134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

áhrif framsals aflaheimilda í sjávarbyggðum landsins.

[14:00]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa verið í dag, svör ráðherra og viðbrögð hans. Þetta hafa verið málefnalegar umræður sem þingmenn hafa komið með. Ég tók sérstaklega til umfjöllunar framsalið sjálft sem er grundvöllurinn í kerfinu og helsti áhrifavaldurinn að breytingum og þess vegna er eðlilegt að horfa til þess hvernig megi bregðast við þeim vanda sem menn sjá um allt land að hefur skapast vegna framsalsins og hvaða lausnir menn sjá fyrir sér að hægt sé að grípa til til að bæta úr. Mér fannst það samdóma álit þeirra sem tóku til máls að menn voru tilbúnir til að ræða breytingar á framsalinu í því skyni að bregðast við vandamálinu. Það er góðs viti að menn séu tilbúnir til þess enda er það grundvallaratriði að menn nái saman um reglur um framsalið.

Við skulum ekki gleyma því að til þess getur komið þó að það sé ekki í augsýn um þessar mundir að Íslendingar gangi í Evrópusambandið. Menn hafa rætt um það þegar sú umræða hefur verið í gangi hver áhrifin yrðu af þeirri inngöngu á sjávarútveginn og hvernig menn gætu komið í veg fyrir að veiðiheimildirnar flyttust af landi brott þannig að nýting þeirra færi eingöngu fram á hafi úti á erlendum skipum. Þar hafa menn sagt að hægt væri að setja þá löggjöf að nýtingin væri bundin því að landa í íslenskri höfn. Það er rétt, það er hægt. En það er líka hægt að gera það í núverandi kerfi og segja: Nýtingin á aflaheimildum er bundin tilteknum skilyrðum um löndun og vinnslu. Þar þarf ekki að vera mikil breyting á framsalinu sjálfu, það getur átt sér stað og orðið eigendaskipti á aflaheimildum, en það tryggir atvinnugrundvöllinn og samband byggðanna við fiskimiðin, virðulegi forseti.