134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[18:53]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég er aðili að minnihlutaálitinu og vil gera í stuttu máli grein fyrir sjónarmiðum okkar framsóknarmanna gagnvart því.

Frumvarpið sem hér er um að ræða er í nokkrum greinum og þær snúa að breytingum á Stjórnarráði Íslands og allar þessar greinar tengjast nema ein og það er 3. gr. sem á ekkert erindi inn í þetta frumvarp. Hún tengist því ekki á nokkurn hátt. Hún dettur, má segja, af himni ofan inn í þetta frumvarp og hefur ekkert með hinar greinarnar að gera. Það vekur furðu að hún skuli vera borin fram hér á stuttu sumarþingi, sérstaklega í því ljósi að aðalumræðan um þetta frumvarp er um þessa téðu 3. gr. sem tengist ekkert málinu í heild sinni.

Þetta vekur líka furðu vegna þess að 3. gr. er sú grein sem umsagnaraðilar okkar hafa gert mest veður út af og bæði stéttarfélögin sem hafa komið á fund okkar einu sinni og gefið skriflegar umsagnir, bæði BSRB og BHM, eru alfarið á móti þessari grein. Virðulegur forseti. Það hlýtur að vekja mikla furðu að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin skuli velja að ganga svona hart fram gegn stéttarfélögunum á þessu stutta sumarþingi og greinilega án samráðs við þau líka. Ekki stendur til að bakka eitthvað með þetta þó að stéttarfélögin lýsi yfir mikilli óánægju og lýsi sig algerlega andsnúin þessari 3. gr.

Meiri hlutinn hefur lagt fram breytingartillögu við 3. gr. sem að mínu mati skiptir engu máli og ég mun færa nánari rök fyrir því á eftir. Til að fara skipulega yfir frumvarpið vil ég fyrst gera að umtalsefni 1. gr. en þar er verið að fjalla um breytingar á nöfnum ráðuneyta. Við teljum ekki ástæðu til í Framsóknarflokknum að taka beina afstöðu til þessara nafnabreytinga vegna þess að það er óljóst á þessu stigi hvernig verkaskiptingin verður. Við höfum heyrt umræður um þessa verkaskiptingu. Forustumenn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar hafa gefið í skyn að ákveðin verkefni flytjist á milli. Annað er greinilega enn þá umdeilt á milli flokkanna og eitthvað óútkljáð sem kannski eru ekki deilur um. Verkaskiptingin er óljós og við tökum því ekki afstöðu til nafnabreytinganna.

Það var mjög athyglisvert að hlusta á gestina sem komu til að ræða verkaskiptinguna við okkur. Ég vil þar sérstaklega nefna eitt dæmi vegna þess að það skiptir máli varðandi nafnabreytingar á ráðuneytum. Verði þetta frumvarp að lögum stendur til í framtíðinni að félagsmálaráðuneytið heiti félags- og tryggingamálaráðuneyti. Af hverju ætti það að heita það? Jú, væntanlega af því að tryggingamálin færast. En hvað færist? Það er mjög óljóst. Hæstv. utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur talað um það opinberlega að þarna sé verið að tala um lífeyristryggingarnar. Aðrir hafa sagt að það sé eitthvað meira sem eigi að flytjast en það er óljóst. Í tali fulltrúa Tryggingastofnunar sem komu til allsherjarnefndar kom fram að ef einungis lífeyristryggingarnar færast þá sé það minni hluti almannatrygginganna og því er það ekki réttmæt breyting að kalla félagsmálaráðuneytið félags- og tryggingamálaráðuneyti. Ef það verður bara lífeyrishlutinn sem færist væri nær að kalla heilbrigðisráðuneytið áfram heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og félagsmálaráðuneytið áfram félagsmálaráðuneyti.

Það kom fram í tali fulltrúa Tryggingastofnunar að þau telja að það eigi að fara meira en lífeyristryggingarnar og það getur vel verið að það verði niðurstaðan, við vitum það ekki. Þau færðu ágætisrök fyrir því að hjálpartækjabankinn gæti hugsanlega færst yfir til félagsmálaráðuneytisins og jafnvel líka hluti af sjúkratryggingasviðinu, sjúkradagpeningar. Þeir væru að einhverju leyti félagslegt fyrirbrigði þannig að eðlilegt væri að flytja meira en bara lífeyristryggingarnar. Þetta er ekki ljóst á þessari stundu þannig að það er svolítið erfitt fyrir okkur í þinginu að taka afstöðu til þessara nafnabreytinga af því að við vitum ekki alveg hvað fer á milli. En það getur vel verið að þetta hitti akkúrat rétt á ef meiri hluti tryggingamálanna fer yfir í félagsmálaráðuneytið.

Það er líka athyglisvert í þessu sambandi að draga það fram hér, af því að talsverð umræða varð um það í tvíburafrumvarpinu, þ.e. frumvarpinu um breytingar á þingsköpunum, af hverju ekki sé sett á stofn atvinnuvegaráðuneyti. Þrátt fyrir að bæði Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn hafi ályktað sérstaklega um það á landsfundum sínum að slíkt bæri að gera, þá er það ekki gert. Það er einungis verið að setja saman landbúnaðarráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti í nýtt sjávarútvegs- og landbúnaðaráðuneyti og á sama tíma hafa stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, kosið að deila viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu á tvo ráðherra, annars vegar á iðnaðarráðherra og hins vegar á viðskiptaráðherra. Það kom fram í umræðum í þinginu um daginn að það væri ekki gott að tala um nýtt atvinnuvegaráðuneyti núna því að það yrði bara risaráðuneyti. Þetta kom fram í röksemdafærslu hæstv. forsætisráðherra. Það er mjög athyglisvert að skoða það nánar hvort einhver innstæða sé fyrir þessari nafngift að þetta yrði risaráðuneyti af því að svo er alls ekki. Ef við sameinum fjögur ráðuneyti í eitt atvinnuvegaráðuneyti, þ.e. iðnaðarráðuneyti, viðskiptaráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti, hvað yrðu mörg stöðugildi í þessu svokallaða risaráðuneyti, sem er rangnefni? Það yrðu 66,3 stöðugildi. Þetta yrði alls ekki stærsta ráðuneytið, langt langt frá því.

Stærsta ráðuneytið í dag er utanríkisráðuneytið, með 98,5 stöðugildi. Það ber reyndar höfuð og herðar yfir öll önnur ráðuneyti í mannfjölda en yfir hundrað manns vinna í utanríkisráðuneytinu, 103 nánar tilgreint.

Þar á eftir kemur Hagstofan með 76,1 stöðugildi. Reyndar stendur til að gera Hagstofuna að stofnun en í dag er hún sem sagt næststærsta ráðuneytið ef svo má segja.

Þriðja stærsta ráðuneytið er menntamálaráðuneytið með 71 stöðugildi og í fjórða sæti kæmi þá hið svokallaða atvinnuvegaráðuneyti. Eins og ráðuneytaskiptingin er í dag þá eru þrjú ráðuneyti stærri, sem eru þá risa-risaráðuneyti væntanlega miðað við nafngiftina sem hæstv. forsætisráðherra gaf nýju hugsanlegu atvinnuvegaráðuneyti, sem við sjáum hugsanlega í framtíðinni með 66,3 stöðugildi. Það eru því engin rök fyrir því að óttast að þetta ráðuneyti, ef það verður að veruleika einhvern tímann, verði eitthvað stærra en hin. Önnur ráðuneyti eru til sem eru talsvert mikið stærri.

Það er líka mjög athyglisvert þegar maður skoðar stærð ráðuneyta, að skoða iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, þ.e. iðnaðarráðuneytið annars vegar og viðskiptaráðuneytið hins vegar, sem stjórnarflokkarnir ákváðu að skipta upp, en einn ráðherra hefur borið hitann og þungann af þessum ráðuneytum upp á síðkastið. En í iðnaðarráðuneytinu og í viðskiptaráðuneytinu eru fá stöðugildi.

Ef við tökum viðskiptaráðuneytið fyrst, sem stjórnarflokkarnir sáu ástæðu til að fela einum ráðherra, sem var að sjálfsögðu gert til að bjarga stólum undir samfylkingarþingmenn, gera þá að ráðherrum. Það sjá það allir þegar þeir rýna í þessar tölur. Í viðskiptaráðuneytinu eru heil 15,2 stöðugildi. Það eru 16 starfsmenn sem sinna þessum 15,2 stöðugildum hjá hæstv. viðskiptaráðherra Björgvini Sigurðssyni. Þetta er ekki stórt. Þetta er örráðuneyti, algjört örráðuneyti.

En hvað skyldi þá vera í iðnaðarráðuneytinu, hjá hæstv. iðnaðarráðherra Össuri Skarphéðinssyni? Þar eru heil 13,1 stöðugildi og 14 manns sem sinna því 13,1 stöðugildi. Það er hið allra minnsta ráðuneyti sem um getur í landinu í dag. Þessi tvö ráðuneyti saman eru með 28,3 stöðugildi, sem er bara frekar lítið ráðuneyti ef þau væru saman. Það er mjög ankannalegt að horfa upp á núverandi ríkisstjórn fela tveimur ráðherrum að fara með svo lítil ráðuneyti. Það hefði nú verið nær að sameina þessi ráðuneyti við landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti, eins og flokkarnir höfðu ályktað um. Þá væru 66,3 stöðugildi í svokölluðu atvinnuvegaráðuneyti.

Þetta er mjög sérstök staða, virðulegi forseti. En þó skal til þess líta að flokkarnir, kannski í framtíðinni, á næstu missirum, ég ætla ekkert að útiloka það, kunna að taka upp á að sameina þessi væntanlega þrjú ráðuneyti, af því að þá verður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti eitt, í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Það er verið að opna á það í 1. gr. f-lið, að það megi sameina ráðuneyti án þess að það fari aftur fyrir þingið. En eins og fram kemur í nefndaráliti minni hlutans varðandi f-lið þá verður forseta Íslands heimilt að úrskurða um sameiningu ráðuneyta. Slíkt fyrirkomulag tíðkast víða annars staðar og er markmið þess að gera framkvæmdarvaldinu auðveldara að fækka ráðuneytum.

Framsóknarflokkurinn lítur jákvætt á þessa breytingu. Við teljum eðlilegt að framkvæmdarvaldið hafi þetta svigrúm til að sameina ráðuneyti og þar með fækka þeim. Hér er ekki verið að tala um að hægt sé að fjölga þeim, bara sameina til að fækka. Við teljum þó að hafa beri í huga það væri ekki æskilegt að fækka ráðuneytum svo mikið að þau yrðu bara eitt eða tvö. En það er ekkert sem bendir til þess að það sé í bígerð. Við gerum því enga breytingartillögu varðandi f-liðinn sem gengi þá út á að tryggja lágmarksfjölda ráðuneyta. Við gerum það ekki að tillögu. Við teljum ekkert í farvatninu sem bendi til þess að menn ætli að fækka ráðuneytum í stórum stíl. Ekki er sá svipurinn á nýju ríkisstjórninni að það sé í farvatninu, miðað við að fela tveimur ráðherrum að fara með annars vegar iðnaðarráðuneyti og hins vegar viðskiptaráðuneyti, þessi örráðuneyti.

Varðandi nafnabreytinguna og væntanlega færslu lífeyristrygginga til félagsmálaráðuneytisins þá var líka mjög athyglisvert, virðulegi forseti, að hlusta á fulltrúa Landssambands eldri borgara sem kom til nefndarinnar. Þau styðja það að lífeyristryggingarnar fari til félagsmálaráðuneytisins og það er vegna þess, og þau færðu ágæt rök fyrir því, að í félagsmálaráðuneytinu eru sveitarstjórnarmálin. Þau telja að sveitarstjórnirnar hafi ríkum skyldum að gegna varðandi málefni aldraðra og vilja reyndar að málefni aldraðra fari alfarið yfir til sveitarfélaganna í framtíðinni, sem reyndar Framsóknarflokkurinn og fleiri flokkar styðja. Sett var í gang vinna sem lýtur að því að greiða fyrir því máli. Það voru rökin fyrir því að lífeyristryggingarnar ættu að færast í félagsmálaráðuneytið, af því að þar eru sveitarstjórnarmálin.

Maður veltir því fyrir sér, virðulegi forseti, að samkvæmt því sem fram hefur komið í tali bæði forustu Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, stendur til að færa málefni sveitarfélaganna til samgönguráðuneytisins. Maður veltir fyrir sér hvort lífeyristryggingarnar eigi að fara í samgönguráðuneytið af því að málefni þeirra fari þangað. Annars næst ekki samþættingin sem Landssamband eldri borgara dró svo sterkt fram í sínu máli. Það var mjög fróðlegt að hlusta á rök þeirra af því þau samtvinnuðu algerlega lífeyristryggingarnar við ráðuneyti þar sem málefni sveitarfélaganna eru vistuð.

Virðulegi forseti. Í seinni hluta ræðu minnar vil ég gera að umtalsefni 3. gr., grein sem datt greinilega af himnum ofan í þetta frumvarp. Sumir hafa kosið að kalla hana laumufarþegann í þessu frumvarpi. Þessi grein er mjög sérstök af því hér er um að ræða alger nýmæli. Við erum að breyta í grundvallaratriðum þeim reglum sem hafa gilt um auglýsingar gagnvart störfum í Stjórnarráðinu. Nú gildir sú regla almennt — hún gildir ekki um embættismenn, ekki um ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra, heldur almennt um starfsmenn í Stjórnarráðinu — að störfin eru auglýst. Þó eru ákveðnar undantekningar og menn geta ráðið sérfræðinga í deildarstjórastöður án auglýsingar. En almenna reglan er sú að það á að auglýsa stöðurnar.

Af hverju í ósköpunum ákváðu menn það á sínum tíma? Þetta var mikið hagsmunamál launþega og stéttarfélaga. Það var að sjálfsögðu gert til þess að hafa gagnsæi þegar verið væri að ráða inn í störf, að allir hefðu jafnan aðgang, gætu sótt um og svo væri farið yfir umsóknirnar á gagnsæjan hátt og hinn hæfasti valinn. Auðvitað voru þetta grundvallarsjónarmiðin þegar auglýsingaskyldan var sett á. Nú á að falla frá henni. Nú má auglýsa, þeir sem ráða í Stjórnarráðinu, ef menn vilja. Ef þeir hafa áhuga á því. Þeir munu geta sleppt því en geta ekki sleppt því í dag. Meginreglan er sú að það á að auglýsa.

Færð hafa verið rök fyrir því að við þessa breytingu séu kostir. Meiri hlutinn hefur gert það og það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Kostirnir eru að þetta eykur sveigjanleika innan Stjórnarráðsins. Ef einhver sem er í einhverju starfi í Stjórnarráðinu vill láta færa sig, vill færa sig af eigin hvötum eða einhverjum öðrum, þá er hægt að gera það án þess að auglýsa það fyrir hinn almenna markað. Þá er bara hægt að klára það mál innan Stjórnarráðsins. Jú, þetta eru ákveðin rök.

En hér er líka búið að færa rök fyrir göllunum. Það gerði hv. þm. Atli Gíslason, framsögumaður minni hlutans með nefndarálitinu. Það er alveg ljóst, að þau rök eru mun veigameiri. Þau vega mun þyngra en hin rökin, þ.e. jákvæðu rökin ef við getum kallað þau jákvæð. Ég tel reyndar neikvætt að fella út auglýsingaskylduna. Bæði BSRB og BHM vara eindregið við þessu. Þau ekki bara vara við þessu heldur orða það mjög sterkt, virðulegi forseti. Í umsögn BSRB segir, með leyfi virðulegs forseta:

„BSRB leggst á hinn bóginn alfarið á móti 3. gr. frv. sem felur í sér að afnumin verði sú skylda að auglýsa laus störf innan Stjórnarráðsins. BSRB varar við því að hróflað verði við auglýsingaskyldunni og telur mikilvægt að fólki séu gefin jöfn tækifæri til starfa og starfsframa innan Stjórnarráðsins.“

Sem sagt, BSRB leggst alfarið á móti. Það er mjög sterkt til orða tekið, virðulegi forseti. Og BHM segir í umsögn sinni, með leyfi virðulegs forseta:

„BHM leggst hins vegar á móti því að auglýsingaskylda starfa verði afnumin innan Stjórnarráðs Íslands. Grunnhugsun bak við auglýsingaskyldu opinberra starfa er að tryggja að hæfasti starfsmaður sé ráðinn í hverju tilfelli.“

Þannig að BHM leggst á móti. Ég vil líka vekja athygli þingsins á því að BHM sendi bréf í dag, 12. júní, til að vekja athygli á ályktun sem þau samþykktu á fundi miðstjórnar bandalagsins fyrir sex dögum, 6. júní síðastliðinn. Þar er ítrekað að miðstjórn BHM vari eindregið við að auglýsingaskyldan verði afnumin.

Í þessari ályktun segir, með leyfi forseta:

„Miðstjórn telur ekki að nein rök sé hægt að færa fyrir því að gefa Stjórnarráðinu þessa sérstöðu og telur jafnframt hættu á að þetta verði fyrsta skrefið til að afnema auglýsingaskyldu vegna starfa hjá hinu opinbera almennt. Miðstjórn bendir á að afnám auglýsingaskyldu getur reynst alvarlegt skref aftur á bak í réttindabaráttu opinberra starfsmanna, sérstaklega hvað varðar jafnréttismál. Miðstjórn bendir enn fremur á að þessi ráðstöfun gengur þvert á þá þróun sem stefnt hefur verið að varðandi gegnsæi í stjórnsýslu á Íslandi og lýsir undrun sinni á að reynt skuli að færa klukkuna aftur á bak á þennan hátt.“

Að mati miðstjórnar BHM á Stjórnarráð Íslands að ganga á undan með góðu fordæmi hvað varðar málefni starfsmanna en ekki að fá afslátt af þeim kröfum sem gerðar eru almennt til ríkisstofnana. Þau segja í niðurlaginu að þau vonist til þess að þetta ákvæði verði fellt út úr frumvarpinu enda sé undarlegt til þess að horfa ef ákvæði fyrsta frumvarps ríkisstjórnar, sem í stefnuskrá sinni leggur áherslu á að jafnrétti í reynd verði leiðarljós í allri stefnumótun, verði í raun skref afturábak í jafnréttismálum.

BHM tekur mjög sterkt til orða, virðulegi forseti. Það vekur undrun hvað meiri hlutinn keyrir þetta mál hart fram og ætlar að klára með breytingu sem hefur ekkert að segja. Í breytingartillögu meiri hlutans er bætt við málsliðum og þar segir að setja eigi reglur sem mæli fyrir um tilhögun auglýsinga innan Stjórnarráðsins um laus störf. Það má færa rök fyrir því að þetta sé skárra en ekkert en þetta skiptir eiginlega engu máli. Aðalmálið er: Á að auglýsa störfin á opinberum markaði, þ.e. fyrir alla, eða á að halda þessum auglýsingum eða tilkynningum eða hvernig sem það verður gert, innan Stjórnarráðsins, bara fyrir þá sem eru í Stjórnarráðinu?

Það er það sem meiri hlutinn er að gera hér. Hann heldur sig við meginbreytinguna, að ekki þurfi að auglýsa. En ef það er valið, að auglýsa ekki þá eigi samt að auglýsa innan Stjórnarráðsins. Þannig að þetta skiptir faktískt engu máli, virðulegi forseti.

Framsóknarmenn ræddu þessa breytingu í sínum þingflokki. Það var mjög gaman að fara í gegnum þá umræðu. Þeir sem sitja í þingflokknum hafa talsvert mikla reynslu af vinnu í Stjórnarráðinu. Þeir hafa margir stýrt ráðuneytum um lengri eða skemmri tíma. Þar komu fram þau sjónarmið að ekki væri æskilegt, og reyndar var tekið það sterkt til orða að það væri mjög vont, að afnema auglýsingaskylduna.

Menn sjá fyrir sér að það sé bæði hægt að draga að sér starfsmenn með þessari nýju breytingu, þ.e. með því að ekki þurfi að auglýsa. Þá geta ráðherrar og þeir sem stjórna ráðuneytum farið að draga að sér starfsmenn frá öðrum ráðuneytum. Kannski ekki gegn vilja þeirra — draga hirð að sér, gæti einhver orðað það ef menn vildu orða það frekar opinskátt. Eins gætu þeir ýtt mönnum frá sér og reynt að losna við menn, ef maður gæti orðað það líka mjög opinskátt, yfir í önnur ráðuneyti.

Það kom fram að það væri líka ákveðin vörn í því að auglýsa, fyrir þá sem stýra ráðuneytunum. Að með þeirri skyldu að auglýsa geti allir sótt um, bæði þeir sem eru innan ráðuneytanna en líka þeir sem eru úti á markaðnum sem hafa hæfileika, menntun, starfsreynslu o.s.frv. Það gæti minnkað þrýstinginn á ráðherra og þá sem stýra ráðuneytum að þessi auglýsingaskylda héldist inni. Það var mjög gaman að hlusta á þessi sjónarmið.

En virðulegi forseti. Ég hef í stórum dráttum farið yfir sjónarmið okkar. Við tökum ekki afstöðu til nafnabreytinganna af því við vitum ekki hvernig því reiðir af með verkaskiptinguna. Það er óljóst enn þá.

Við styðjum að Hagstofan verði stofnun. Það hafa ekki verið gerðar athugasemdir við það og miðað við störf hennar er eðlilegt að sú breyting verði á og við styðjum að hægt sé að sameina ráðuneyti án þess að það verði endilega dregið inn í þingið. Við veitum framkvæmdarvaldinu ákveðið frelsi í þeim efnum.

En við getum alls ekki stutt að afnema auglýsingaskylduna. Þá minnkar gagnsæið og við teljum ekki að sérstaða Stjórnarráðsins sé slík. Það er alls ekki íþyngjandi að auglýsa. Ef eitthvað er, þá er það betra, bæði fyrir ráðuneytin sjálf og fyrir þá sem eru úti á markaði og vilja sækja um störfin, hvort sem þeir fá þau eða ekki.