134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

frestun á fundum Alþingis.

14. mál
[10:56]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil ekki ætla hæstv. forsætisráðherra það fyrir fram að hafa áform um bráðabirgðalagasetningu. Ef ég man rétt hefur hæstv. ráðherra verið í hópi þeirra sem hafa heldur en hitt talað fyrir því að þrengja ef ekki afnema bráðabirgðalagaréttinn. Það er annað sem er kannski ástæða til að spyrja um úr því að umræður eru hafnar um þingfrestunartillögu á annað borð og það er hvort hæstv. ríkisstjórn hafi eitthvað hugleitt þann möguleika að breyta starfstilhögun Alþingis þannig að kveðja þing saman fyrr en 1. október nk. Það vill svo til að í ríkisstjórn er núna flokkur sem heitir Samfylkingin og hefur eins lengi og ég man flutt á þingi tillögur um að æskilegt væri t.d. að Alþingi kæmi saman fyrr að haustinu, gott ef fyrrverandi hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir var ekki aðalhvatamaður að þessum tillöguflutningi innan Samfylkingarinnar.

Að mörgu leyti er ekki óskynsamleg hugmynd að Alþingi komi saman eitthvað fyrr að haustinu til að hafa meiri tíma varðandi fjárlagaundirbúning og afgreiðslu og annað í þeim dúr og þyrfti ekki endilega að kalla á að fjárlagafrumvarp lægi fyrir fyrr en á svipuðum tíma og verið hefur, þ.e. 1. október, en væntanlega gæti þingið nýtt tímann fram að því til að koma ýmsum málum af stað hér. Vegna þess skipulags sem enn er á um þingstörfin, að mál þarf að endurflytja í upphafi hvers þings hafi þau ekki náð fullnaðarafgreiðslu á því sem á undan er gengið, hefur þessi hugmynd oft komið upp. Það væri kannski ekki galið að gera þá slíka breytingu í upphafi kjörtímabils ef menn eru að velta henni fyrir sér á annað borð. Þess vegna held ég að ef þetta kæmi til greina væri ágætt að það lægi fyrir nú áður en Alþingi lýkur störfum í vor.