134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

áhrif framsals aflaheimilda í sjávarbyggðum landsins.

[13:46]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Enn einu sinni ræðum við fiskveiðistjórnarkerfið á hv. Alþingi, að þessu sinni einangraðan þátt, þ.e. framsalið og áhrif þess á sjávarbyggðir. Ég hef alltaf haft tilhneigingu til að líta á sjávarútveginn sem eina af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar sem verði að hafa ásættanlegan starfsgrundvöll og starfsumhverfi og verði að geta borið sig. Síðustu örfá ár höfum við verið með hreint kvótakerfi sem gerir það að verkum að við ættum að geta haft betri stjórn á veiðunum sem er mjög mikilvægt mál.

Hvað framsalið varðar tel ég að alveg megi hugsa sér að gera breytingar á því og takmarka það frekar, en þá þarf að koma sveigjanleiki í staðinn, t.d. hvað varðar skipti á milli tegunda. Við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því að róttækar breytingar mundu fyrst og fremst bitna á kvótalausum bátum og svo geta menn haft mismunandi skoðanir á því hvort það sé gott eða slæmt.

Það sem ég vil leggja áherslu á er að við megum ekki tapa hvatanum til hagræðingar út úr kerfinu. Auðvitað blandast byggðamál og byggðaþróun mjög inn í þessa umræðu um fiskveiðistjórn en mín skoðun er sú að við stjórnum ekki byggð í landinu eingöngu í gegnum fiskveiðar. Það þarf miklu fleira til.

Fiskveiðistjórnarkerfið hefur í aðalatriðum reynst vel og því vil ég ekki tala um neinar grundvallarbreytingar (Gripið fram í.) á því en er mjög hlynnt því að reynt verði að sníða af því agnúa. Þannig hefur það alltaf verið. En ég er líka sammála því sem kom fram hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að greinin þarf að hafa tækifæri til að keppa.

Úrræði eins og byggðakvóti eru mál sem við framsóknarmenn höfum alltaf lagt áherslu á og víða hefur það úrræði komið virkilega að gagni (Forseti hringir.) þó að það sé takmarkað.