv. þm. Ellert B. Schram verður 70 ára mun hann líka eiga rétt á að fá væntanlega 1,5 milljónir frá Tryggingastofnun þó að hann hafi hér fullar atvinnutekjur upp á 9–10 milljónir ef þetta verður sett í lög sem hér er verið að leggja til.

Ég held að menn ættu að staldra við þetta. Ég hef aldrei skilið það svo að jafnaðarmannaflokkur Íslands, Samfylkingin, færi í vegferð sem bæri þetta í sér. Ég hef alltaf skilið það svo að jafnaðarmannaflokkur Íslands, Samfylkingin, vildi auka jöfnuð í þjóðfélaginu. Það er þess vegna sem ég vara við því að fara þá leið sem ríkisstjórnin er að leggja til vegna þess að ég held að ekki verði aftur snúið þegar menn eru búnir að gera þetta einu sinni. Þegar búið er að setja 70 ára regluna inn held ég að ekki verði aftur snúið af því að við setjum hana ekki inn með neinu tekjuhámarki. Þetta er algjörlega opinn víxill að þessu leyti.

Hingað til hefur öll vinna okkar varðandi Tryggingastofnun, lífeyrissjóðina og réttindi fólks hér á landi byggst á því að reyna að tryggja þeim afkomu sem lakast eru settir. Ég hef skilið það svo að flestir stjórnmálaflokkar væru sammála því. Nú kemur þessi samþykkt frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins um 70 árin og það á að keyra hana inn í lög núna á vorþinginu. Ég held því miður að við séum að stíga skref sem að athuguðu máli sé ekki það sem við höfum horft á til þess að bæta jöfnuð í landinu. Ekki það að eldri borgarar yfir sjötugt séu ekki alls góðs maklegir, en ég held að betra væri, hæstv. forseti, að setja frítekjumark, 70, 80, 100 þúsund á mánuði, sem allir nytu eftir 67 ára aldur en fara af stað með það sem hér er lagt upp með, þ.e. 70 árin. Ég óttast að á bak við þetta búi það sem ég sagði í upphafi máls míns að á þessu kjörtímabili muni, ef Sjálfstæðisflokkurinn fær að ráða þessari ferð sem ég harma mjög að Samfylkingin skuli taka þátt í, verða farið að semja um það við eldri borgara að aldursmörkin verði ekki 67 ár heldur 68 eða 69 og á móti komi sú ívilnun að allar tekjur sem eldri borgarar yfir þeim aldri þéna valdi ekki skerðingu á bótum frá Tryggingastofnun ríkisins.

Þetta finnst mér mikið umhugsunarefni, hæstv. forseti, og það var þess vegna sem ég sagði í ræðu þegar þetta mál var kynnt hér í þinginu eftir framsögu hv. þm. Péturs H. Blöndals að þetta mál vekti margar spurningar varðandi þá útfærslu sem hér er verið að leggja til. Þetta var orðrétt tilvitnun úr ræðu minni, hæstv. forseti. Ég held að hér eigi menn virkilega að staldra við.

Hæstv. forseti. Ég tel að þetta sé ákaflega alvarlegt mál og skref sem þurfi að ígrunda mjög vel. Ég spyr, hæstv. forseti, hv. þingmann, framsögumann meiri hlutans, Pétur Blöndal að því hvort það hafi verið rætt einhvers staðar í sölum Sjálfstæðisflokksins að hækka eftirlaunaaldurinn úr 67 árum í 68, 69 eða jafnvel 70 ár. Ég spyr vegna þess að ég get ímyndað mér að hér væru klókir samningamenn að búa sér til samningsstöðu með því að hækka aldursmörkin.

Ég hef allan fyrirvara á þessu máli, hæstv. forseti. Ég ákvað, að athuguðu máli, að styðja aðra útfærslu og leggja þar með til að tillaga ríkisstjórnarinnar næði ekki fram að ganga. Ég vænti þess, hæstv. forseti, að það sem ég sagði áðan, og tók dæmi af hv. þm. Ellerti B. Schram, leiði fólki það fyrir sjónir að að minnsta kosti verði þeirrar spurningar spurt hvort eðlilegt sé, þegar hv. þingmaður verður 70 ára, með 8–10 millj. kr. í árslaun miðað við forsendur sem ég nefndi varðandi seðlabankastjóra, að hann eigi jafnframt rétt á 1,5 millj. kr. frá Tryggingastofnun, að teknu tilliti til þess að bætur munu að sjálfsögðu hækka á tveimur árum. Þær væru sennilega um 1,3 millj. kr. í dag. Þetta er hin nýja staða í málinu.

Ég get ekki ætlað Samfylkingunni svo illt að trúa því að þingmenn hennar vinni markvisst að einhverri leynistefnu, á bak við tjöldin, með það fyrir augum sem ég var að ýja að um áform Sjálfstæðisflokksins. Ég trúi því ekki, hæstv. forseti. Ég tel hins vegar að samfylkingarfólk sé haft, hvað segir maður, að hálfgerðum fíflum — hæstv. forseti, fyrirgefðu orðalagið en það er stundum talað um að menn séu hafðir að fíflum — ef leiða á þetta í lög. Ég beini þessu sérstaklega til þingmanna Samfylkingarinnar í þessum sal, að hugleiða það sem ég spyr um. Ég bið þá að hugleiða það sem ég er að segja. Er það svo að við séum komin út úr því að vilja byggja á jöfnuði og réttlæti að því er varðar útfærslu á lífeyrisréttindum og tryggingum eldri borgara og öryrkja?

Ég vék áðan, hæstv. forseti, að tillögu Sjálfstæðisflokksins um að greiða ákveðna krónutölu inn í lífeyrissjóði til að koma 25 þús. kr. brúttógreiðslu til lífeyrisþega. Ég hef áður minnst á það mál á Alþingi. Ég tók þá dæmi af einstaklingi sem ef til vill ætti aðeins 15 þús. lífeyrisrétt úr lífeyrissjóði og fengi viðbót upp á 10 þús. kr. frá ríkinu inn í lífeyrissjóðinn. Hverju héldi hann þá eftir að þessum 10 þús. kr. í viðbót? Jú, hann héldi eftir 3.800 kr. miðað við núverandi skerðingarreglur, upp á tæp 40% hjá almannatryggingum og hins vegar tekjuskattsprósentu og útsvari af samanlögðum tekjum úr lífeyrissjóði. Það sem á að bæta verulega hag þessara lífeyrisþega brýtur enn á þessari hörðu skerðingarreglu. En þó hefur verið gefin yfirlýsing um að lækka á kjörtímabilinu skerðingarhlutfallið a.m.k. í 35%, samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar ef ég man rétt.

Að mínu viti þarf að skoða sérstaklega þær reglur sem snúa að tekjum fólks úr lífeyrissjóði og skerðingarreglur sem þar eru við lýði. Það er jú alltaf nokkuð af fólki sem tekur út lífeyri sinn, jafnvel strax eftir 60 ára aldur og fær skertan lífeyri úr flestum lífeyrissjóðum, þótt það sæti þessari hörðu skerðingarreglu, vegna þess að það er ekki í stakk búið til að vera á vinnumarkaði af einhverjum orsökum. Þá fær það fulla skerðingu.

Við í minni hlutanum höfum bent á að eitt af nauðsynlegustu skrefunum í framtíðinni sé að skoða frítekjumarkið gagnvart lífeyristekjum þannig að lífeyrir fólks, jafnvel með lágar lífeyristekjur, með 25 þús. kr. út úr lífeyrissjóði, skerði ekki aðrar bætur. Ef menn meina eitthvað með því að það eigi að hafa rauntekjuhækkunargildi hjá lífeyrisþegum að allir fái 25 þús. kr. út úr lífeyrissjóði sínum þá mundu menn setja frítekjumark upp á 25 þús. Þannig hefði greiðslan úr lífeyrissjóðnum engin skerðingaráhrif. (PHB: Það kemur öllum til góða.) Það kæmi öllum til góða sem eiga lífeyrisréttindi. Því miður, hv. þm. Pétur Blöndal, þá eru ekki allir í íslensku þjóðfélagi sem eiga lífeyrisréttindi, eins og þú væntanlega veist, sem hefur öryggið að sérstöku áhugamáli.

Þetta er ekkert gamanmál, hæstv. forseti, sem við erum að ræða hér. Þetta er grafalvarlegt mál, hvernig farið er af stað í þetta. Ég skora á stjórnarliða, sérstaklega þingmenn Samfylkingarinnar, að skoða þetta mál ofan í kjölinn áður en það verður keyrt fram með 43 þingmanna meiri hluta sem lög frá Alþingi á þessu vorþingi, að illa grunduðu máli að mínu viti. Með þessu er ekki leitað þess réttlætis sem ég taldi að flestir leituðu að varðandi tryggingakerfið, að draga úr skerðingarreglu þeirra sem lægstar hafa tekjurnar og lakasta afkomumöguleikana. Það var a.m.k. sameiginleg niðurstaða okkar í haust, stjórnarandstöðuflokkanna, þegar við lögðum fram sameiginlega stefnumótun varðandi lífeyrismál og eldri borgara að það ætti sérstaklega að líta til þess að hífa upp rauntekjur þess fólks sem lakast er sett. Við bentum á margar aðferðir í sameiginlegri tillögu okkar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins, um hvernig það mætti gerast. Ég hef alltaf verið stoltur af þeirri vinnu.

Ég hef margsagt það í þessum ræðustól að mér hefði fundist áhugavert að taka þátt í þeirri vinnu að móta þær tillögur vegna þess að þar værum við að leita þess réttlætis að allir sem búa í okkar samfélagi kæmust af af lágmarkstekjunum, lágmarksrauntekjum. Það hefur ekkert gildi að tala um brúttótekjur fólks þegar skerðingarreglurnar í Tryggingastofnun eru eins og þær eru og skattleysismörkin eru ekki hærri en þau eru, þau eru þó komin í 90 þús. en voru 79 þús.

Hvað þarf fólk sér til framfærslu í rauntekjum? Hvað þarf fólk í þessu landi til að geta lifað, við hliðina á okkur hinum sem höfum það betra, mannsæmandi lífi? Ég meina það, eins og ég stend hér. Ég hef oft sagt að ef við þurfum að hækka skatta á okkur hinum með hærri tekjurnar til að aðrir geti komist af sem minna hafa, við hliðina á okkur í þjóðfélagi okkar, þá er ég tilbúinn til þess. Ég hef margsagt það. Ég tel að forgangurinn eigi að vera sá að allir geti komist af á þeim lágmarksrétti sem þeim er tryggður. Svo getum við rifist um framhaldið, þegar við erum sameiginlega búið að ná því að allir komist af á lágmarkstekjum. Rauntekjum. Það held ég að sé markmiðið, hæstv. forseti.

Ég tel að það geti ekki ríkt sátt um það sem hér er verið að gera. Ég sé ekki fyrir mér að þeir einstaklingar í okkar þjóðfélagi sem hafa miklar tekjur, þótt þeir séu orðnir 70 ára, eigi þann rétt að taka fullar bætur út úr Tryggingastofnun á sama tíma og við tryggjum ekki rétt og afkomu þeirra sem ekki hafa nægar tekjur sér til framfærslu og þurfa því að fara um göturnar og safna flöskum til að selja, til þess að hafa tekjur. Það er gott starf að hreinsa borgina og önnur bæjarfélög úti á landi, það er ágætt starf. Það er ekkert niðrandi fyrir eldri borgara að taka þátt í því. En margir eldri borgarar og öryrkjar leita á náðir sveitarfélaga til að fá styrk frá Félagsmálastofnun vegna þess að þeir hafa ekki nægjanlegt sér til framfærslu.

Ég lít svo á, hæstv. forseti, að hér sé stigið skref sem erfitt getur verið að snúa frá, verði þá nokkurn tímann snúið frá því. Í annan stað setjum við ekki þá sem lakast eru settir í forgang. Við erum að setja reglu sem gengur algjörlega upp úr og menn fá eins miklar tekjur og þeir hafa í atvinnutekjur plús þessa viðbót frá Tryggingastofnun.

Við settum svona lög fyrir stuttu síðan á Alþingi að því er varðar fæðingarorlofið. Við breyttum því. Við settum þak á það af því okkur fannst óskynsamlegt að menn gætu fengið tekjuviðmiðun út á hvaða tekjur sem væru í fæðingarorlofi. Það held ég að hafi að megninu verið skoðun þeirra sem setið hafa á Alþingi í gegnum árin, að reyna að bæta hag þeirra sem lakar eru settir. En jafnframt smátt og smátt að auka réttindi fólks í þjóðfélaginu.

En við skulum ekki gera það þannig, hæstv. forseti, að þeir sem hafa það mjög gott verði sérstakir njótendur bóta frá Tryggingastofnun ríkisins, þurfi þeir ekki á því að halda. Hér var nefnt dæmi um 600 einstaklinga sem hefðu meira að segja ekki sótt þær bætur til Tryggingastofnunar sem þeir ef til vill eiga rétt á en mundu kannski gera það núna. Ég nefndi að það gætu verið 700–800 millj. kr. ef allir færu að sækja rétt sinn, eftir að þetta hefur verið sett í lög. Það fer auðvitað eftir því hvernig einstaklingarnir vinna úr lögunum.

Til er ein meginregla. Hún er sú að fyrst kemur tími löggjafans að setja lög og svo kemur tími fólksins að fara eftir þeim. Fólkið hefur jafnan meira hugmyndaflug en alþingismenn til að vinna úr lögum með einhverjum hætti, löglegum eða ólöglegum. Jafnvel löglegum á pappírum þótt allir viti að það sé tilfærsla. En ég ætla ekki að gefa mér það fyrir fram að eldri borgarar muni allir misnota þær reglur sem hér eru til umræðu. En reglur eru þannig að það er fólkið sem fer eftir þeim og vinnur úr þeim. Hversu vel sem lögspekingar fara yfir lagafrumvörp þá hefur iðulega komið upp önnur aðferð til að nota lögin. Við skulum því vanda okkur vel við þessa lagasetningu við að móta nýjan ramma og nýja framtíðarsýn.

Það er ekki víst að við komumst til baka ef við setjum þessi lög, jafnopin og til stendur að hafa þau, hæstv. forseti. Þess vegna finnst mér finnst þetta mjög alvarlegt. Það þarf virkilega að gaumgæfa þetta mál. Ég veit vel, hæstv. forseti, að það er til fólk í Samfylkingunni sem kann á þessi lög, m.a. hæstv. forseti sem situr hér að baki mér og kann þessar reglur. Ég skora á þingmenn Samfylkingarinnar að láta ekki teyma sig út í það sem hér á að gera.