134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[11:23]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þetta mál getur verið gott og vandað en það getur líka verið lítið og ekki neitt. Talað er um að þetta sé aðgerðaáætlun en ég vek athygli á að það er ekki eitt einasta tímasett markmið í áætluninni, það er ekki settur tímafrestur á neitt og ekki fjármagn í neitt. Þetta eru falleg orð á blaði og Framsóknarflokkurinn styður þessi fallegu áform. Við munum því greiða atkvæði með þessari svokölluðu áætlun þó að ekkert sé tímasett eða tölusett varðandi fjármagn.

Ég vek líka athygli á að það er sagt í þingsályktunartillögunni að gera eigi þessi fallegu áform að veruleika ef efnahagsaðstæður leyfa. Við erum því ekki að samþykkja raunverulega áætlun, við erum að samþykkja stefnu, fallega stefnu. Við munum styðja málið en vekjum athygli á því að ekkert af þessu er komið til aðgerða, það er ekki búið að gera neitt af þessu og hugsanlega verður mjög lítið úr þessum aðgerðum en við vonum það besta.