134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[20:59]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það ákvæði sem er almenna reglan í dag um að störf séu auglýst opinberlega og öllum aðgengileg kemur ekki í veg fyrir að fólk færi sig til innan Stjórnarráðsins, kemur ekki í veg fyrir að þeir sem í dag starfa í Stjórnarráðinu sæki um störf sem eru laus í Stjórnarráðinu. Að sjálfsögðu ekki.

En reglan eins og hún er í dag um að öll störf séu auglýst tryggir betur en nokkuð annað að ákvarðanir séu gegnsæjar. Það sé jafnrétti þannig að allir hafi sömu möguleika á að sækja um þau störf sem eru laus til umsóknar hjá Stjórnarráðinu en kemur að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að menn færist úr einu ráðuneyti í annað ef svo ber undir ef fólk sækir um og er metið á jafnréttisgrundvelli jafnhæft eða hæfast af umsækjendum.

Síðan er annað. Ef það er ekki tilgangurinn að auka möguleika ráðherranna til þess að ráða fólk til starfa, ég vil segja án auglýsinga og þá hugsanlega á einhverjum öðrum en málefnalegum forsendum, til hvers er þá verið að setja þetta ákvæði inn í lagafrumvarpið? Mér er það algerlega óskiljanlegt.