134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

vatnalög – hækkun launa seðlabankastjóra.

[10:44]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér heyrum við greint frá enn einu málinu sem er ófrágengið í ríkisstjórnarsamstarfinu. Það skýrist enn frekar með hverjum deginum að við búum við ríkisstjórn hins ófullgerða stjórnarsáttmála. Stjórnarflokkarnir eru ósammála um hækkun á launum seðlabankastjóra og eiga eftir að semja um niðurstöðu í því máli. Þeir eru ósammála um vatnalögin og eiga eftir að semja um niðurstöðu í því máli. Þeir eru ósammála um hvalveiðar í atvinnuskyni og eiga eftir að semja um niðurstöðu í því máli. Þeir eru ósammála um hversu langt eigi að ganga í friðun Þjórsárvera og eiga eftir að semja um niðurstöðu í því máli. Og þeir eru ósammála um niðurstöðu í starfsemi Íbúðalánasjóðs og eiga eftir að semja um niðurstöðu í því máli.

Svo er eitt mál enn sem er að vísu ekki komið fram sem ágreiningsmál á milli flokkanna en var það og er það vonandi enn og það er Ríkisútvarpið ohf. sem stjórnarandstaðan þáverandi sameinaðist um að lýsa yfir að hún mundi afnema lög um og breyta Ríkisútvarpinu til hins fyrra horfs ef hún hefði til þess þingstyrk að afloknum kosningum. Nú er Samfylkingin komin í ríkisstjórn. Hún stendur með yfirlýsingu sína um Ríkisútvarpið á herðunum og þarf að leysa úr því hvernig unnið verði að því að ná fram efnisatriðum þeirrar yfirlýsingar og ég vænti þess að Samfylkingin standi við hana og beiti sér fyrir því að afnema þessi lög um opinbert hlutafélag Ríkisútvarpsins þannig að ég vil leyfa mér að bæta því við sem sjötta málinu í hinum ófullgerða stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.