134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:57]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Umræðurnar í dag hafa verið afskaplega afhjúpandi að tvennu leyti. Í fyrsta lagi hefur verið upplýst að í gildi er varðandi afstöðuna til velferðarkerfisins óbreytt og sú sama stjórnarstefna og hér hefur verið við lýði undangengin ár. Það stóð aldrei til að jafna með þessu frumvarpi, sagði hv. þingmaður og talsmaður meiri hluta heilbrigðisnefndar, hv. þm. Pétur H. Blöndal. Það er sama gamla lagið, það á að að bæta kjör sumra. Hverjir skyldu þessir sumir vera? Jú, það eru þeir sem mest hafa handa á milli, við þekkjum alveg fingraför síðustu ríkisstjórnar og hvert hún hefur leitt. Til aukins ójafnaðar í samfélaginu, til vaxandi misskiptingar.

Það hefur líka verið mjög afhjúpandi að hlusta á það hversu gjörólík viðhorfin eru til skattkerfisins og almannatryggingakerfisins. Sú hugsjón að nota skattkerfið og tryggingakerfið er ómöguleg að mati hv. þm. Péturs H. Blöndals vegna þess að hún sækir eitthvað aftur í aldir, hún er gömul. Ja, hvað skyldi nú Biblían vera í huga þessa ágæta hv. þingmanns, frú forseti, ef 100, 200 ára gömul plögg eru orðin ónýt?

Við vinstri græn teljum það beinlínis hlutverk okkar að nýta skattkerfið og tryggingakerfið til að jafna kjörin í landinu. Þess vegna höfum við bent á að með þessu frumvarpi er verið að auka á ójöfnuð, það er verið að deila og drottna. Verið er að búa til sérstakan hóp í þjóðfélaginu og auðvitað er það ekki gert nema á kostnað einhverra annarra. Menn skulu átta sig á því að þegar teknar eru, þó að það séu ekki nema 600, 700 millj. kr. út úr almannatryggingakerfinu til að setja í pott handa tilteknum hópi þá er verið að taka þá fjármuni af öðrum.

Það var athyglisvert að heyra að hv. þm. Pétur Blöndal sér aðeins jöfnuð í tryggingakerfinu með 100% skerðingu. Eina leiðin til að jafna í þessu kerfi, sagði hv. þingmaður, er að skerða 100%. Ég held að nær væri, frú forseti, að strika yfir svo sem eins og 60% af þeim skerðingum á einu bretti og fara þá leið sem við erum að fara, minni hluti heilbrigðisnefndar, að jafna kjör, að bæta kjör þeirra sem almennt eru verst settir í samfélaginu.

Það er ekki aðeins að umræðan hafi verið afhjúpandi hvað varðar afstöðu ríkisstjórnarinnar sem heildar og hv. þm. Péturs H. Blöndals, það hefur verið mjög afhjúpandi að lengst af umræðunni hafa engir fulltrúar Samfylkingarinnar verið í salnum og eru nú liðnar tvær og hálf mínúta síðan einn slíkur kom hér í salinn og veri hann velkominn. Hér hefur aðeins einn þingmaður Samfylkingarinnar tekið til máls, hv. þm. Ellert B. Schram. Hann sagði að hér hefði verið um samkomulag að ræða. Hann ætlaði að styðja þetta vegna þess að þetta væri til jafnaðar eins og bent hefur verið á. Hann sagði líka að þetta hefði verið samkomulag. Það er kannski skýringin á því að samfylkingarmenn láta ekki sjá sig í salnum, þora ekki að kannast við þetta. Hv. þm. Ellert B. Schram kom ekki með neinar skýringar á því af hverju þeir sem eru 70 ára og eldri eiga skilið eða þurfa frekar á að halda, skulum við segja, þeim 600, 700 millj. kr. sem hér er um að ræða en þeir sem eru 67–70 ára, eða þá öryrkjar.

Við erum að tala um að horfa á þá sem njóta lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins sem einn hóp og tryggja stöðu þeirra sem verst eru settir í þeim hópi, ekki þeirra sem best eru settir, þeirra sem hafa hæst eftirlaunin og hæstu tekjurnar, því að það er það sem verið er að gera með frumvarpinu. Ég vænti þess að Samfylkingin láti sjá sig hér í þessum ræðustól fyrst þeir eru komnir í þingsal, a.m.k. einn hv. þingmaður þeirra.

Velferðarkerfið okkar er komið að fótum fram. Ríkisstjórn undir forustu Sjálfstæðisflokks undangengin 16 ár er auðvitað ástæðan fyrir því. Það er ömurlegt til þess að vita, hæstv. forseti, að Samfylkingin skuli ganga þeirra erinda og það skuli vera fyrstu verk þess flokks á sínum fyrstu dögum í ríkisstjórn á Íslandi.