134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[18:24]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fullyrði það, ég hef ekki tíma til að rökstyðja það nánar, að hér kemur eggið á undan hænunni. Vegna valdaskipta og uppskipta á ráðherrastólum er lítið ráðuneyti gert að tveimur örráðuneytum. Síðan á að færa á milli eftir valdaskiptingunni en ekki eftir því að gera Stjórnarráðið skilvirkt. Það er alveg fullkomlega ljóst að það liggur ekkert fyrir hvernig á að taka á þeim vandamálum sem blasa við flutningi verkefna Tryggingastofnunar. Þau eru vandmeðfarin. Að flytja Byggðastofnun frá félagsmálaráðuneytinu er afar vandmeðfarið. Af hverju á að taka byggðamálin út úr félagsmálaráðuneytinu og flytja þau eitthvað í burtu? Engin rök eru fyrir því. Það veit heldur enginn í ráðuneytinu hvað á að flytja og hvað þá af hverju á að flytja.

Varðandi 3. gr. þá var komið af stað samráð og reglur á milli ráðuneytanna og starfsmanna sem viðurkenndu þessa flutningsþörf. Starfsmenn segja það. Fulltrúar BHM og BSRB sem komu fyrir nefndina viðurkenndu það. En þeir sögðu skýrt og skorinort að gallarnir við að lögbinda þetta væru miklum mun meiri en kostirnir. Þeir viðurkenndu að kostir væru í þessu dæmi og ég skil sjónarmiðin sem hv. þm. Birgir Ármannsson fer með. En gallarnir eru miklum mun meiri. Ég hefði haldið að góður stjórnandi í góðu fyrirtæki, stóru fyrirtæki eins og Stjórnarráðið er, með yfirráð yfir að mig minnir 500 starfsmönnum, hefði leitað samráðs og mótað reglurnar og mótað þær innan dyra áður en dembt var á þá ofan frá einhliða reglum að hætti hæstv. forsætisráðherra, einhliða. Það skapar ólgu og það skapar vondan vinnuanda.