134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[18:50]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vill nú svo til að ég er alveg sammála hv. 9. þm. Reykv. s. um að ég hef í sjálfu sér ekki áhyggjur af því að Hæstiréttur muni ógilda þá viðbót sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur til þó að um framsal valds sé að ræða, ég tel ég að hún sé ekki með þeim hætti að það muni valda ógildingu. Ég vakti einfaldlega athygli á þessu og þetta var spurningin um það hvað og hvernig við viljum haga störfum okkar sem þingmenn, hvaða metnað við höfum fyrir hönd lagasetningarvaldsins gagnvart stjórnvöldum. Það er fyrst og fremst spurningin um það sem um er að ræða og það var þess vegna sem ég vakti athygli á þessum hlut vegna þess að það er engin knýjandi nauðsyn á því að samþykkja þetta lagaákvæði, að samþykkja 3. gr. núna. Þess vegna var möguleiki á því að kalla eftir þeim reglum sem forsætisráðherra hygðist setja, vita hvaða kjöt var á þeim beinum sem þarna er verið að leggja til. Í öðru lagi var hægt að kalla menn fyrir og athuga hvaða sjónarmið væru uppi að öðru leyti. En það var ekki orðið við því. Það var ákveðið að hafa þetta þannig að í raun er verið að setja eyðuframsal til forsætisráðherra um það með hvaða hætti og hvernig hann ætlar að fara með þetta vald sitt.

Að sjálfsögðu veit ég og geri mér grein fyrir því að það er rétt sem hv. 9. þm. Reykv. s. segir að auðvitað gilda ákveðnar reglur varðandi mannaráðningar. Ég veit að stjórnlyndur flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn fylgir ekki stjórnleysi í störfum sínum, hann miðar við ákveðinn framgangsmáta en hér er hann að leggja til að það sé gert með þeim hætti að girt sé fyrir gagnsæi varðandi mannaráðningar í Stjórnarráðinu.