134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

áhrif framsals aflaheimilda í sjávarbyggðum landsins.

[13:53]
Hlusta

Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er deginum ljósara að ekki hefur ríkt sátt um stjórnkerfi fiskveiða eftir að kvótakerfið var sett á og allt er tengist framsali veiðiheimilda og áhrifum þess á sjávarbyggðir. Alvarlegast er þó að það hefur ekki skilað þeim meginmarkmiðum að fiskstofnarnir byggðust upp og skiluðu hámarksafrakstri. Það blasir við að okkur hefur mistekist í að vernda og byggja upp þorskstofninn með núgildandi fiskveiðistjórn, verndunaraðgerðum og ákvörðun um veiðiálag.

Nú þegar liggja fyrir niðurstöður Hafrannsóknastofnunar um að draga verði úr veiðum vegna ástandsins á stofninum, ekki bara í ár heldur einnig næstu ár. Við verðum að horfast í augu við að okkur hefur mistekist eitthvað einhvers staðar á leiðinni. Þetta eru alvarlegar upplýsingar, ekki síst fyrir þau svæði sem nær eingöngu byggja á þorskveiðum. Ábyrgðarlaust væri að hunsa ráðgjöfina. Hafrannsóknastofnun er eina stofnunin sem fer með rannsóknir á þessu sviði og ekki um annað að velja í dag þó að margir séu ósammála mörgu í aðferðafræði þeirra er þar starfa, sérstaklega í röðum sjómanna og útvegsmanna. Því er nauðsynlegt og fyrir því röksemdir að endurmeta verði undirstöður og aðferðafræði á þessu sviði frá grunni.

Ef það kæmi í ljós að um vanmat væri að ræða væri það gleðilegt fyrir alla, ekki síst fyrir sjómenn og útgerðarmenn. Ef ekki, hver ber þá ábyrgðina? Stjórnvöld hafa sett fram stefnu um sjálfbæra þróun atvinnulífs og í því samhengi hlýtur sjávarútvegurinn að skipa háan sess sem undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Fiskveiðar verða að vera sjálfbærar og auðlindin endurnýtanleg. Því má ekkert til spara til að tryggja vöxt og viðgang nytjastofna í hafinu.

Virðulegi forseti. Það er óumflýjanlegt að grípa strax til markvissra aðgerða til að treysta undirstöður atvinnulífsins og búsetu í sjávarbyggðunum sem margar eiga í erfiðleikum og þurfa svo í framhaldinu að takast á við afleiðingar minni þorskveiða. Það þarf þverpólitískt samstarf um heildarendurskoðun allrar aðferðafræði við fiskveiðistjórn og skipan sjávarútvegsmála við þær aðstæður sem nú blasa við í sjávarútveginum. Þingflokkur Vinstri grænna (Forseti hringir.) hefur lýst sig reiðubúinn til samstarfs sem ekki byggir á yfirborðskenndum viðbrögðum í þeim málum. (Forseti hringir.) Með leyfi forseta spyr ég: Hver eru áform hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum?