134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[17:30]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Í þeirri aðgerðaáætlun sem við ræðum hér er eingöngu rætt í VI. kafla um aðgerðir í þágu barna og ungmenna með hegðunarerfiðleika og í vímuefnavanda. Það er ekki rætt um hinn endann sem eru börn sem eiga foreldra sem eru fíklar. Jafnvel þó að við séum með barnaverndarlög er það afskaplega viðkvæmt mál og ekki endilega víst að barnið vilji vera tekið frá foreldrunum. Það er eitt af erfiðustu málum sem við upplifum hvenær sú staða er komin upp. Hvenær staðan er orðin svo slæm að það sé betra að taka barnið frá foreldrunum en að leyfa því að vera áfram hjá þeim, því að yfirleitt vill barnið vera áfram ef það væri spurt.

Þessi vandi er óskaplega stór. Ég hef enga lausn á honum, ekki hér og nú, en ég vildi gjarnan að menn áttuðu sig á honum samt áður en þeir fara að glíma við alls konar önnur vandamál sem að mínu mati eru minna þungbær.