134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[17:28]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins að víkja að því vegna ummæla hv. þm. Péturs H. Blöndals um stöðu þeirra barna sem eiga foreldra sem eru fíklar að hún er auðvitað mjög alvarleg og það er í raun og veru ekkert líf varnarlausara en líf barna sem búa við slíkt ástand. Og þó að það komi ekki fram í þessari þingsályktunartillögu erum við með barnaverndarlög þar sem gerðar eru miklar kröfur um tilkynningarskyldu ef eitthvað alvarlegt er að, t.d. ef kennari eða skólayfirvöld eða aðrir sjá að það er eitthvað alvarlegt á ferðinni á heimili einhvers fíkils og það er barn þar þá ber mönnum náttúrlega að tilkynna það og grípa þar inn í.

Mig langaði aðeins til að koma inn á þetta. Við vitum að það eiga sér stað gríðarlega miklar aðgerðir á vegum félagsþjónustunnar víða um land vegna þess að börn búa á heimilum fíkla. Auðvitað reynum við að koma inn í það líf með því að hjálpa foreldrunum að fara í meðferð og oft hefur inngrip samfélagsins skipt máli og hjálpað þeim til að geta haft börnin sín áfram.