134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[21:01]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Þetta hefur verið áhugaverð umræða. Kannski hafa sjónarmið hér ekki komið á óvart, flest þeirra höfðu áður komið fram í allsherjarnefnd eða við 1. umr. málsins en engu að síður held ég að umræðan hafi í heild verið gagnleg. Ég hef reynt að svara athugasemdum sem komið hafa fram af hálfu talsmanna stjórnarandstöðunnar nokkurn veginn jafnóðum en hins vegar vildi ég þegar líður nú að lokum umræðunnar árétta nokkur sjónarmið.

Í fyrsta lagi hefur skotið hér upp umræðu um f-lið 1. gr. varðandi forsetaúrskurð um sameiningu ráðuneyta. Uppi eru mismunandi skólar um það hvort nauðsynlegt sé að binda ákvarðanir um sameiningu ráðuneyta við lagasetningu, þ.e. að lagasetningar sé alltaf þörf ef ákvörðun er tekin um þetta. Ég verð að segja að mér finnst ákvæðið í f-liðnum afar varfærið, það felur ekki í sér mjög róttæka breytingu frá núverandi fyrirkomulagi. Í meginatriðum er skipting ráðuneyta bundin í lög en hins vegar er gefið svigrúm til að ákveða í sameiningu með forsetaúrskurði og ég tel það til bóta. Það getur auðvitað komið til þess að það sé talið skynsamlegt innan ríkisstjórnar að fara þessa leið og þá er fyrirkomulagið auðvitað léttara ef hægt er að gera það með forsetaúrskurði í staðinn fyrir að breyta lögum.

Eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom að væri líka hægt að gera þetta með lagabreytingum en þarna er verið að létta leiðina við sameiningu ráðuneyta frá því sem nú er. Engu að síður verður áfram gerð krafa um lagabreytingu ef ætlunin er að fjölga ráðuneytum sem telja má að sé viðurhlutameiri ákvörðun en að sameina ráðuneyti sem eru fyrir hendi.

Í annan stað vildi ég nefna að í umræðunni hefur nokkuð verið rætt um 3. gr. frumvarpsins sem einhvers konar smyglgóss eða laumufarþega í lagafrumvarpi eins og einn hv. þingmaður kaus að nefna það. Það er alveg rétt, eins og hefur komið fram hér í umræðunni, að 3. gr. er ekki nauðsynleg eða óhjákvæmileg vegna þeirra meginbreytinga sem frumvarpið felur í sér, þ.e. þeirra breytinga á skipan ráðuneyta sem telja má meginefni þessa frumvarps. Það er alveg rétt. 1. og 2. gr. fela í sér efnisbreytingu og 4. gr. felur í sér áskilnað um að réttinda starfsmanna sé gætt vegna þessara tilteknu breytinga á Stjórnarráðinu. 3. gr., eins og ég kom að áðan í andsvörum við ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, hefur hins vegar þau efnislegu tengsl við málið að það er farið að huga að stöðu starfsmanna í tengslum við breytingar sem verða á Stjórnarráðinu. Það er ljóst að þær breytingar sem felast í 1. gr. frumvarpsins sérstaklega munu leiða til nokkurs róts innan Stjórnarráðsins og þess vegna er ekki óeðlilegt að það sé hugað að þeim atriðum sem tekið er á í 3. gr. um leið, þó að það sé alveg rétt að breytingin sem þar er boðuð sé ekki nauðsynleg eða rökbundin afleiðing af þeim breytingum sem felast í 1. gr. Það er samt ekkert óeðlilegt að um leið sé hugað að stöðu starfsmanna Stjórnarráðsins að þessu leyti. Í ljósi þess að það verða allmiklar breytingar innan Stjórnarráðsins í kjölfar þessara lagabreytinga og síðan annarra lagabreytinga sem gera má ráð fyrir að fari fyrir þingið í haust finnst mér ekki óeðlilegt að um leið sé hugað að því hvernig hægt sé að greiða fyrir eða auka svigrúm starfsmanna innan Stjórnarráðsins til að flytja sig milli ráðuneyta. Það er akkúrat inntakið í 3. gr.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson spurði í lok ræðu sinnar áðan hvers vegna farið væri í þennan leiðangur, af hverju við værum að þessu. Það er auðvitað á þeim forsendum að auka svigrúm fyrir starfsmenn innan Stjórnarráðsins til að færa sig á milli ráðuneyta. Eins og hefur verið rakið ítarlega í umræðunum er nokkurt svigrúm innan einstakra ráðuneyta en með þessari breytingu er verið að horfa á málið aðeins heildstæðara, það er verið að horfa á Stjórnarráðið sem heild í þessu sambandi, og eins og ég kom að hér fyrr í umræðunni er ekki óeðlilegt í ljósi þess að þau verkefni sem menn inna af hendi í einstökum ráðuneytum eru að mörgu leyti keimlík. Menn eru að fást við m.a. reglugerðarsetningu, undirbúning lagafrumvarpa, störf sem varða stefnumótun í einstökum málaflokkum þannig að menn eru að vinna að mörgu leyti eftir sömu verkferlum og beita sömu vinnubrögðum þó að málaflokkarnir séu ólíkir. Það er ekki óeðlilegt að horft sé á Stjórnarráðið svolítið heildstætt í þessu sambandi.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir spurði, hygg ég, að því hvort þetta mundi hugsanlega leiða til þess að skoðað yrði með tilflutning frá undirstofnunum til ráðuneyta eða öfugt. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki sambærileg breyting, slík breyting væri miklu viðameiri og róttækari. Ég held að það sé líka svolítið annars eðlis. Þó að menn séu hugsanlega að fást við svipaða eða sömu málaflokka í ráðuneytum annars vegar og undirstofnunum hins vegar eru viðfangsefnin önnur eins og ég rakti, viðfangsefni ráðuneyta eru í eðli sínu svolítið sérstök, sinnar gerðar ef svo má segja. Þó að við gerum þessa breytingu varðandi Stjórnarráðið er í mínum huga allt önnur spurning hvort svipuð regla verði látin gilda milli ráðuneyta og undirstofnana þeirra. Í mínum huga eru rökin fyrir einhverri breytingu í þá átt miklu veikari og ég hef ekki ástæðu til að ætla að neinar hugmyndir um það séu uppi.

Hér hefur verið vikið nokkuð að gagnsæi ákvarðana varðandi mannaráðningar og skyld mál. Ég undirstrika það sem ég hef áður sagt að ég tel að um ákvarðanir af þessu tagi, ráðningu starfsmanna innan Stjórnarráðsins í anda 3. gr., gildi sérstakar reglur sem svari sjónarmiðum manna talsvert í þeim efnum. Það er þá ljóst að menn verða ekki ráðnir í störf á grundvelli þessarar greinar nema fylgt sé málsmeðferðarreglum sem forsætisráðherra setur þar um. Þær reglur verða öllum aðgengilegar. Jafnframt er gert ráð fyrir því að um auglýsingu slíkra starfa innan Stjórnarráðsins verði að ræða þannig að þeir starfsmenn Stjórnarráðsins sem áhuga hafa á viðkomandi störfum og sækja um og fá ekki munu hafa, eins og þeir hefðu samkvæmt núgildandi rétti, möguleika á því að krefjast rökstuðnings og eftir atvikum leita réttar síns vegna ákvarðana ef þeir teldu þær ómálefnalegar eða ólögmætar. Ég held að skýrt ákvæði um að krafist sé reglna á þessu sviði svari mjög mörgum þeim áhyggjum sem komið hafa fram vegna breytingarinnar.

Það hefur nokkuð verið rætt að með þessari breytingu sé með einhverjum hætti gengið gegn jafnréttissjónarmiðum og sumir hv. þingmenn hafa tekið býsna djúpt í árinni að því leyti, talið að þessi breyting gengi gegn sjónarmiðum um að auka beri jafnrétti og jafnræði milli kynja. Ég verð að segja að ég hafna slíkum fullyrðingum alfarið og held að það sé erfitt að rökstyðja slík sjónarmið. Eins og ég hef áður rakið er ljóst að ákvarðanir af þessu tagi verða teknar fyrir opnum tjöldum, það er gert ráð fyrir að ákveðnum málsmeðferðarreglum, ákvæði laga um málsmeðferð í stjórnsýslunni eiga að sjálfsögðu við þannig að slíkar tryggingar verða áfram fyrir hendi. Ég fæ því ekki séð hvernig menn geta fundið það út að með einhverjum hætti sé verið að ganga gegn jafnréttissjónarmiðum eða sjónarmiðum um jafna stöðu karla og kvenna með þessari lagabreytingu.

Ég vek athygli á því að þessi breyting hefur eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst áhrif á stöðu starfsmanna Stjórnarráðsins. Nú hygg ég að það sé almennt — a.m.k. er það þannig í þeim ráðuneytum sem ég þekki til að þar eru kynjahlutföll alls ekki eins ójöfn og víða annars staðar í þjóðfélaginu. Ég hygg að í mörgum ráðuneytum séu konur í meiri hluta starfsmanna þannig að ég sé ekki að hagur þeirra skerðist neitt með þessari breytingu. Mér finnst eiginlega að það sé svona — ja, ég veit það ekki, ég mundi kalla það feilskot í þessari umræðu að taka það sjónarmið inn í vegna þess að eftir sem áður verður möguleiki fyrir starfsmenn að leita réttar síns með þeim hætti sem áður hefur verið, það er ekki verið að taka neinn rétt af mönnum í því sambandi. Eina breytingin er sú að það er verið að greiða leið fyrir starfsmenn til að færa sig til milli starfa milli ráðuneyta innan Stjórnarráðsins og sú leið til þess að þróa sig áfram í starfi og hugsanlega takast á við ný verkefni í öðru ráðuneyti mun standa konum jafnopin og körlum. Ég held að það sjónarmið eigi sér ekki stoð í þessu máli.

Að lokum vildi ég segja þetta: Við höfum rætt lengi um 3. gr. Hún er vissulega til þess fallin að auka svigrúm starfsmanna Stjórnarráðsins að nokkru leyti. Mér finnst hins vegar að í umræðunni hafi málinu verið gefið æðimikið vægi miðað við inntak þess. Þessi breyting leiðir ekki til þess að auglýsingar starfa innan Stjórnarráðsins leggist af, öðru nær, eins og getið er um í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar gerist það auðvitað að ef starfsmaður í einu ráðuneyti flyst í laust starf í öðru ráðuneyti opnast væntanlega í flestum tilvikum gamla starfið hans þannig að þar myndast eitthvert svigrúm sem síðan verður hugsanlega fyllt í með opinberri auglýsingu. Eins er það alveg óljóst hve margir starfsmenn munu nýta sér ákvæði af þessu tagi, það vitum við ekki fyrir fram.

Hér hefur verið vísað nokkuð í verkefni sem hefur verið í gangi innan Stjórnarráðsins um svokölluð vistaskipti ráðuneytisstarfsmanna þar sem þeir geta farið til starfa í öðru ráðuneyti í eitt ár, tímabundið starf í öðru ráðuneyti í eitt ár í senn og haldið gamla starfinu sínu á meðan. Ég hygg að það verkefni hafi reynst þeim ágætlega sem hafa nýtt sér það en ég held að það hafi ekki verið mikið nýtt, mér skildist það á þeim sem um það fjölluðu í allsherjarnefnd. Við vitum ekki hvað þessi breyting kemur til með að leiða til mikilla breytinga en kjarninn er þessi: Það er verið að útvíkka svigrúm sem þegar er fyrir hendi innan einstakra ráðuneyta yfir Stjórnarráðið í heild, það er allt og sumt. Áfram verður sá möguleiki fyrir hendi að auglýsa störf á almennum markaði og ég hygg að sú heimild verði áfram notuð í mörgum tilvikum. Sú mikla umræða sem hefur orðið um þetta og þær miklu áhyggjur sem mér hefur fundist birtast í ræðum hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar út af þessu held ég að séu ekki byggðar á veigamiklu tilefni.

Það er hins vegar mat mitt og meiri hluta allsherjarnefndar að breytingin sem felst í 3. gr. sé, eins og frumvarpið í heild, til bóta og þess vegna styðjum við það og teljum að það verði enn þá betra með þeirri breytingartillögu sem við gerum tillögu um á þingskjali og hefur verið boðuð. Þar með ætti að slá á áhyggjur manna af því að einhver ómálefnaleg eða geðþóttasjónarmið verði uppi við töku ákvarðana á þessum grundvelli. Ég hygg því að málið sé í ágætum farvegi með þessu og vonast til þess að það fái góðar undirtektir hér líka við 3. umr. málsins.