134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[18:46]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það eitt í ræðu hv. 9. þm. Reykv. s. að við erum í sögufrægu húsi og það er vel. Hitt er annað mál að sögufrægum húsum má breyta og hefur verið gert. Það eina sem ég var að vekja athygli á var það að við störfum undir gunnfána dansks arfakonungs sem er óeðlilegt fyrir frjálsa og fullvalda þjóð, að Alþingi lýðveldisins skuli ekki standa og starfa undir gunnfána lýðveldisins. Það var það eina og kemur í sjálfu sér sögufrægum hlutum ekkert við. Þetta er bara spurningin um hvaða markmið og hvaða einkennistákn við setjum okkur. Í gegnum aldirnar börðust menn iðulega um það, voru í heraldískum vopnaburði, skjaldarmerkjafræði, þannig að það skiptir að sjálfsögðu máli en þetta er aukaatriði.

Hv. 9. þm. Reykv. s. vakti athygli á að það væri ekki óþekkt að Alþingi framselji vald sitt. Það er alveg hárrétt, enda hefur það iðulega verið rekið til baka af sjálfum Hæstarétti vegna þess að framsal valdsins hefur verið umfram öll þau eðlilegu mörk sem dómstólar hafa talið að verið væri að gera. Ég tel að það sé spurning um virðingu Alþingis, það sé spurningin um það að Alþingi starfi með þeim hætti að það taki það tillit til sjálfs sín að vera ekki með óeðlilegt framsal á valdi sínu heldur standi vel að málum og setji þau lög sem Alþingi er ætlað að setja. Það finnst mér höfuðatriði.