134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

áhrif framsals aflaheimilda í sjávarbyggðum landsins.

[13:56]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta og ekki síðasta skipti sem sjávarútvegsmál verða rædd hér í þinginu. Ég gæti trúað að menn hafi deilt um stjórn fiskveiða í eina 4–5 áratugi í það minnsta og enn eru uppi háværar deilur um það hvernig eigi að stjórna fiskveiðum. Fiskveiðar eru undirstaðan undir atvinnuvegi á landsbyggðinni og undirstaðan fyrir byggð þar. Þess vegna er alveg geysilega mikilvægt fyrir landsbyggðina hvernig þessum málum er fyrir komið.

Vandinn er sá að hér er um takmarkaða auðlind að ræða og þess vegna þarf að nýta hana skynsamlega. Það hefur hins vegar gerst að fyrst og fremst landsbyggðin hefur þurft að bera hallann af þeirri hagræðingu sem að hefur verið stefnt. Þar kreppir skórinn því að það er ekki sanngjarnt að þegar námunni er lokað, eins og segja má að gert hafi verið vegna þess að menn gátu sótt óhindrað á miðin, beri aðeins landsbyggðin hallann af hagræðingunni. Þetta finnst mér skipta miklu máli og ef landsbyggðin ein á að bera hallann af þessu er mikilvægt að ríkið komi þar einnig til skjalanna og mæti þeirri hagræðingu á einhvern tiltekinn hátt.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra talaði áðan um að auka veiðiskylduna, ég skildi hann þannig, og það er mikilvægt enda var tilgangurinn á sínum tíma sá að menn veiddu kvótann en seldu ekki. En um leið og það verður skylda að veiða meira er algjörlega ljóst að það mun gera mörgum útgerðum erfitt um vik því að þá verður minna á markaðnum fyrir kvótalítil skip. Þetta dregur fram hversu vandmeðfarið þetta mál er allt saman og mér hefur virst meira að segja í þessari umræðu að hjá bæði fulltrúum (Forseti hringir.) Frjálslynda flokksins og Sjálfstæðisflokksins megi greina áherslumun innan flokka, (Forseti hringir.) svo snúið er þetta mál.