134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[17:31]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara taka undir og deila áhyggjum með hv. þm. Pétri H. Blöndal um það sem hann sagði áðan, en auðvitað skiptir líka miklu máli viðhorf samfélagsins til áfengis- og fíkniefnaneyslu og hvernig talað er um þau mál almennt.

Við getum t.d. bara séð það í sjónvarpinu, þar var frétt um daginn um það að einhverjar nunnur á Spáni voru fengnar til að drekka bjór og það átti sanna að bjórinn minnkaði kólesterólmagn í blóði. Þetta var náttúrlega bara hlægilegt. Ég hálfvorkenndi nunnunum. Ég bara segi það.

Svo var önnur frétt tveim dögum áður að nú væri hægt að drekka bjór með mat en ekki bara léttvín. Það er svona áróður sem blasir alls staðar við okkur. Og jafnvel í tengslum við knattspyrnuleiki og annað setjast heilu hóparnir og þamba bjór til að horfa á íþróttamenn sem varla geta drukkið svona mikið af bjór því að þá gætu þeir ekki sýnt þau afrek sem þeir sýna. Það er ákveðnar mótsagnir í þessu öllu saman.

Það sem skiptir máli í raun og veru er sýn samfélagsins til þessara mála. Er bara eðlilegt að menn drekki einn, tvo, þrjá bjóra á dag? Eða eina, tvær eða þrjár rauðvínsflöskur á viku? Eða reyki fjórar eða fimm hasspípur? Eða taki amfetamín í nefið eða kókaín, jafnvel þó að það sé alveg kolólögt?

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að nefna þessi atriði en ég bendi líka á þá skyldu samfélagsins að grípa inn í þó að það sé mjög erfitt og viðkvæmt sem það svo sannarlega er.