134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

vatnalög – hækkun launa seðlabankastjóra.

[10:35]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Um þetta mál hefur ekkert verið sérstaklega samið milli stjórnarflokkanna. Vatnalögin taka gildi 1. nóvember nk. nema aðrar ráðstafanir verði gerðar eins og blasir við. Núverandi stjórnarflokkar höfðu mismunandi afstöðu til þessa máls. Málaflokkurinn er á forræði núverandi iðnaðarráðherra. Ég geri ráð fyrir að hann muni fara yfir málið og meta hvort ástæða sé til að leggja fram einhverjar tillögur um breytingar á þeim lögum sem Alþingi samþykkti. Í millitíðinni munu stjórnarflokkarnir fara nánar yfir hvort ástæða sé til breytinga.

Þannig stendur þetta mál en um það er ekki fjallað með neinum hætti í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þannig að að óbreyttu taka þessi lög gildi, eins og þingmaðurinn sagði, 1. nóvember nk. en stjórnarflokkarnir munu vafalaust ráða ráðum sínum um þetta mál fyrir þann tíma.