134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

áhrif framsals aflaheimilda í sjávarbyggðum landsins.

[13:31]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að taka til umfjöllunar áhrif framsalsins í sjávarútvegi á sjávarbyggðir landsins. Ekkert lát er á áhrifum framsals aflaheimilda í sjávarútvegi á atvinnu og kjör fólks í sjávarbyggðum landsins, bæði þeirra sem starfa í sjávarútvegi og annarra sem þar stunda aðra atvinnu.

Samþjöppun aflaheimildanna fækkar fyrirtækjum og víðast hvar er aðeins eitt fyrirtæki og einn atvinnurekandi í byggðarlaginu sem ræður yfir aflaheimildunum og störfunum. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um slíkt ástand, það er ekki æskilegt hvernig sem á það er litið.

Framsalið hefur á skömmum tíma leitt til þess að atvinnugreinin hefur verið skuldsett gífurlega. Heildarskuldirnar hafa nær þrefaldast og hækkað um 150–200 milljarða kr. Tiltölulega fáir einstaklingar hafa fengið stærstan hluta af þessum fjárhæðum í eigin vasa án skuldbindinga við nokkurn nema sjálfa sig. Eftir standa skuldirnar sem á eftir að greiða og það eru fyrst og fremst þeir sem starfa í greininni sem munu borga þær á næstu áratugum með lægri launum en ella væri. Laun í fiskvinnslu hafa engan veginn haldið í við launaþróun almennt síðustu árin og svipuð þróun er í gangi í sjávarútvegi. Bæði leynt og ljóst er vegið að hlutaskiptakerfinu sem hefur lengi verið grundvöllurinn að kjörum sjómanna.

Áður fyrr var það svo að hjón gátu haft góðar árstekjur í laun með vinnu í fiskvinnslu og á sjó en það er liðin tíð. Meðaltekjur, einkum þar sem byggt er á botnfisksveiðum, hafa lækkað í samanburði við önnur störf. Á Vestfjörðum voru meðaltekjur þær hæstu á landinu en eru nú um 18% lægri en á höfuðborgarsvæðinu þar sem þær eru hæstar, og í fiskveiðum sérstaklega eru meðalatvinnutekjur á Vestfjörðum þær lægstu á landinu. Augljóst samband er á milli hækkandi verðlags á aflaheimildum og skuldsetningar fyrirtækja og jafnaugljóst er sambandið milli vaxandi skuldsetningar fyrirtækjanna og lækkandi launakostnaðar. Framsalið grefur undan atvinnuöryggi fólks í sjávarbyggðunum eins og skýrast má sjá gerast á Flateyri þessa dagana og í Vestmannaeyjum. Handhafar aflaheimilda hafa algerlega frjálsar hendur um sölu þeirra og þegar verðið er nógu hátt hætta handhafarnir að vera heimamenn og verða eigendur kvótans og taka út eign sína. Ætla má þótt ekki sé það víst að á Flateyri fái seljendur aflaheimilda allt að 2 milljörðum kr. í eigin vasa og í Vestmannaeyjum verða milljarðarnir mörgum sinnum tveir þegar salan brestur á. Það er enginn annars bróðir í þessum hildarleik.

Heimamenn sitja eftir með skaðann óbættan og sárt ennið á meðan stjórnmálamennirnir hafa ekki kjark og þor til að gæta almannahagsmuna og láta stjórnast af sérhagsmunum fáeinna vildarvina. Núverandi ástand grefur undan atvinnuöryggi og leiðir til lægri launa. Þróunin er því nokkuð fyrirsjáanleg. Fólki fækkar mjög hratt í sjávarbyggðunum. Að óbreyttum reglum um framsalið verður innan fárra ára staðan orðin svo alvarleg í mörgum sjávarbyggðum að vandséð er hvort hægt verður að snúa þróuninni við. Það er því nú eða ekki. Það verður að ráðast í almennar breytingar á kerfinu og ráðamenn eiga að hætta að blekkja fólk með úrræðum eins og byggðakvótum.

Setja verður löggjöf um sölu og leigu veiðiheimilda. Svo einkennilegt sem það er eru engin lagaákvæði til um þessi miklu verðmæti sem eiga að vera í eigu þjóðarinnar. Skilgreina þarf þessi réttindi í eigu hins opinbera sem á að ráðstafa tímabundið með leigu gegn gjaldi. Andvirði leigugjaldsins verði notað til að styrkja og breikka atvinnugrundvöll byggðarlaganna. Þegar verði verulegur hluti veiðiheimildanna leigður með skilyrðum um útgerð og vinnslu frá einstökum byggðarlögum og atvinnuöryggið aukið þannig. Það eiga allir að geta séð eftir nýjustu atburði, bæði sjávarútvegsráðherra og aðrir, að ekki er hægt að búa við núverandi ástand lengur.

Ég skora á ráðherrann og ríkisstjórnina að snúa sér að því að fara að hugsa um fólkið sem býr í þessum (Forseti hringir.) byggðarlögum.