134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[18:22]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Atli Gíslason kom víða við í ræðu sinni og verð ég að sjá hvort mér vinnst tími til að svara því öllu í stuttu andsvari en ella mun ég koma aftur á mælendaskrá og fara betur yfir ýmsa þætti sem þar komu fram.

Í fyrsta lagi vil ég geta þess að athugasemdir um að eggið sé að koma á undan hænunni varðandi það að marka þennan ramma um ráðuneytabreytingarnar, að það sé óeðlilegt, þá hafna ég því. Ég tel eðlilegt að fyrst sé meginstefna mótuð og lagabreytingar gerðar varðandi ráðuneytin sem marka þennan ytri ramma og tel ekki óeðlilegt að síðan verði fyllt inn í þann ramma með nánari útfærslu sem varða einstakar stofnanir og einstök verkefni.

Yfirlýsingar liggja fyrir um að það verði gert á haustþingi, þ.e. áður en þessar breytingar eiga að taka gildi, sem eru um næstu áramót. Ég hafna því að það sé eitthvað óeðlilegt við þessa röð mála.

Varðandi 3. gr. sérstaklega þá held ég að rétt sé að átta sig á því hvaða breyting er nákvæmlega hér á ferðinni. Það sem um er að ræða er að í staðinn fyrir að það verði ótvírætt í öllum tilvikum skylt að auglýsa störf innan Stjórnarráðsins með opinberri auglýsingu er gert ráð fyrir að til viðbótar þeirri leið verði hægt að auglýsa störf innan Stjórnarráðsins, gefa starfsmönnum Stjórnarráðsins sem áhuga hafa tækifæri til þess að sækja um. Það hefur verið rökstutt með því að það sé gert til þess að auðvelda sveigjanleika og svigrúm. En það er alls ekki ætlunin og er erfitt að finna þeim orðum hv. þm. Atla Gíslasonar stað að með því sé með einhverjum hætti verið að ganga gegn réttindum þessara starfsmanna. Ég bið hv. þingmann að útskýra hvað hann á við með því.