134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[16:34]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað og þeim vilja til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Það lítur allt út fyrir að halda eigi áfram því góða starfi sem Framsóknarflokkurinn hefur unnið, því starfi sem unnið var í tíð fyrrverandi félagsmálaráðherra. Sérstaklega fögnum við því að stefnt skuli að því að lengja fæðingarorlofið í áföngum á tímabilinu. Þetta er í samræmi við þau kosningaloforð sem við framsóknarmenn gáfum í kosningabaráttunni. Þó að það komi kannski ekki alveg skýrt fram í þingsályktunartillögunni vona ég að orlofið verði ekki bara lengt í 12 mánuði heldur fylgi því þá peningar til að greiða fyrir þann kostnað sem við bætist. Fæðingarorlofið er einfaldlega kerfi sem stendur framarlega í heiminum og finnst ekki annars staðar. Þetta er einfaldlega eitthvað það besta sem gert hefur verið fyrir ungar barnafjölskyldur.

Þá fögnum við líka áformum um hækkun barnabóta. Barnabætur hækkuðu á síðasta kjörtímabili, þ.e. greiðslur með börnum yngri en 7 ára hækkuðu upp í 56 þús. kr. á ári síðasta kjörtímabil. Þá hafa almennar barnabætur hækkað upp í 18 ára aldur, var áður við 16 ára aldur. Frítekjumörk barnabóta hafa hækkað um 60% og skerðingar vegna tekna foreldra hafa minnkað. Nú á að gera enn betur í þessum efnum og því ber að fagna.

Sérstaklega er ánægjulegt að sjá að ný ríkisstjórn vill efla forvarnir. Fram kemur í nefndarálitinu neðarlega á fyrstu blaðsíðu að hugað verði að alvarlegri stöðu barnafíkla. Ég hefði óskað að þetta fengi meiri umfjöllun bæði í þingsályktuninni og nefndarálitinu vegna þess að þetta er kannski eitt það alvarlegasta mál sem íslenskt þjóðfélag stendur frammi fyrir og þarna þarf að gera verulega bragarbót á.

Þá er vert að geta þess að því er fagnað að auka eigi svokallaðan dreifbýlisstyrk eða jafna kostnað námsmanna sem búa langt frá skólum sínum. Þó að það hafi reyndar ekki komið inn í þingsályktunartillöguna gerum við ráð fyrir að þetta sé í þeim áformum sem ný ríkisstjórn ætlar að beita sér fyrir.

Ég samþykkti þetta nefndarálit með fyrirvara. Í fyrsta lagi set ég fyrirvara við heiti þingsályktunartillögunnar. Ég tel að hér sé ekki um eiginlega aðgerðaáætlun að ræða. Það eru einfaldlega engin tölusett markmið. Það er heldur ekkert yfirlit yfir kostnaðarþætti sem þarf að vera til að um eiginlega aðgerðaáætlun sé að ræða. Þetta er einhvers konar framhald á þeirri viljayfirlýsingu eða þeim stjórnarsáttmála sem ný ríkisstjórn gerði og má í rauninni segja að hún sé eins almennt orðuð og óskýr og stjórnarsáttmálinn var.

Það eru fleiri atriði sem ég vil setja fyrirvara við. Fram kemur í nefndarálitinu að tekið verði til sérstakrar skoðunar skipulagt eftirlit með tannheilsu í tengslum við skólana. Maður veltir fyrir sér hvernig það á að framkvæmast. Mig langar að spyrja hv. þm. Guðbjart Hannesson um hvaða leiðir á að fara í þessu efni. Á að taka upp skólatannlækningar? Þetta er mjög óskýrt og loðið í mínum huga.

Þá kemur fram í þingsályktunartillögunni í V. kafla að þegar í stað verði gripið til sérstakra aðgerða til að vinna á biðlistum eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, t.d. með árangurstengdum samningum. Því ber að fagna að minnka eigi biðlista, sérstaklega þegar geðheilbrigðismál eru annars vegar, en ég vil setja stóran fyrirvara við orðið árangurstengt. Ég held að það hafi ekki komið nægilega skýrt fram við hvað er átt. Á þeim nefndarfundi sem ég sat komu fram þær skýringar að í rauninni væri ekki átt við góðan árangur við að greina þá sem ættu við geðræn vandamál að stríða heldur væri einfaldlega verið að tala um þetta afkastatengt þannig að sá utanaðkomandi sérfræðingur sem gæti greint flesta á sem stystum tíma fengi meira greitt fyrr. Ég tel að ef það er réttur skilningur sé nefndin algjörlega á rangri leið vegna þess að það skiptir öllu að vandað sé til verka og að gæðin standi upp úr en ekki það að um sé að ræða einhvers konar uppmælingu á verkum þeirra sérfræðinga sem verða fengnir til að stytta biðlistana. Það verður jafnframt að gera ráð fyrir að um er að ræða afar stóra ákvörðun þegar slíkar greiningar fara fram og það verður í rauninni ekki aftur tekið ef mistök eru gerð.

En ég vil samt ítreka að það er jákvætt að útrýma eigi biðlistum og styð að það verði gert tímabundið með því að leita til sjálfstætt starfandi sérfræðinga en vil gera fyrirvara við þetta orðalag um árangurstenginguna.

Það sem ef til vill vantar einna helst i í þingsályktunartillöguna er kafli um húsnæðismál. Hæstv. félagsmálaráðherra talaði skýrt en ég hefði engu að síður viljað sjá kafla eða einhverja umfjöllun um húsnæðismál vegna þess að Íbúðalánasjóður er einfaldlega tæki, ekki bara fyrir þá sem búa á landsbyggðinni þar sem veðhæfi eigna þeirra er minna og allt annað en íbúa í Reykjavík, heldur að þar yrðu líka ákvæði sem í rauninni styrkja samningsstöðu þeirra sem hafa lent í vandræðum með afborganir á lánum sínum. Því er ágætt að Íbúðalánasjóður sé þá til þar sem tekið er tillit til þeirra vandræða sem fólk getur lent í.

Á síðustu metrunum var settur inn í nefndarálitið kafli um að horfa þurfi til afkomu ríkissjóðs og efnahagslífsins í heild við framkvæmd þeirra aðgerða sem tillagan felur í sér. Þá veltir maður fyrir sér orðum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem styður ekki þessa tillögu um að dökkar horfur séu fram undan í efnahagslífinu. Ég held að það sé á margan hátt rétt hjá honum. Við vitum af nýjum tillögum Hafrannsóknastofnunar. Því er viðbúið að mikill samdráttur verði í sjávarbyggðum og kannski á landsbyggðinni allri á næstunni. (Gripið fram í.) Í ljósi þess að horfa þurfi til afkomu ríkisins og efnahags skýtur kannski skökku við að í nefndarálitinu komi fram á fyrri blaðsíðunni að efnisatriði tillögunnar eigi að vera forgangsatriði á sviði velferðar í landinu. Taka má undir að þetta eigi að vera forgangsatriði en ég held að við verðum að horfa til fleiri þátta en að gera eigi allt fyrir alla án þess að fram komi hvernig það verður gert eða hvað það komi til með að kosta.