134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[11:09]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við í Frjálslynda flokknum höfum í gegnum árin verið miklir stuðningsmenn þess að bæta stöðu eldri borgara og öryrkja í tryggingakerfinu, enda flutt um það margar tillögur. Við höfum lagt upp úr því að það væri gert til aukins jöfnuðar og einkanlega til að hífa upp kjör þeirra sem lakasta hafa stöðuna í tryggingakerfinu, bæði aldraðra og öryrkja. Breytingartillaga okkar í minni hlutanum gengur út á það að fylgja þeirri hugsjón að það eigi fyrst og fremst að jafna til þeirra og bæta stöðu þeirra sem lakast eru settir í tryggingakerfinu.

Hér er verið að leggja til af hálfu ríkisstjórnarinnar að fara allt aðra leið, þá leið að taka upp algjört frítekjumark eftir 70 ára aldur óháð tekjum, algjörlega óháð tekjum. Þetta er alveg ný leið í tryggingamálum okkar Íslendinga.

Dæmið sem ég tók í gær um manninn sem hefur e.t.v. 10 millj. í laun stendur þannig að hann á líka rétt á greiðslum frá Tryggingastofnun ef þetta verður hér lögfest sem stefnir í af hálfu ríkisstjórnarmeirihlutans. Þannig hefur tryggingakerfið ekki verið uppbyggt á undanförnum árum. Það hefur verið þannig byggt upp að reyna að hífa þá upp í rauntekjum sem lakast eru settir.

Í stefnu ríkisstjórnarinnar er líka talað um að lagfæra stöðu þeirra sem lakast eru settir í lífeyrissjóðum með því að ríkissjóður leggi peninga inn í lífeyrissjóðinn svo allir geti fengið 25 þús. kr. þaðan greiddar út. Þá má spyrja, hæstv. forseti: Ætla menn þá að setja frítekjumark á lífeyristekjur upp á 25 þús. kr. svo það muni eitthvað um þetta sem á að leggja inn af hálfu ríkisins ella taki það fullum skerðingum? Af hverjum 10 þús. kalli sem ríkisstjórnin mun leggja inn í lífeyrissjóðinn til að greiða lífeyrisþega sem á svona lítil réttindi fær ríkissjóður til baka 6.200 kr. Þannig er það, hæstv. forseti.

Við í Frjálslynda flokknum munum ekki styðja tillögu ríkisstjórnarinnar vegna þess að hún tekur ekki tillit til þeirra grunnsjónarmiða að halda áfram að reyna að bæta hag þeirra sem lakast eru settir heldur er það svo að hinn nýi lífeyrisþegi sem er yfir sjötugt (Forseti hringir.) getur fengið viðbótartekjur úr Tryggingastofnun þó að hann hafi afar háar tekjur, jafnvel (Forseti hringir.) hærri tekjur en alþingismenn.