134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[11:01]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil gera grein fyrir atkvæðum okkar framsóknarmanna í þessu máli. Afstaða okkar er sú að með þessum breytingum sé í rauninni stigið mikið óheillaskref í tryggingamálum þjóðarinnar. Hér er stefnt að ákveðnum ójöfnuði þar sem öldruðum er skipt upp í tvo hópa, 67–70 ára og svo hina eldri. Auk þess, sem er kannski alvarlegra, skiljum við líka eftir fjöldamarga aðra bótaþega þessa lands, öryrkja einkanlega, sem margir hverjir eiga mun erfiðara með að lifa af bótum sínum en fólk sem náð hefur 70 ára aldri og haft ævina til að safna nokkru fé.

Við teljum að þessi leið sé þá aðeins fær að tekjutengingar verði afnumdar hjá öllum þessum hópum í framhaldinu og munum í samræmi við það sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.

Það er rétt að vekja athygli á því að hér hefur tillaga landsfundar Sjálfstæðisflokksins fengið að fara óbreytt inn í ríkisstjórnarsamstarfið. Það er mjög miður að í samstjórn krata og sjálfstæðismanna skuli það vera Sjálfstæðisflokkurinn sem ræður í velferðarmálunum. Svo illa var þó aldrei komið fyrir Framsóknarflokknum í samstarfi með Sjálfstæðisflokki að hann þyrfti að láta Sjálfstæðisflokkinn ráða í þessum — (Gripið fram í.) Ha? Það var aldrei í velferðarmálum.

Þessi tillaga mun ekki gagnast fátæku erfiðisvinnufólki sem er útslitið um 70 ára aldur, hún mun fyrst og fremst gagnast hinum sem halda fullri starfsorku og vinna auk þess léttari vinnu. Það vita allir að það rær enginn til fiskjar og afgreiðir enginn á lager í búð 70 ára gamall. Það getur samt vel verið að ýmsir sem vinna rólegri kyrrsetustörf og hafa einmitt haft hærri laun geti nýtt sér þessi ákvæði eins og þau eru núna. (Gripið fram í.) Ég heyri ekki nema þið gasprið hærra. (SKK: Það er skurðgröfumaður fyrir austan á níræðisaldri.) (Forseti hringir.) Þeir eru til.

Það er rétt sem hefur komið fram hjá hv. alþingismanni Pétri Blöndal að hér er verið að stíga það skref að skattpeningar þjóðarinnar séu notaðir til þess að hinn fátækari borgi með hinum ríkari og viðbárur eða rökstuðningur hv. þm. Péturs Blöndals fyrir því að þetta sé gagnlegt fyrir atvinnulífið vegna þess að atvinnulífið þurfi (Forseti hringir.) á að halda þessum níræða gröfumanni sem Sigurður Kári minnist á er auðvitað svo haldlaust og fyndið að það tekur því ekki að tala um það. (Forseti hringir.)