134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

vatnalög – hækkun launa seðlabankastjóra.

[10:42]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að það var undarlegt að hlýða á þingmenn Samfylkingarinnar í gær hneykslast á launahækkun til seðlabankastjóra sem bankaráð Seðlabankans ákveður og ber ábyrgð á, en að þeirri ákvörðun stóðu tveir fulltrúar Samfylkingarinnar í bankaráði Seðlabankans. Það er svo sem þeirra mál í Samfylkingunni hvernig þeir greiða úr þessu en athyglisvert var þetta engu að síður.

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir skýr svör hvað varðar vatnalögin. Þau eru alveg skýr. Það var ekkert um þetta samið milli stjórnarflokkanna og vatnalögin taka gildi að óbreyttu 1. nóvember nk. nema annað verði ákveðið. Þá liggur það fyrir. Þá er hér á ferðinni enn eitt málið þar sem Samfylkingin virðist engu hafa náð fram í samræmi við áherslur sínar á fyrra kjörtímabili og það í einu af heitasta og harðasta deilumáli þess kjörtímabils sem, ef ég man rétt, var rætt lengur en öll önnur mál til samans nema ef vera skyldi Ríkisútvarpið. Kannski hefur Samfylkingin alls ekki reynt að ná neinu fram. Það vitum við ekki um og það er skaði að hafa ekki hér hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson því nógu var sú kempa vígreif í umræðum um vatnafrumvarpið á sínum tíma.

En þetta er sem sagt niðurstaðan, að því er virðist óbreytt stjórnarstefna með öllu þangað til annað kemur þá í ljós. Þetta er eins og með Írak, óbreytt stjórnarstefna nema eitthvað annað og óvænt komi í ljós á næstunni sem fátt bendir reyndar til. Það er athyglisvert að menn ákveða fyrst að mynda ríkisstjórn og síðan á eftir að fara að ræða um málin, þar á meðal deilumálin. Það er öfugt við það sem er t.d. að gerast á Írlandi núna þar sem flokkur græningja er að gerast aðili að ríkisstjórn eftir 14 daga harðar samningaviðræður um málefni, og umhverfismál ekki síst.