134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[18:29]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Ég ítreka, frú forseti, að það blasti við að hægt var að gera þetta öðruvísi og finna sáttaleiðir. Fyrst við starfsmenn og einnig var hægt að sætta málið innan allsherjarnefndar. Hægt var að bíða með þetta mál fram á haustþing og leysa það fagmannlega í stað þess að taka hin alvöldu fyrirmæli ofan frá og setja þau inn án tengsla við það sem um ræðir, þ.e. breytingu á nöfnum ráðuneyta.

Þær reglur sem hv. þm. Birgir Ármannsson vísar til gefa hæstv. forsætisráðherra algerlega lausan tauminn. Ég gagnrýndi það í ræðu minni að nefndin skyldi ekki verða við beiðni minni hlutans um að kalla forsætisráðherra á fund nefndarinnar til að skýra inntak þessara væntanlegu reglna. Það var ekki gert. Ég spyr, af hverju ekki?

Það er svo að hæstv. forsætisráðherra getur að eigin vild haft reglurnar eins og honum sýnist. Það er ekki flóknara en það. Það opnar fyrir geðþótta án þess ég ætli hæstv. forsætisráðherra það.