134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[17:50]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Allsherjarnefnd hefur fjallað um málið sem hér er til umræðu og lagt fram nefndarálit meiri hluta og minni hluta. Nefndin fékk á fund sinn allnokkurn hóp gesta þar sem farið var yfir málið og er meiri hluti allsherjarnefndar þeirrar skoðunar að rétt sé að samþykkja frumvarpið eins og það liggur fyrir en þó með nokkurri breytingu á 3. gr., sem ég mun koma nánar að á eftir.

Sé efni frumvarpsins dregið saman felur það í fyrsta lagi í sér breytingar á heitum ráðuneyta í samræmi við stefnumörkun nýrrar ríkisstjórnar. Í því felst að heiti félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis verður breytt þannig að tryggingamálahlutinn færist frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis og landbúnaðarráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti verða einnig sameinuð.

Í öðru lagi er lagt til að heimilt sé með forsetaúrskurði að sameina ráðuneyti, í þriðja lagi að heimilt verði að bjóða starfsmönnum Stjórnarráðsins störf innan þess án þess að starfið sé auglýst opinberlega og í fjórða lagi eru lögð til ákvæði til að tryggja réttindi starfsmanna vegna tilfærslu verkefna á milli ráðuneyta.

Meiri hluti nefndarinnar styður þær skipulagsbreytingar sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins um breytingar á ráðuneytum og telur að þær séu til bóta. Í f-lið 1. gr. frumvarpsins segir að forseti Íslands geti með úrskurði sameinað ráðuneyti. Með þeirri breytingu er gert kleift að fækka ráðuneytum án þess að lagabreytingu þurfi til. Heimildin er þó háð þeirri takmörkun að áfram verður óheimilt að fjölga ráðuneytum án lagaheimildar. Í nefndarálitinu vísum við til þess að í nágrannalöndunum er fyrirkomulag með mismunandi hætti og sums staðar tíðkast að skipulag og verkaskipting ráðuneyta sé alfarið á hendi framkvæmdarvaldsins. Með þeirri breytingu sem um ræðir í frumvarpinu er ekki gengið svo langt en svigrúm framkvæmdarvaldsins þó aukið að þessu leyti.

Þá er með frumvarpinu áformað að breyta Hagstofunni í sjálfstæða ríkisstofnun. Enginn ágreiningur er um þá breytingu enda hefur Hagstofan ekki lengur verkefni sem telja má að eigi að heyra undir ráðuneyti, hvorki stjórnvaldsákvarðanir, sem hún þó gerði á árum áður, né pólitíska stefnumörkun. Segja má að stjórnvaldsákvarðanir og pólitísk stefnumörkun séu lykilatriði í verksviði ráðuneyta. En þessi breyting er óumdeild og felur aðeins í sér að regluverki Hagstofunnar verði breytt til samræmis við veruleikann.

Mesta umræðu í nefndinni fékk 3. gr. frumvarpsins er fjallar um heimild til að bjóða starfsmönnum Stjórnarráðsins laust starf innan þess án þess að starfið sé sérstaklega auglýst samkvæmt almennum reglum. Með þeirri breytingu er verið að auka sveigjanleika í rekstri og stjórnun hjá þessum hluta ríkisins, stuðlað að auknum hreyfanleika starfsmanna og þar með möguleikum þeirra til að þróast í starfi. Þetta kemur til viðbótar öðrum ráðstöfunum í þessa veru eins og vistaskiptum milli ráðuneyta sem hafa staðið til boða í nokkur ár. Jafnframt er rétt að vekja athygli á að samkvæmt gildandi lögum er allmikið svigrúm til að færa starfsmenn milli starfa innan einstakra ráðuneyta, meðal annars með því að ráða sérfræðinga í stöður deildarstjóra, án þess að stöðurnar séu sérstaklega auglýstar. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpinu er með breytingunni sem hér er lögð til verið að útvíkka þetta svigrúm þannig að það nái til alls Stjórnarráðsins, en það hefur til þessa verið fyrir hendi innan ráðuneyta. Því er um að ræða ákveðið skref, ekki stórt en ákveðið þó, í þá átt að gera Stjórnarráðið að einum vinnustað.

Meiri hlutinn leggur til þá breytingu á frumvarpinu að við 3. gr. til að undirstrika það sem kom fram í greinargerð með frumvarpinu, þ.e. að forsætisráðherra skuli setja reglur sem mæli fyrir um tilhögun auglýsinga innan Stjórnarráðsins um laus störf og önnur atriði er varða framkvæmd þessa ákvæðis. Ráðningar verða því ekki í neinu tómarúmi og með því verður tryggt að um notkun framangreindrar heimildar gildi ákveðnar reglur, til dæmis að því er varðar form tilkynninga innan Stjórnarráðsins um laus störf og mat á umsækjendum. Hér er um að ræða heimild og geta því stjórnendur kosið að auglýsa laus störf strax með almennri auglýsingu, t.d. ef talin er þörf á umsækjendum með reynslu utan Stjórnarráðsins. Með þessu er í sjálfu sér ekki dregið úr möguleikum almennings til að fá störf hjá Stjórnarráðinu, því að jafnaði ætti tilflutningur starfsmanns innan Stjórnarráðsins að leiða til þess að eldri staða hans verði laus til umsóknar. Á endanum má ætla að fjöldi þeirra starfa sem auglýst eru opinberlega verði sá sami.

Vegna umræðu sem átti sér stað í nefndinni áréttar meiri hlutinn jafnframt að ákvæði stjórnsýslulaga gilda um allar stjórnvaldsákvarðanir, þar á meðal um ráðningu í störf hjá Stjórnarráðinu.

Í 4. gr., sem var heldur ekki umdeild, er sérstaklega fjallað um réttindi þeirra starfsmanna sem flytjast vegna tilfærslu verkefna milli ráðuneyta sem boðuð hefur verið og að hluta til felst í ákvæðum 1. gr. um breytt heiti og skipulag ráðuneyta. Meiri hlutinn telur að ásamt ákvæðum annarra laga tryggi greinin að starfsmenn njóti sömu réttinda og verið hefur samkvæmt gildandi rétti.

Á þessum grundvelli leggur meiri hluti allsherjarnefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég gat um og fyrir liggur á þskj. 25, en þar segir:

„3. gr. orðist svo:

Við 3. mgr. 11. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sama á við ef starfsmanni, sem ráðinn er ótímabundið, sbr. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er boðið annað starf innan Stjórnarráðsins. Í reglum, sem forsætisráðherra setur, skal mæla fyrir um tilhögun auglýsinga innan Stjórnarráðsins um laus störf og önnur atriði er varða framkvæmd þessa ákvæðis.“

Undir nefndarálitið og breytingartillöguna rita auk mín: hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Ellert B. Schram, Ólöf Norðdal og Karl V. Matthíasson.