134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[11:13]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er hvorki staður né stund lengur til að fara að rökræða ítarlega efnisinnihald þessarar tillögu eða skiptast á skoðunum frekar en við erum búin að gera í umræðunni. Ég stend hér upp til þess að minna á það sem áður hefur komið fram að hér er um að ræða einn þátt og eitt atriði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem samið var um og hefur verið lögð fram. Í krafti þess samkomulags sem gert hefur verið milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um þessa stjórnarmyndun mun ég og væntanlega þingmenn Samfylkingarinnar að sjálfsögðu greiða atkvæði með þessari tillögu og styðja framgang hennar.

Hér er efnislega um að ræða mál sem snýr að því að möguleikar 70 ára og eldri eru auknir til þess að afla sér atvinnutekna án skerðinga og ég held að það sé skref í rétta átt. Þetta er fyrsta skrefið. Málefni eldri borgara hafa forgang í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og ég hef fulla trú á því og fulla vissu fyrir því að unnið verði ötullega að þessum málefnum í sumar og haust, á komandi mánuðum, og þar fylgir hugur máli.

Af þeim sökum vil ég segja það um tillöguna sem flutt er af stjórnarandstöðunni að hún er ágæt út af fyrir sig en hún snýr öfugt við það sem frumvarpið sjálft sem hér er til meðferðar kveður á um. Með samþykki tillögu stjórnarandstöðunnar er verið að fella frumvarpið sjálft. Það gefur því augaleið að við sem styðjum frumvarpið munum greiða atkvæði gegn tillögu stjórnarandstöðunnar.

Eftir að hafa hlustað á umræður undanfarinna daga um þetta mál vil ég aðeins segja það að mér finnst vera góður andi, góður vilji, af hálfu allra þingflokkanna að vinna af heilindum að málefnum eldri borgara og ná fram bættum kjörum í þágu þeirra. Það finnst mér vera góð vísbending og góður vitnisburður um það að allir þingflokkarnir og allir þingmenn væntanlega eru sama sinnis um að miklu betur þurfi að gera fyrir hag eldri borgara.