134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[17:33]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar undir lok þessarar umræðu að drepa á tvö atriði. Annað hefur lítt verið í umræðunni hér og það er, vænti ég, ekki vegna þess að það sé eitthvað minna mikilvægt en annað, heldur vegna þess hversu umfangsmikil þessi tillaga er. Það vill svo til að þetta er VIII. kaflinn, um aðgerðir í þágu barna innflytjenda. Ég vil nota tækifærið og fagna sérstaklega því sem þar er tínt til og einnig því sem kemur fram til viðbótar í nefndaráliti hv. félagsmálanefndar.

Það sem mér finnst sérstaklega mikilvægt og vil nefna af því hér var verið að ræða leikskólann er að í 4. tölulið segir að unnið verði að því að skilgreina rétt leikskólabarna af erlendum uppruna til að læra íslensku og til að fá viðeigandi málörvun. Í þessu sambandi er auðvitað mjög mikilvægt að muna eftir því að jafnvel þó að leikskólinn sé orðinn viðurkenndur hluti af skólakerfinu þá er leikskólinn ekki ókeypis. Það er því miður þannig, a.m.k. þar sem ég þekki til, að hlutfallslega færri börn af erlendum uppruna sækja leikskóla en börn annarra hér í borginni.

Ég fagna því sérstaklega sem segir í nefndarálitinu hvað það varðar að það eigi ekki aðeins að horfa til vankunnáttu þessara erlendu barna í íslensku heldur einnig að taka tillit til þekkingar þeirra á sínu móðurmáli, eins og formaður nefndarinnar ítrekaði reyndar fyrr í dag.

Mig langar aðeins til að taka þátt í þeirri umræðu sem hefur spunnist hér um tannlækningar. Það er og verður vissulega mjög dýrt að vinna upp alla þá vanrækslu sem hefur verið á því sviði á undanförnum árum. Allt frá 1993 þegar fallið var frá því að hafa tannlækningar barna og ungmenna án endurgjalds eða ókeypis, að ég tali ekki um ósköpin þegar skólatannlækningar voru lagðar niður með tilvísun til samkeppnislaga og að kröfu forsvarsmanna Tannlæknafélags Íslands, held ég, frekar en Reykjavíkur.

Það hefur verið upplýst hér að það kosti um 1.000 millj. kr. til viðbótar við þær 1.200 millj. kr. sem nú þegar er varið til tannlækninga í tryggingakerfinu, að ná því marki sem var á árinu 1993. En á þessum tíma hafa framlög til sjúkratrygginga aukist verulega og hafa haldist í öðrum málaflokkum, í öðrum greinum. Tannlækningarnar hafa hins vegar dregist það mikið aftur úr að í dag þarf að mati tryggingayfirlæknis 1.000 millj. kr. til viðbótar.

Varðandi skólatannlækningarnar hins vegar er staðan nákvæmlega sú sama. Hver tannlæknastóll kostar 20 millj. kr. að því er upplýst var í hv. félagsmálanefnd. Í Reykjavíkurborg eru 40 grunnskólar. Ætli þeir séu ekki jafnmargir út um land? Það sést því strax, hæstv. forseti, að það er gríðarlega dýrt og mikið verk fram undan til að vinna upp þessa áratugavanrækslu. Það verður auðvitað ekki gert í einu skrefi með því að byggja upp skólatannlækningar að nýju inni í skólunum.

Ég vil hins vegar ítreka afstöðu mína í þeim efnum að ég skil það svo sem segir í nefndarálitinu, að tekið verði til sérstakrar skoðunar skipulagt eftirlit tannheilsu í tengslum við skólana, að þar sé verið að ræða um hvernig ná megi til þeirra u.þ.b. 5.000 barna sem aldrei koma til tannlæknis. Það er auðvitað hægt í gegnum skólana og það er hægt með öðru móti en því að hafa þar skipulegar skólatannlækningar, sem eins og ég sagði mundi kosta bara í Reykjavíkurborg einni 800 millj. að koma af stað. Það er hægt að gera með því að tannfræðingar og jafnvel tannlæknar fari inn í skólana til eftirlits og vísi börnum til sérfræðinga. Mér hugnast það betur en að tannlæknar eða tannlæknastofur fái eins konar aðgang eða fái að auglýsa sig inni í skólunum. Ég lít svo á þetta nefndarálit að þar sé verið að fjalla um skipulegt eftirlit með tannheilsu.

Ég fagna því sérstaklega að formaður nefndarinnar hefur tekið hér af allan vafa um hvað þetta þýðir með árangurstenginguna og tek undir með hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni að það skiptir miklu máli að tekinn sé af allur vafi um að ekki standi til að fara að greina börn með uppmælingu.