134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

vatnalög – hækkun launa seðlabankastjóra.

[10:49]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur verið ánægjulegt að hlýða á umræðurnar í morgun og þær útskýringar sem fram hafa komið hjá stjórnarandstöðunni um samstarf ríkisstjórnarflokkanna. Ég velti fyrir mér í þessari umræðu hvort einhver misskilningur kunni að vera á ferðinni, þ.e. að ríkisstjórnarsamstarf feli í sér að flokkar sameinist, að þeir verði einn, þetta verði einn og sami flokkurinn eins og kannski hefur verið undanfarin 12 ár. Ég held að menn gleymi því í þessari umræðu að hér er um tvo flokka að ræða sem hafa sameinast um verkefni. Það er einnig þannig að stjórnarsáttmálinn er ekki tæmandi hvað lýtur að öllum verkefnum sem upp kunna að koma á þessu kjörtímabili. Það er rétt að halda því til haga en þessir flokkar hafa ekki sameinast og þeir hafa áfram sína sterku skírskotun. Þannig verður það. Hins vegar eru þeir einhuga um þau verkefni sem þeir ætla að vinna.

Mig langaði aðeins að nefna hér, vegna þess að það gladdi mig alveg sérstaklega, að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir er glöð í dag. Hún lýsti því yfir að í umræðu um vatnalögin hefði hún ekki verið sérlega kát og jafnvel talað um að yfirlýsingar um form og efni hefðu aldrei komist inn fyrir skel hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar á þeim tíma. Mig langaði aðeins að nefna að það er athyglisvert að nú er verið að vinna að doktorsverkefni um nákvæmlega þetta mál og það væri mjög fróðlegt innlegg fyrir þann sem er að vinna það verkefni að heyra umræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur um þetta mál því að það voru a.m.k. andstæð sjónarmið þeim sem hafa komið fram hjá okkar helstu spekingum.