134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[16:52]
Hlusta

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að leggja fram þessa aðgerðaráætlun og hrósa hæstv. félagsmálaráðherra fyrir skörungsskap. Það kalla ég skörungsskap að ná að snara fram slíkri aðgerðaráætlun þegar á sumarþingi svo skömmu eftir kosningar. Það var líka löngu orðið tímabært að íslensk stjórnvöld mótuðu markvissa stefnu í málefnum barna og fylgdu þar með fordæmi annarra Norðurlanda.

Ég lýsi yfir stuðningi við markmið þessarar áætlunar, þ.e. að styrkja stöðu barna og ungmenna hér á landi. Ég vona að aðgerðirnar komist sem fyrst í framkvæmd. Þrátt fyrir að ég sé að flestu leyti ánægð með áætlunina hefði ég óskað þess að hún væri á stöku stað skýrari og afdráttarlausari hvað það varðar að taka af allan vafa um að öll börn hafi rétt á tiltekinni þjónustu án gjaldtöku. Hluti vandans er að sjálfsögðu fólginn í því að með tilfærslu grunnskólans frá ríki yfir til sveitarfélaganna fylgdu ekki nægilegir tekjustofnar. Því er ljóst að þessi áætlun mun seint ná fram að ganga ef ekki verður gengið til viðræðna við sveitarfélög í landinu og verulegir fjármunir fluttir til þeirra svo þeir nái að sinna öllum þeim verkefnum. Viljinn er vissulega til staðar en ekki fjármagnið.

Staðreyndin er sú að hér á landi fæðast ekki allir jafnir. Sum börn fæðast inn í ríkar fjölskyldur, önnur inn í fátækar. Meðan ekki er tryggt að öll börn hafi jafnan aðgang að dagvistun, fæði í grunnskólum landsins, tannviðgerðum, íþróttaiðkun, tónlistar- eða tómstundanámi, svo fátt eitt sé nefnt og þetta allt án gjaldtöku, viðheldur menntakerfið stéttaskiptingu og mismunun. Sú staða er óþolandi og á ekki að líðast í velmegunarþjóðfélagi líkt og okkar.

Hvernig er hægt að rökstyðja það að sum börn finni fyrir misskiptingunni í þjóðfélaginu með maganum og fái að sitja til hliðar og fylgjast með bekkjarsystkinum sínum snæða heitan mat í hádeginu. Það er ekki hægt, m.a. hefur könnun Félagsfræðingafélags Íslands sýnt að börnum svíður óréttlætið og þau finna fyrir mismununinni ekki síður en við fullorðna fólkið. Er þetta virkilega það sem við viljum kenna börnunum okkar? Nei, ekkert barn á að búa við fátækt á Íslandi. Að þessu leyti get ég því ekki dulið ákveðin vonbrigði mín með aðgerðaáætlunina. Ég hefði óskað þess að hún gengi lengra. Það að ætla að vinna að því að bæta aðgengi allra barna og ungmenna til íþróttaiðkunar og félagsstarfs er ekki nægilegt. Það þarf einfaldlega að tryggja rétt allra barna og ungmenna til íþróttaiðkunar og tómstundanáms, m.a. til listanáms. Það er ekki nægjanlegt að segjast ætla að styðja nemendur í framhaldsskóla til kaupa á bókum og öðrum námsgögnum en minnast ekkert á í hverju sá stuðningur felst. Það verður einfaldlega að tryggja að allir nemendur í framhaldsskólum sitji við sama borð og fái ókeypis námsgögn til að geta stundað nám sitt.

Þótt ég leyfi mér að gagnrýna um leið og ég hrósa er það svo hvað varðar megináherslur og tilgang aðgerðaáætlunarinnar að mér finnst hún mjög góð. Í henni er tekið á mörgum veigamiklum atriðum sem mörg hver voru til umræðu rétt fyrir kosningar og ég fagna t.d. sérstaklega að í áætluninni sé tekið á tannheilsu barna. Það liggur í augum uppi að þau börn sem illa eru stödd fjárhagslega og félagslega fá minnstar tannlækningar og hafa því þegar í æsku verri tannheilsu og slíkt fylgir þeim allt lífið.

Íslenskt samfélag hefur verið í mikilli uppsveiflu undanfarna áratugi. Það hefur gengið í gegnum hraðar og miklar breytingar, sumar góðar og aðrar slæmar. Menn vinna langan vinnudag og álag á foreldra er mikið, samverustundir með börnum eru fáar. En álag á börn og ungmenni við slíkar aðstæður er ekki síður mikið og við þær aðstæður er mikilvægt að hlúa vel að fjölskyldum, börnum og foreldrum. Það eru sennilega fáir foreldrar ef nokkrir sem óska sér þess að vinna mikið og geta þar af leiðandi sinnt börnum sínum minna en ella. Ég tel sérlega mikilvægt að farið verði í vinnu við að stytta vinnuvikuna sem allra fyrst og fagna þeim hluta aðgerðaáætlunarinnar sérstaklega.

Ég fagna því jafnframt að fæðingarorlofið eigi að lengja í 12 mánuði en tel um leið þörf á að endurskoða kerfið og gera það sveigjanlegra, til að mynda hvað varðar námsmenn. Einnig tel ég verulega þörf á að endurskoða fæðingarorlofskerfið með stöðu einstæðra foreldra í huga. Það er því miður svo að sum börn fá eingöngu notið sex mánaða heima við. Ég kýs að líta á fæðingarorlofið ekki eingöngu sem rétt foreldra heldur að sama skapi sem rétt barna til að njóta samvista við foreldra sína fyrstu mánuðina. Það hefur oft verið sagt að hægt sé að dæma þjóðfélög eftir því hvernig komið er fram við börn og aldraða. Að mínu mati mun framkoman við þá einstaklinga sem skapa munu framtíðina sannarlega vera einn af mikilvægustu mælikvörðunum. Því styð ég þessa aðgerðaáætlun en vona að gengið verði lengra í þá átt að láta börn ekki finna fyrir misskiptingunni í þjóðfélaginu í gegnum menntakerfið.