134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[12:46]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef hlýtt á þessar umræður af athygli og áhuga. Á þessu stigi málsins hafa mér fundist athugasemdir, ábendingar og skoðanir allra sem hér hafa tekið til máls mjög jákvæðar að því leyti að allir taka undir nauðsyn þess að bæta kjör eldri borgara. Það er kannski kjarni málsins, að viðleitni og jákvæður hugur hv. Alþingis er fyrir hendi til að gera stórt og gott átak í þessum málaflokki. Ég vona að ég sé ekki vanhæfur til að taka þátt í þessari umræðu þótt mín hafi verið getið að gefnu tilefni, vegna aldurs míns. En ég er hvorki fórnarlamb né blóraböggull í þessu máli.

Ég vil að gefnu tilefni taka fram að ef mér endist aldur til að sitja við góð kjör á Alþingi næstu fjögur árin og nái þessum umrædda aldri á sama tíma þá muni ég ekki sækjast eftir þessum bótum úr kerfinu enda þarf ég ekki á því að halda frekar en nú. Þegar ég þigg þingfararkaup sem kjörinn alþingismaður hef ég afsalað mér lögbundnum greiðslum úr lífeyrissjóði alþingismanna. Ég vona að fleiri hugsi á þann veg þegar þar að kemur.

Ég kvaddi mér hljóðs við 1. umr. þessa máls og gerði grein fyrir skoðunum mínum og afstöðu til frumvarpsins. Ég held að ég hafi talað af hálfu þingflokks Samfylkingarinnar þegar ég tók fram að við litum svo á að það frumvarp sem hér er til umræðu væri fyrsta skrefið sem tekið er í þessum málaflokki fyrir atbeina hæstv. ríkisstjórnar. Ég vísa þar til stjórnarsáttmálans sem leggur mikla áherslu á að þetta mál hafi forgang og að samspil skatta, bóta og lífeyrisgreiðslna verði tekið til athugunar með það fyrir augum að einfalda kerfið, gera það skiljanlegra og hagnýtara í þágu þeirra sem kerfisins njóta.

Að því leyti lýsum við að sjálfsögðu yfir fullum stuðningi við málið. Það er svo gott svo langt sem það nær vegna þess að það felur einfaldlega í sér að komið er til móts við fólk sem er 70 ára og eldra og að það geti farið út á vinnumarkaðinn og aflað sér atvinnutekna án þess að það hafi í för með sér skerðingar.

Þetta er enn fremur áréttað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem Samfylkingin stendur að ásamt Sjálfstæðisflokknum. Við fulltrúar Samfylkingarinnar á Alþingi munum að sjálfsögðu standa við þennan stjórnarsáttmála, greiða atkvæði með þeim málum sem þar eru tíunduðu og tekið fram að nái fram að ganga í krafti þessa samstarfs. Um þetta hefur verið samið og stuðningur okkar byggist á þeirri forsendu. Við hvikum ekki frá honum. Við getum auðvitað haft alls kyns skoðanir á útfærslum og framkvæmd þessa máls en málið er angi af þeirri viðleitni að bæta hag og kjör eldri borgara. Þá viðleitni styðjum við.

Ég held að tillaga stjórnarandstöðunnar, svo ágæt sem hún annars kann að vera, sé annars eðlis og feli í sér að frumvarpið sem hér er flutt af hálfu ríkisstjórnarinnar verði strikað út af borðinu. En það getum við ekki samþykkt. Það þýðir um leið að væntanlega verðum við að greiða atkvæði á móti tillögu stjórnarandstöðunnar. Þar með er ekki sagt að við séum efnislega á móti því að það mál sé skoðað. Það þarf þó að gera í tengslum við bótareglurnar, skatta, tekjutengingu o.s.frv. Frítekjumarkið getum við ekki afgreitt eitt og sjálfstætt. Ég held hins vegar að það sé verkefni sumarsins, haustsins og Alþingis á komandi missirum, að einfalda kerfið og finna réttu leiðirnar til að það beri virkilegan árangur. Ég held að allar áhugaverðar ábendingar og sjónarmið sem hér eru flutt, hvort heldur frá fulltrúum stjórnar eða stjórnarandstöðu, hafi sitt að segja og séu jákvætt innlegg í umræðuna.

Síðasti ræðumaður spurði hvort áform væru um hækkun á aldri ellilífeyrisþega. Ég get aðeins svarað fyrir mig og sagt með fullri vissu að slík áform hef ég ekki heyrt nefnd og hvergi heyrt umræðu um það, þ.e. ekki um neinar breytingar á þeim aldursmörkum sem nú gilda.

Samfylkingin styður jöfnuð og réttlæti í þessu kerfi, hún vill eldri borgurum vel, vill bæta kjör þeirra og ég undirstrika og árétta það sem ég sagði í upphafi. Mér finnst andrúmsloftið meðal þingmanna úr öllum flokkum á svipuðum nótum. Þess vegna ætti það að létta vinnuna og baráttu okkar. Það ætti að létta okkur að grípa til aðgerða til að taka á þessum málum, einfalda kerfið og gera það skilvirkara og koma til móts við eldri borgara sem á því þurfa að halda.

Ég held, frú forseti, að ég láti þetta innlegg duga af minni hálfu og væntanlega mun það að einhverju leyti skýra afstöðu Samfylkingarinnar til þessa máls. Við væntum góðs af vinnu að þessum málum á komandi mánuðum og næsta vetri.