134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

áhrif framsals aflaheimilda í sjávarbyggðum landsins.

[13:58]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Sjávarútvegurinn er vissulega ein af undirstöðuatvinnugreinum íslensks þjóðfélags. Í þessari umræðu má alls ekki líta fram hjá þeirri staðreynd að síðustu 16 ár hefur hann staðið undir sjálfum sér og skapað atvinnu um allt land.

Tillögur Hafrannsóknastofnunar um þriðjungssamdrátt í þorskveiðum voru vissulega váleg tíðindi. Ljóst er að það verður að bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem nú blasir við sjávarbyggðum víðs vegar um land. Ég fagna þeirri stefnubreytingu sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur boðað um samráð allra þingflokka til að leysa þann vanda sem nú blasir við. Þar er um stefnubreytingu að ræða þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með þennan málaflokk síðustu 16 árin.

Sá vandi sem nú blasir við verður ekki leystur með róttækum breytingum á aflamarkskerfinu. Sú staðreynd að fiskurinn í sjónum er ekki ótæmandi auðlind gerir það að verkum að á einhvern hátt verður að skapa kerfi þar sem sjávarútvegsfyrirtæki geta þrifist og skapað verðmæti og tekjur fyrir þjóðfélagið. Greinin þarf einfaldlega að geta borið sig.

Kerfið er þó ekki gallalaust og það þarf að skoða það með þessu samráði. Frá árinu 1994 hafa til að mynda verið veiddar 1,3 millj. tonna umfram tillögur Hafrannsóknastofnunar og þar getur vandinn vissulega legið að hluta. Ég tel að það geti vel komið til skoðunar að auka veiðiskylduna í 90% og tek því undir með hæstv. sjávarútvegsráðherra um að þar þurfi að breyta til.

Þá tel ég að einnig eigi að skoða hvort ekki eigi að líða tvö ár frá því að sá sem selur frá sér kvóta geti keypt hann aftur. (Forseti hringir.) Allt þetta gæti leitt til þess að sátt gæti skapast um það kerfi sem er við lýði.