134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[20:57]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ljóst er ef menn skoða málið frá upphafi, framsöguræðu hæstv. forsætisráðherra, greinargerð með frumvarpinu og annað þess háttar, að auðvitað var aldrei ætlunin að búa til eitthvert svigrúm fyrir menn að taka ákvarðanir á ómálefnalegum forsendum eða samkvæmt einhverjum geðþótta í sambandi við umræddar starfsmannaráðningar.

En hafi menn haft slíkar áhyggjur ætti að vera allveruleg trygging að slíkar ákvarðanir verði teknar á grundvelli skýrra reglna sem fram koma frá forsætisráðherra og hafa reglugerðarstöðu. Það þýðir þá að fyrir fram munu liggja fyrir þær leikreglur sem farið verður eftir í þessu sambandi.

Jafnframt liggur líka fyrir að stjórnsýslulög gilda um þetta eins og aðrar stjórnvaldsákvarðanir. Réttur manna til að krefjast upplýsinga, krefjast rökstuðnings og annars þess háttar verður auðvitað áfram til staðar. Annað stóð aldrei til. Ég hefði haldið að þessi breyting mundi undirstrika að hugmyndin er ekki önnur en að málefnaleg sjónarmið komi til.

Hins vegar er önnur spurning sem við höfum einnig talað um í allsherjarnefnd sem snýst um það prinsipp: Á að hafa meira svigrúm innan Stjórnarráðsins en verið hefur þannig að hægt verði að kynna laus störf sérstaklega innan þess ramma án þess að fara með málin í almenna auglýsingu? Vissulega eru skiptar skoðanir um það og eins og fram kom í andsvörum mínum við ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur áðan eru rök með og rök á móti.

Við í meiri hlutanum teljum hins vegar að með þessu sé svigrúmið (Forseti hringir.) aukið innan Stjórnarráðsins, að möguleikar starfsmanna þar til starfsframa verði auknir. Við teljum að það séu jákvæðar breytingar sem vegi þyngra (Forseti hringir.) þegar við vegum og metum þessi mismunandi sjónarmið.