134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

verðbréfaviðskipti.

7. mál
[21:34]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Frú forseti. Undanfarinn áratug hafa gríðarlegar breytingar átt sér stað á íslenskum fjármálamarkaði, breytingar sem hafa m.a. leitt til þess að um þriðjung hagvaxtar undanfarinna ára má rekja til eflingar fjármálafyrirtækjanna.

Starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja hefur ekki einungis vaxið hér heima, heldur einnig erlendis og þess má geta að á síðasta ári kom ríflega helmingur tekna þeirra erlendis frá. Útrás íslenskra fjármálafyrirtækja og starfsemi þeirra hefur styrkt hagkerfi okkar, atvinnulíf og samfélag. Væntingar eru um að íslensk fjármálafyrirtæki haldi áfram á sömu braut. 

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er fjallað um aukið vægi alþjóðlegrar þjónustustarfsemi í umbreytingu íslensks atvinnulífs á undanförnum árum og sérstaklega er getið um fjármálaþjónustu í því samhengi. Í stefnuyfirlýsingunni segir enn fremur orðrétt, með leyfi forseta: „Ríkisstjórnin stefnir að því að tryggja að slík starfsemi geti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sjái sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi. Áhersla verður lögð á að efla Fjármálaeftirlitið til þess að íslenski fjármálamarkaðurinn njóti fyllsta trausts.“

Starfsemi verðbréfamarkaða, kauphalla og fjármálafyrirtækja er í eðli sínu alþjóðleg. Því má telja eðlilegt að á undanförnum árum hefur verið unnið að samræmingu laga og reglna um slíka starfsemi á EES-svæðinu, m.a. með MiFID-tilskipuninni (e. Markets in Financial Instruments Directive) sem ætlað er að tryggja skilvirkni evrópsks fjármálamarkaðar og auka tiltrú fjárfesta á markaðnum. Eins og komið hefur fram er MiFID-tilskipunin hluti af sérstakri aðgerðaáætlun Evrópusambandsins á sviði fjármálamarkaðar sem miðar að því að skapa skilvirkan sameiginlegan og samræmdan innri markað með fjármálaþjónustu. Ætlunin er að ýta undir samkeppni meðal fjármálafyrirtækja sem mun leiða þá til aukinnar skilvirkni í starfsemi þeirra. MiFID-tilskipunin mun fjarlægja hindranir á veitingu fjármálaþjónustu milli aðildarríkja og jafna þar með samkeppnisstöðu fjármálamarkaða. Öflug ákvæði um neytendavernd einkenna tilskipunina, m.a. ákvæði um bestu framkvæmd, upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækja, fjárfestingarráðgjöf og skilvirkt eftirlit.

Með frumvörpunum um verðbréfaviðskipti, kauphallir og um breytingar á lagaákvæðum um fjármálafyrirtæki o.fl. sem nú eru til umfjöllunar eru lögð til ný heildarlög um verðbréfaviðskipti og ný heildarlög um kauphallir. Jafnframt er lögð til breyting á lagaákvæðum um fjármálafyrirtæki. Með þessu er ætlunin, eins og áður hefur komið fram, að innleiða í íslenskan rétt tvær tilskipanir Evrópubandalagsins, annars vegar MiFID-tilskipunina og hins vegar svokallaða gagnsæistilskipun sem ég mun greina nánar frá síðar. MiFID-tilskipunin var birt í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins þann 30. apríl 2004 og kemur í stað ISD-tilskipunarinnar frá 10. maí 1993 um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta.  Þann 29. apríl 2005 var MiFID-tilskipunin tekin upp í EES-samninginn. Hér á landi hefur viðskiptaráðuneytið unnið um nokkurt skeið að undirbúningi innleiðingar á tilskipuninni. Hæstvirtur þáverandi viðskiptaráðherra fól kauphallarnefnd að hafa umsjón með vinnu við MiFID-innleiðinguna hér á landi og skipaði sérstakan vinnuhóp þann 6. október 2004 til að vera nefndinni til aðstoðar. Sömuleiðis skipaði ráðherra vinnuhóp um innleiðingu gagnsæistilskipunar sem fjallar m.a. um samræmingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa. Sá vinnuhópur var settur á laggirnar 23. maí 2006. 

Þegar frumvörpin hafa verið innleidd geta fjármálafyrirtæki með einfaldari hætti en áður veitt þjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli eftirlits í heimalandi. Þessu breytta fyrirkomulagi hefur verið líkt við það að þurfa einungis eitt vegabréf (e. single passport) í fjármálaviðskiptum innan EES-svæðisins og vísar samlíkingin til þeirrar einföldunar sem samræmd löggjöf hefur í för með sér. Með innleiðingu tilskipananna skapast það réttaröryggi sem milliríkjaviðskipti þurfa að byggja á. Ljóst er að innleiðing tilskipananna mun breyta starfsemi evrópskra fjármálafyrirtækja töluvert og því þarf að gera ráð fyrir aðlögunartíma. Upphaflega var gert ráð fyrir að báðar tilskipanirnar yrðu lögfestar í janúar 2007. Þannig gæfist tækifæri og svigrúm til undirbúnings í þeim fyrirtækjum og stofnunum sem löggjöfin nær til. Þetta þótti mikilvægt þar sem umræddar tilskipanir á að innleiða á gjörvöllu EES-svæðinu þann 1. nóvember nk.

Frú forseti. Gert er ráð fyrir í frumvörpunum að innleiða tilskipanirnar hér á landi á tilsettum tíma þann 1. nóvember, eftir um fjóra og hálfan mánuð. Mikilvægt er fyrir hagsmuni okkar allra að íslenskt fjármálakerfi og fjármálamenning njóti trausts alþjóðlega. Það væri ekki traustvekjandi fyrir íslensk fjármálafyrirtæki ef lögin væru samþykkt á síðustu stundu, enn síður væri það traustvekjandi að fresta innleiðingu tilskipananna. Ég met stöðuna þannig að fjármálafyrirtækin gætu orðið fyrir álitshnekki ef tilskipanirnar verða ekki innleiddar hér á tilsettum tíma.

Innleiðing tilskipananna er grundvallarskilyrði fyrir áframhaldandi framrás íslenskra fjármálafyrirtækja. Í frumvörpunum er leitast við að styrkja og efla möguleika fjármálafyrirtækjanna til þess að halda áfram á alþjóðavegferðinni sem einkennt hefur starfsemi þeirra á undanförnum missirum. Andi frumvarpanna er sá að hafa sem mest samræmi við tilskipanirnar og það sem almennt gerist í nágrannaríkjum okkar og draga sem mest úr séríslenskum ákvæðum. Við vinnslu frumvarpanna var haft gott samstarf við stjórnvöld á hinum Norðurlöndunum sem hafa ýmist þegar samþykkt eða eru í þann mund að samþykkja löggjöf um innleiðingu MiFID.

Í viðskiptanefnd hafa frumvörpin til laga um verðbréfaviðskipti, kauphallir og um breytingar á lagaákvæðum um fjármálafyrirtæki o.fl. verið til umfjöllunar. Nefndin hefur skilað áliti og mælt með afgreiðslu frumvarpanna á yfirstandandi sumarþingi. Frumvörpin fengu jákvæða umsögn allra þeirra hagsmunaaðila sem sóttu fundi nefndarinnar. Ekki kom fram efnislegur ágreiningur í máli þeirra og ekki heldur í þeim skriflegu umsögnum um frumvörpin sem nefndinni bárust. Frumvörpin eru viðamikil og fela í sér umtalsverðar breytingar og því er ljóst að löggjöfin mun þróast á næstu árum, bæði hér á landi og í nágrannalöndunum eftir því sem reynsla fæst á innleiðingu laganna. Í þessu samhengi er einnig vert að benda á að hér er um 1. stigs tilskipanir að ræða og því er von á reglum frá Evrópusambandinu í kjölfarið. Nánari útfærslur kalla á náið samstarf hagsmunaaðila til að tryggja að samkeppnishæfni íslenskra fjármálafyrirtækja sé ávallt til fyrirmyndar.

Eins og fram kemur í nefndaráliti er lögð áhersla á mikilvægi þess fyrir samkeppnisstöðu íslenskra fjármálafyrirtækja að starfsskilyrði þeirra séu sambærileg hér á landi og í helstu samkeppnislöndum. Þar kemur einnig fram, með leyfi forseta:

„Nefndin telur því mikilvægt að þegar unnið verði að setningu stjórnvaldsfyrirmæla á grundvelli laganna verði horft til þeirra leiða sem farnar verða í nálægum ríkjum. Með tilliti til þeirra fyrirtækja sem starfa í alþjóðlegu umhverfi er almennt æskilegt að löggjöf á þessu sviði sé hagað með sama hætti hér á landi og í nágrannalöndunum.“

Þessum nýju lögum er ætlað að auka samkeppni fjármálafyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu með því að auðvelda viðskipti milli landa. Þessi aukna samkeppni mun án efa bæði bæta þá þjónustu sem viðskiptavinum stendur til boða og einnig lækka kostnað. Með frumvörpum þessum eru lagðar ríkari kröfur á fjármálafyrirtækin til að gæta að hagsmunum viðskiptavina sinna og veita þeim meiri upplýsingar en áður. Þannig er með frumvörpunum verið að auka neytendavernd. Þá er í frumvörpunum gert ráð fyrir að skotið verði traustari stoðum undir starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Því ber að fagna og það er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar.

Ég vil í lokin lýsa ánægju með vinnubrögðin sem viðhöfð voru í ráðuneytinu við undirbúning frumvarpanna. Svokölluð kauphallarnefnd með víðtæku samráði hagsmunaaðila hóf undirbúning að innleiðingu MiFID-tilskipunarinnar þegar haustið 2004 eins og fram hefur komið. Vinnuhópur ráðuneytisins var nefndinni til aðstoðar frá sama tíma. Því kemur ekki á óvart að þessir sömu hagsmunaaðilar eru sáttir við frumvarpið og mæla samhljóða með því að lögfesta það. Töf á afgreiðslu frumvarpanna er talin geta hindrað starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja á EES-svæðinu og því eru hagsmunir miklir.

Frú forseti. Frumvörpin eru í anda stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, þau eru studd af öllum hagsmunaaðilum og hafa fengið jákvæða umfjöllun. Niðurstaða viðskiptanefndar er í samræmi við þetta. Ég styð því eindregið að frumvörpin verði að lögum.