134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:17]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka formanni félags- og tryggingamálanefndar ágæta yfirferð yfir nefndarálitið sem ég eins og fram kemur skrifa undir með fyrirvara. Ég gerði við 1. umr. grein fyrir viðhorfi okkar vinstri grænna til þeirrar aðgerðaáætlunar sem hér liggur fyrir á þingskjali 16 og ætlað er að styrkja stöðu barna og ungmenna. Þetta er góð áætlun um mikilvæg verkefni svo langt sem hún nær. Ljóst er að hæstv. félagsmálaráðherra á eftir að sækja fé til allra þeirra þátta sem þar eru nefndir í hendur ráðherra Sjálfstæðisflokksins, í hendur ráðherra heilbrigðismála, menntamála og ekki síst í hendur fjármálaráðherra. En öllum þessum stóru ráðuneytum sem mikið og mjög koma að í þessari áætlun stýrir Sjálfstæðisflokkurinn svo sem kunnugt er.

Orð Einars Odds Kristjánssonar hv. þingmanns við 1. umr. hér og yfirlýsing hans um það að hann styddi ekki þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir sýna að það verður ekki einfalt mál fyrir hæstv. félagsmálaráðherra að sækja fjárveitingar í þessu skyni. Þetta er í raun ítrekað í nefndarálitinu sem hér liggur fyrir. Í þriðju síðustu málsgrein segir, með leyfi forseta:

„Nefndin bendir á mikilvægi þess að þeim lagafrumvörpum og tillögum sem lögð verða fram í kjölfar samþykktar tillögunnar fylgi ítarlegt kostnaðarmat. Þá bendir nefndin á að horfa þurfi til afkomu ríkissjóðs og efnahagslífsins í heild við framkvæmd þeirra aðgerða sem tillagan felur í sér.“

Þetta voru einmitt þau viðvörunarorð sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson tók til umræðu og taldi reyndar að þessi þingsályktun bæri vott um lausagang í fjármálum ríkisins, sem honum þótti mjög slæmt enda útlitið í efnahagsmálum þjóðarinnar svart um þessar mundir og tæpast tilefni til þess að fara í þær aðgerðir sem raktar eru í þingsályktunartillögunni og óþarft, að hans mati.

Frú forseti. Eins og hv. formaður nefndarinnar rakti komu fjölmargir gestir á fund nefndarinnar. Mér telst svo til að þeir hafi verið nítján talsins á þremur og hálfri klukkustund. Það var vissulega mjög ánægjulegt að hitta allt þetta góða fólk og hlýða á það sem það hafði fram að færa, bæði ábendingar og athugasemdir, svona eftir tilefni. En það var svolítið dapurlegt að verða vitni að þeirri hraðferð, því óðagoti, sem er á málsmeðferðinni. Það endurspeglast í því að þingályktunartillagan er lögð fram algjörlega óbreytt og niðurstaða formanns nefndarinnar og meiri hluta nefndarinnar var að það væru ekki efni eða aðstæður til þess að gera beinar breytingartillögur við þingsályktunartillöguna. Þess í stað var farin sú leið, í nokkuð ítarlegu nefndaráliti, að benda á, væntanlega til að bæta í, þann pakka sem á að koma síðan til frekari skoðunar í ráðuneytum, eins og hv. formaður félags- og tryggingamálanefndar nefndi áðan.

Ég vona, frú forseti, að þetta séu nokkuð óvenjuleg vinnubrögð. Ég held að það hafi ekki bara verið óþægilegt fyrir mig sem nefndarmann heldur einnig fyrir gestina sem þar komu að átta sig á því hve lítinn tíma þingið og nefndin gaf sér til þess að hlýða á það sem þetta ágæta fólk hafði fram að færa og eins að ekki yrði tekið beint tillit til þess sem þar var lagt fram. En í nefndarálitinu koma fram nokkur ný áhersluatriði sem hv. formaður nefndarinnar rakti áðan. Ég ætla að leyfa mér, frú forseti, að tæpa aðeins á þeim.

Þar er fyrst til að telja að á fyrstu síðu nefndarálitsins er tekið fram að nefndin telji mikilvægt að allra leiða verði leitað til að sporna við fátækt. Mér telst svo til að í neðstu málsgrein bls. 1 komi þrisvar eða fjórum sinnum fyrir orðið fátækt. En í fyrri umr. um málið benti ég á hve mikilvægt það væri að viðurkenna að fátækt er staðreynd á Íslandi og hefur mjög alvarleg áhrif á andlega og líkamlega líðan barna. Niðurstöðu nefndarinnar sem þarna kemur fram tel ég því mjög mikilvæga því að í tillögunni sem slíkri er ekki um þetta fjallað heldur talað um bágan efnahag, að mig minnir. Þetta er þó ekki allsendis rétt orðalag hjá mér, frú forseti.

Í öðru lagi er, eins og formaður nefndarinnar hv. nefndi, minnt á meðlagsgreiðendur, á börn fíkla og einnig á húsnæðismál, á húsnæðisvanda fátækra barnafjölskyldna. Nefndin hvetur til þess að hann verði skoðaður sérstaklega í aðgerðum til að sporna við fátækt.

Í umræðum í nefndinni kom fram það mat fulltrúa Alþýðusambands Íslands, sem kom fyrir nefndina, að húsnæðismál væru í öngstræti og mikilvægt væri að efla félagslega íbúðakerfið. Í því efni vil ég minna á umræður sem nú eru uppi um Íbúðalánasjóð og vara sterklega við atlögu markaðsaflanna, sem nú stendur fyrir dyrum, að Íbúðalánasjóði en um hana má sjá merki um á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Það þarf að vera samtaka í að hrinda þeirri atlögu. Íbúðalánasjóður með öllum sínum kostum og göllum er bjarghringur fyrir þær fjölskyldur sem versta aðstöðu hafa til að afla sér húsnæðis og sérstaklega er hann mikilvægur á landsbyggðinni.

Til viðbótar þessu er í nefndarálitinu ítrekað minnt á að brúa bilið frá fæðingarorlofi þar til dagvistarúrræði taka við og þarf, að mati nefndarinnar, að taka umgengnis- og forsjármál til sérstakrar skoðunar.

Það veldur mér nokkrum vonbrigðum, sem er ein ástæðan fyrir því að ég skrifa undir þetta nefndarálit með fyrirvara, að ekki hefur verið tekið nógsamlega inn í nefndarálitið hve mikil nauðsyn er að endurskoða lögin um fæðingarorlof. Það er auðvitað mjög brýnt að lengja fæðingarorlof og mikilvægt, sem fram hefur komið, að þar er verið að hugsa um viðbótarfjármagn. En það þarf að auka sveigjanleika í fæðingarorlofinu, sérstaklega gagnvart námsmönnum. Eins og kerfið er í dag þá felst í því það sem fulltrúi Alþýðusambands Íslands kallaði óþolandi mismunun, þ.e. að foreldrar á almennum markaði eiga ekki kost á því eins og opinberir starfsmenn að reikna sér orlof ofan á fæðingarorlofið, sem þýðir í reynd að foreldrar á almenna vinnumarkaðnum fá fæðingarorlof sem er fjórum vikum styttra en orlof opinberra starfsmanna. Þetta er það sem fulltrúi ASÍ kallaði óþolandi mismunun. Ég hefði kosið að það kæmi sterkara inn í þetta nefndarálit, t.d. ábending um þörfina á að endurskoða fæðingarorlofið.

Frú forseti. Ég tel mikilvægt að í þessu nefndaráliti kemur fram að nefndin telji rétt að tekið verði til sérstakrar skoðunar skipulagt eftirlit með tannheilsu í tengslum við skólana. Það hefur mikið verið um það rætt, þau ósköp sem hér urðu þegar skólatannlækningar voru lagðar af. Með rannsóknum hefur verið sýnt fram á að tannheilsu á Íslandi, barna sérstaklega, hefur hrakað síðan. Á fund nefndarinnar kom Reynir Jónasson yfirtryggingatannlæknir. Í máli hans kom fram það mat að það hefðu verið mikil mistök að leggja niður skólatannlækningar. Með því var yfirlæknirinn ekki að segja að aðstaða eða efni væri til þess að setja upp tannlæknastóla í hverjum skóla í landinu. En að senda tannfræðinga og tannlækna inn í skólana til þess að skoða börn og vísa til tannlækna, taldi hann geta bætt árangur í tannheilsu.

Staðreyndin er sú að í rannsókn sem hann sjálfur ásamt tveimur starfsmönnum Lýðheilsustofnunar og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis gerði fyrir skömmu kemur fram að á aldursbilinu 6–17 ára voru það 14.500 börn sem ekki höfðu komið til tannlæknis í eitt ár, 5.900 börn á þessum aldri, 6–17 ára, höfðu ekki komið til tannlæknis í tvö ár og 3.500 börn sem ekki höfðu komið til tannlæknis í þrjú ár. Þarna erum við að tala um 25.000 börn af um 50.000 börnum á þessu aldursbili, ef allt er til talið, þeir sem búa í útlöndum o.s.frv.

Það var athyglisvert í þessu sambandi að hlýða á orð tryggingayfirlæknis tannlækninga í ljósi þess að fram til ársins 1993 voru tannlækningar gjaldfrjálsar eins og þær eru nú í Svíþjóð og fram hefur komið. En tannheilsa barna á Íslandi er helmingi verri en tannheilsa barna í Svíþjóð.

Tryggingayfirlæknirinn segist hafa bent á það fyrir síðustu áramót, vegna fjárlagagerðar, væntanlega fyrir árið 2008, að hann teldi þurfa 30% hækkun á fjárframlögum til Tryggingastofnunar í þennan málaflokk, tannlækningar barna, til að gjaldskrá sú sem ráðherra hefur sett næði máli gagnvart gjaldskrá sem þá var í gildi hjá tannlæknum almennt. En á þeim tíma, frú forseti, var auðvitað ekki í gildi samningur á milli tannlækna og Tryggingastofnunar.

Tryggingayfirlæknir taldi að ef sama hlutfall ætti að vera á fjárlögum og var 1992 til 1993, sem er síðasta árið sem tannlækningar barna og ungmenna voru gjaldfrjálsar eða ókeypis á Íslandi, þyrftu að koma til um 1.000 millj. kr. til viðbótar, 1 milljarður kr. En nú munu renna um 600 millj. kr. til tannlækninga barna og unglinga, sem er um helmingur þess sem fer í tannlækningar í tryggingakerfinu.

Tryggingayfirlæknir benti einnig á að þessi framlög hefðu ekki hækkað á sama hátt og aðrir flokkar almannatrygginga á sama árabili. Það hefur, ásamt stóraukinni gjaldtöku af sjúklingum og foreldrum barna sem fara með börn sín til tannlæknis, valdið því mikla misvægi sem nú stendur. Það mun því vanta um 1.000 millj. kr. til að sama hlutfall haldist og árið 1993. Þetta vildi ég að kæmi fram, frú forseti, vegna þess að ég þekki ekki til þess að tryggingayfirlæknir hafi áður tjáð sig með þessum hætti. Ég vona að ég hafi farið rétt með allt hans mál og tel mig reyndar hafa gert það.

Ég tel mikilvægt, frú forseti, að í nefndarálitinu kemur fram ítrekun um að rétt sé að taka til sérstakrar skoðunar skipulegt eftirlit með tannheilsu í tengslum við skólana. Ég fagna því líka að í nefndarálitinu er bent á þá misskiptingu sem hefur verið eftir búsetu fyrir börn og unglinga til náms í framhaldsskólum og minni í því tilliti á stefnu Vinstri grænna um að nám í framhaldsskólum, til 18 ára aldurs í það minnsta, eigi að vera sem næst heimabyggð eða með fjarkennslu. Þar er líka minnt á hversu alvarlegt brottfallið í framhaldsskólunum er og að taka þurfi sérstaklega til umfjöllunar stöðu drengja í skólunum.

Ég fagna einnig að í nefndarálitinu er minnt á að huga þurfi að auknu aðgengi að ýmiss konar listnámi barna og unglinga, ekki aðeins íþrótta- og félagsstarfi. Það er eins og margt annað til komið í þetta nefndarálit samkvæmt ábendingum þeirra sem heimsóttu nefndina, einhverra af þeim 19 gestum sem höfðu stuttan stans hjá nefndinni en höfðu mikið fram að færa.

Ég gerði að sérstöku umtalsefni við 1. umr. það sem segir í V. kafla aðgerðaáætlunarinnar, 5. lið, um að stytta biðlista á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, t.d. með árangurstengdum samningum við tiltæka sérfræðinga með þekkingu og reynslu. Ég lagði mig eftir því, frú forseti, þegar fulltrúar Landspítalans og frá barna- og unglingageðdeild, Greiningarstöð ríkisins og landlækni voru á fundi nefndarinnar, að spyrja hvert væri álit þeirra á þessum hugmyndum sem ég tel að eigi mjög illa við í geðlækningum og geðheilbrigðissviði, þ.e. um árangurstengingu. Ég spurði líka sérstaklega eftir því hvaðan þetta ákvæði væri ættað, hvaðan það væri komið. Á fundi nefndarinnar gekkst Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu, við þessum orðum og túlkaði þetta sem svo að það mætti gjarnan leita samninga við sjálfstætt starfandi sérfræðinga um tiltekinn fjölda greininga til þess að stytta þá biðlista sem nú eru eftir greiningu á Greiningarstöð ríkisins. En þar eru nú 250 börn.

Stefán Hreiðarsson, yfirlæknir á Greiningarsstöðinni, taldi að það mætti stytta þessa biðlista á tveimur árum í sérstöku átaksverkefni annars vegar og hins vegar með þremur nýjum stöðugildum sem vilyrði væri fyrir. En hann sagði að það væri ekki faglega ákjósanlegt að fara í árangurstengingu á þessu sviði.

Matthías Halldórsson landlæknir taldi að það væri erfitt að fara í árangurstengingu í geðlækningum og Magnús Pétursson á Landspítalanum taldi að það væri flókið og erfitt að fara í árangurstengingu á einu sviði. Það yrði þá að taka til allrar göngudeildarþjónustu á Landspítala. En í þessum hugmyndum er reyndar ekki um að ræða árangurstengingu á BUGL, eða barna- og unglingageðdeildinni, heldur einungis varðandi Greiningarstöð ríkisins.

Ég tel að í nefndarálitinu sé nokkur varnagli settur hvað þetta varðar í framhaldi af því sem var rætt í nefndinni. Hér er bent á að skoða þurfi hvort og með hvaða hætti sé hægt að árangurstengja starfsemi á borð við starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Nefndin bendir á að hagsmunir skjólstæðinga kerfisins þurfi ávallt að vera í fyrirrúmi þannig að full samvinna sé á milli stofnana og sérfræðinga.

Ég tel, frú forseti, mikilvægt að stíga varlega til jarðar í þessu efni og held að það geti skapað falska öryggiskennd að ætla að ráðast að þessum biðlistum með því hugarfari að því fleiri á því styttri tíma, því betra eða því meiri árangur. Ég held að það sé ekki rétt nálgun og leyfi mér að vísa til orða gesta nefndarinnar í því tilliti.

Ég vil einnig gera að umtalsefni þá miklu þörf sem er á að efla fagstéttir á geðlæknissviði og menntun, sérstaklega á sviði geðlækninga. Það þarf að taka sálfræðinga inn í kerfið á sama hátt og geðlækna til að gera það sveigjanlegra og hverfa frá þeirri gömlu hugsun að lyflækningar séu bestar í geðheilbrigðismálum. Aðrar aðferðir henta mörgum betur og þarf að taka þær inn í dæmið.

Það kom fram í máli Matthíasar Halldórssonar landlæknis að nú eru aðeins um 10 barna- og unglingageðlæknar starfandi á landinu og enginn í slíku námi. Það eru hins vegar 50 til 60 manns í fullorðinsgeðlækningum. Hann benti á að skýringanna á þessu mikla misvægi gæti verið að leita í því að í því fagi er aðeins einn aðjúnkt í Háskóla Íslands. Það vantar kennslustól í geðlækningum barna- og unglinga. Það vantar prófessora í geðlækningum barna og unglinga til þess að styrkja þetta faglega. Eitt af því sem við er að etja í þessum efnum og veldur biðlistunum er skortur á fagmenntuðu starfsfólki, svo sem geðlæknum, sálfræðingum, iðjuþjálfum og geðhjúkrunarfræðingum.

En það eru ekki aðeins þessar stéttir sem þarf að horfa til og efla menntun á þeirra sviði heldur þarf auðvitað að líta til kjara umönnunarstéttanna allra og þeirrar starfsaðstöðu sem þeim er boðin, hvort heldur er á stofnunum fyrir börn og unglinga, fyrir aldraða eða inni á sjúkrahúsunum í heild. Það hefði að mínu viti mátt koma inn í þetta nefndarálit að ósekju. Það er auðvitað undirliggjandi.

Einn fyrirvari minn byggir á því, sem er svipað og ég nefndi við fyrri umr., að það er mikilvægt að viðurkenna og horfa til þess sem sveitarfélögunum er ætlað að leggja til í þessari aðgerðaáætlun. Í nefndarálitinu er vissulega mun sterkar að orði kveðið en í ályktuninni sem slíkri en þar segir að nefndin ítreki mikilvægi þess að náið og fullt samráð verði haft við sveitarfélögin í landinu, aðila vinnumarkaðarins, einstaka stofnanir og þeim félögum sem snúa að þeim.

Þórður Skúlason, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, kom á fund nefndarinnar og upplýsti að í aðdraganda þessarar þingsályktunartillögu hefði ekki verið haft sérstaklega samband við Samband íslenskra sveitarfélaga. Hann lagði áherslu á að þar sem um væri að ræða ný verkefni tengd þessari aðgerðaáætlun eða öðrum verkefnum yrði að kostnaðargreina þau, gera um þau sérstaka samninga við sveitarfélögin og láta tekjustofna fylgja. Þetta kom til umræðu við fyrri umr. en ég tel nauðsynlegt að ítreka þetta enn og aftur vegna þess að það er nánast engin grein í þessari aðgerðaáætlun þar sem er ekki minnst á hlutverk sveitarfélaganna eða þau mikilvægu verkefni sem á þeirra borðum eru, hvort sem um er að ræða forvarnir eða eftirfylgni.

Það mætti nefna ýmislegt fleira sem hefði mátt vera í þessu nefndaráliti og þingsályktun. Ég vænti þess að aðrir hv. nefndarmenn nefni það kannski á eftir. Ég vil að lokum segja, frú forseti, að ég styð auðvitað allar þær breytingar eða viðbætur sem hafa verið settar inn í nefndarálitið. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra félagsmála taki tillit til þeirra við frekari úrvinnslu í þessum mikilvæga málaflokki. Ég tel ljóst að við höfum fyllilega efni á að búa börnum landsins öruggt skjól þannig að þau fái sem best uppvaxtarskilyrði.

Mig langar að lokum að nefna eitt mikið áhugamál mitt, og vonandi fleiri þingmanna í þessum efnum, þ.e. hvað varðar áhrif barna í samfélaginu. Það er mikilvægt að rödd barna og ungmenna fái að heyrast og eftir því verði hlustað, ekki síst á hinu háa Alþingi, hvað þau hafa um þau mál að segja sem þeim viðkoma.